Lagaumhverfi þarf að styrkja
Laxey, First Water, Samherji fiskeldi, Thor landeldi og Matorka eru fimm stærstu landeldisfyrirtæki landsins. Þar starfa nú um 320 manns en í greininni í heild líklega um 4–500. Áætlað er að framleidd verði 140 þúsund tonn árið 2032 en útflutningsverðmæti eru þá áætluð 200 milljarðar króna. Orkuþörf þessarar atvinnugreinar er mikil og er áætlað að hún verði tæplega 1.200 gígavattstundir árið 2032. Lagaumhverfi greinarinnar er enn ófullnægjandi og það þarf að styrkja að mati forsvarsmanna hennar.
Lárus Ásgeirsson, formaður búgreinadeildar landeldis hjá Bændasamtökum Íslands, segir landeldisfyrirtækin sum hver stærstu einkaframkvæmd í sögu Íslands og mætti kalla þau nútíma stóriðjur. „Fyrr á árum voru útbúin sérstök lög fyrir hverja og eina stóriðju til að laða að erlenda fjárfesta og til að hjálpa starfseminni í upphafsskrefunum. Ríkið hefur ekki farið í neinar sértækar aðgerðir, sambærilegar og áður, til að styðja við rekstrarumhverfi landeldisfyrirtækjanna og um leið laða að erlenda fjárfestingu. Erlend fjárfesting er atvinnugreinum nauðsynleg til lengri tíma litið svo sem við uppbyggingu þekkingar o.fl. Lagaumgjörð landeldis þarf að styrkja til að endurspegla umsvif þessarar atvinnugreinar. Mikilvægt er að styrkja lagaumhverfi og reglugerðir þar sem áhersla er lögð á sérstöðu landeldis. Að lög og reglur endurspegli þann umhverfisvæna og sjálfbæra rekstur sem þessi fyrirtæki standa fyrir. Tryggja þarf gegnsæi og skilvirkni í leyfisveitingum. Fasteignagjöld eldismannvirkja þarf að endurskoða og sérlega mikilvægt er að skoða ívilnanir meðan fyrirtæki eru í uppbyggingarfasa.“
450 stöðugildi sem stendur
Hver er starfsmannafjöldi búgreinarinnar hérlendis sem stendur og hversu mörg eru afleidd störf?
„Erfitt er að segja með nákvæmum hætti hversu margir vinna í fiskeldi á landi þar sem ekki eru til opinber gögn um slíkt. Til að nálgast málin og ná utan um það þá óskaði ég eftir upplýsingum frá þeim fimm stóru fyrirtækjum sem eru nú starfandi og eru með fisk í eldi (Laxey, First Water, Samherji fiskeldi, Thor landeldi og Matorka). Talið er að þar séu nú starfandi um 320 starfmenn/ stöðugildi. Ef miðað er við þá forsendu að um 80% allra starfsmanna í fiskeldi starfa hjá þessum fyrirtækjum, þá eru starfandi um 400 manns í landeldi á Íslandi. Hins vegar er það svo að mikill fjöldi framleiðenda framleiðir mjög lítið magn, bæði smærri fyrirtæki sem njóta ekki stærðarhagkvæmni sem og fyrirtæki sem einungis stunda seiðaeldi. Til að mæta því, með varfærnum hætti, þá er 50 starfsmönnum bætt við. Í heildina er því talið að um 450 stöðugildi séu í fiskeldi á landi á Íslandi á laxi og bleikju. Ef allar fisktegundir eru taldar með gæti þessi tala farið hæglega upp í 500 starfsmenn. Þessi störf eru öll háframleiðnistörf.“
Lárus segir að gera megi ráð fyrir því að óbein og afleidd störf séu um 350 að þeim forsendum gefnum að fyrir hvert starf í fiskeldi verði til 0,7 störf í afleiddum og óbeinum störfum.
„Langmest uppbygging í landeldi er hjá fyrrgreindum fimm landeldisfyrirtækjum sem eru nú starfandi og stunda eldi. Áætlað er að um 400 manns séu starfandi hjá þessum fimm fyrirtækjum í framkvæmdum. Ef við gefum okkur að það séu fimmtíu starfsmenn í uppbyggingu í öðrum landeldisfyrirtækjum þá eru samtals 450 að starfa við uppbyggingu landeldis á landi árið 2025. Í heildina má því áætla að um 1.300 starfsmenn vinni við rekstur og uppbyggingu á fiskeldi á landi árið 2025.“
Hversu mikið gæti áætlaður fjöldi starfa innan greinarinnar aukist næstu ár?
„Út frá framtíðaráformum stærstu landeldisfyrirtækjanna sem nú eru starfandi og eru í rekstri og ef miðað er við að þau fyrirtæki muni endurspegla 85% starfsmanna í greininni þá er talið að um 2.300 starfmenn muni starfa með beinum og óbeinum hætti við rekstur og framkvæmdir fyrirtækjanna árið 2032 þegar núverandi uppbyggingaráform eiga að hafa raungerst.“
140 þúsund tonn 2032 að verðmæti 200 milljarðar
Hver er áætluð framleiðsla árið 2032?
„Árið 2032 ættu öll núverandi uppbyggingaráform að vera komin fram hjá þeim fyrirtækjum sem nú eru í landeldi á laxi og bleikju og fyrr hafa verið nefnd.
Ef miðað er við að þau fyrirtæki muni endurspegla 85% framleiðslumagns í greininni þá er talið að um 100 þúsund tonn verði framleidd hjá landeldisfyrirtækjum á Íslandi, m.v. núverandi uppbyggingaráform, þ.e. af heilum slægðum fiski (HOG). Árið 2032 er þessi tala áætluð 140 þúsund tonn, en þá ættu núverandi uppbyggingaráform að vera komin fram að fullu. Framleiðsluverðmæti eru áætluð 200 milljarðar kr.“
Orkuþörf næstu ára tryggð
Orkuþörf landeldis er mikil. Ef miðað er við að það þurfi 6,0 kílóvattstundir (kWh) til að framleiða 1 kg af fiski má búast við að árið 2030 muni framleiðendur á laxi og bleikju nota um 700 gígavattstundir (GWh) og uppsett afl um 84 MW, segir Lárus.
„Árið 2032 eru þessar tölur áætlaðar tæplega 1.200 gígavattstundir (GWh) og uppsett afl um 140 MW til framleiðslu á laxi og bleikju.“
Sjáið þið fyrir ykkur að orkuþörfinni verði mætt að fullu á næstu árum?
„Já, við teljum að íslenskir orkusalar muni styðja vel við þá uppbyggingu sem á sér stað í landeldi. Stóru orkufyrirtækin þrjú sem selja til stórnotenda, Landsvirkjun, HS orka og Orka náttúrunnar hafa öll gert langtímasamninga við þau stóru íslensku landeldisverkefni sem unnið er að. Undirritaðir hafa verið fimm stórnotendasamningar. Græn sjálfbær matvælavinnsla er á forgangslista íslenskra raforkusala. Starfsemin styður vel við mörg af þeim grænu gildum sem orkufyrirtækin hafa, s.s. varðandi sjálfbærni, matvælaöryggi o.fl. Auk þess er raforkunotkun landeldisfyrirtækjanna jöfn og stöðug allt árið, sem er mikill kostur fyrir orkufyrirtækin, þ.e. að nýtingarhlutfallið sé hátt. Landeldisfyrirtækin eru því mjög góður og stöðugur viðskiptavinur með mikinn fyrirsjáanleika. Stóru landeldisfyrirtækin eru að nýta sjálfbæra endurnýjanlega orku til framleiðslunnar. Raforkan til framleiðslunnar er svo endurnýtt að hluta í framleiðsluferlum fyrirtækjanna. Íslensku eldisfyrirtækin eru að skapa mikil verðmæti sem byggja á sjálfbærri, umhverfisvænni orku sem getur skapað fyrirtækjunum ábata. Fyrirtækin hafa sum verið að kaupa grænar upprunaábyrgðir á raforkunni til að styðja betur við þá umhverfisvænu vegferð sem þau eru á. Landeldi á fiski er hátækni-matvælaframleiðsla þar sem íslensk raforka er notuð við að tryggja fæðuöryggi landsins og efla íslenskt atvinnulíf, fyrst og fremst á landsbyggðinni.
Eftirspurn eftir raforku á Íslandi hefur verið umfram framboð. Það fá ekki allir þá raforku sem þeir óska eftir. Landeldisfyrirtækin hafa hins vegar verið að gera langtímasamninga sem mætir þeirra orkuþörfum. Það er þó svo að orkufyrirtækin hafa verið að setja fyrirvara í langtímasamninga varðandi orkusölu. Ástæðan er fyrst og fremst sú óvissa sem er uppi varðandi frekari virkjunarkosti á Íslandi. Það er hins vegar alveg ljóst að mikill velvilji er á meðal orkufyrirtækjanna að tryggja raforku til landeldis í framtíðinni. Raforkuþörf fyrirtækjanna á allra næstu árum er tryggð.
Hin hliðin á raforkupeningnum er flutningur og dreifing á raforkunni, sem þarf að haldast í hendur við aukna raforkunotkun. Stóra myndin er sú að Landsnet sinnir að mestu flutningi á raforku og dreifiveitur skila svo orkunni til notenda innan sveitarfélaga. Það er einungis á færi stærstu fiskeldisfyrirtækjanna að komast í stórnotendaviðskipti við raforkuheildsala, s.s. Landsvirkjun og við stórnotendaflutning, s.s. hjá Landsneti. Önnur fiskeldisfyrirtæki þurfa að versla við smásala á raforku og dreifiveitur. Það er mjög mikilvægt fyrir landeldisfyrirtækin og atvinnulífið í heild að fjárfest sé í flutningsinnviðum á rafmagni til að efla orkuöryggi.“
