Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 6 ára.
Guðfinna Harpa Árnadóttir, for­maður Landssamtaka sauð­fjárbænda,
Guðfinna Harpa Árnadóttir, for­maður Landssamtaka sauð­fjárbænda,
Fréttaskýring 20. ágúst 2019

Lækkun tolla vinnur gegn innlendri framleiðslu

Höfundur: Vilmundur Hansen


Guðfinna Harpa Árnadóttir, for­maður Landssamtaka sauð­fjárbænda, segir að í byrjun ágúst hafi legið fyrir niðurstaða ráð­gjafarnefndar um inn- og útflutning landbúnaðarvara þess efnis að ekki sé skortur á hryggjum og hryggsneiðum á Íslandi.

„Þar af leiðandi stendur ekki til að fella niður eða lækka magn- og verðtolla á hryggi og hryggsneiðar. Áður hafði nefndin komist að annarri niðurstöðu og lagt til verulega lækkaðan toll um mánaðartíma rétt fyrir og í upphafi sláturtíðar. Á þessum mánuði hefði hugsanlega mátt flytja inn ótakmarkað magn nema sérstök skilyrði hefðu verið sett.

Skorts­ákvæðið í búvörulögunum getur virkað þannig að inn sé flutt á lækkuðum eða niðurfelldum tollum mikið magn af ákveðinni vöru ef geymsluþolið er mikið og innflytjendur taka áhættuna, þrátt fyrir að skorturinn teldi aðeins rétt rúmlega 10% af eftirspurn tveggja dreifingaraðila. Sömuleiðis þarf ekki mjög mikið til að skortur sé úrskurðaður og því iðulega felldir niður tollar á grunni ákvæðisins til dæmis á kartöflum og öðru grænmeti á miðjum vetri þegar tveir framleiðendur eru uppiskroppa.

Grefur undan matvöruframleiðslu

Guðfinna segir að fyrirkomulagið geti grafið undan framleiðslu á matvöru hér innanlands. „Ef framleiðendur eiga það á hættu að koma ekki sinni vöru að í verslunum vegna þess að innflutt vara er þar fyrir á hærri framlegð fyrir verslunina, þá draga þeir saman í sinni framleiðslu þar sem hún verður ekki arðbær. Það er nefnilega ekki alltaf öruggt að tímabundin niðurfelling á tolli skili sér í lækkuðu verði til neytenda.“

Guðfinna segir að innflutningur á þessum vörum sé hins vegar ekki óheimill og því geta innflytjendur og verslunar­eigendur boðið hana þeim sem þær kjósa og þá á sambærilegu verði og innlenda vöru. „Jafnvel er inn­flutt vara í einhverjum tilfellum ódýrari þrátt fyrir tolla þar sem upphæðir tolla hafa ekki verið endurskoðaðar um langa hríð og fram­leiðslu­kostnaður minni víða erlendis.

Landssamtök sauðfjárbænda hafa ekki upplýsingar um verð til neytenda á innfluttu lambakjöti nú í sumar svo ekki hefur verið lagt mat á það hvort það er samkeppnishæft við það innlenda á verðgrunni. Lambakjötsverð til sauðfjárbænda í Nýja-Sjálandi er í það minnsta hærra en til íslenskra á þessu ári.

Skortir verkfæri til að mæta markaðsbrestum

Landssamtök sauðfjárbænda hafa gagnrýnt margt í þeirri atburðarás sem leiddi til þess að umræða kom upp um innflutning á hryggjarvörum.

„Landssamtök sauðfjárbænda hafa bent á að hér skorti verkfæri sem taki á þeirri stöðu sem verður þegar brestir verða á mörkuðum. Slíkir fyrirvarar eru byggðir inn í flest landbúnaðarkerfi og með þeim reynt að forða stjórnlausu hruni. Landssamtök sauðfjárbænda hafa bent  á að nauðsynlegt sé að stýra að einhverju marki þeim hluta framleiðslunnar sem er fluttur úr landi, þó þannig að sem minnst inngrip verði í eðlilega markaðsþróun. Þannig má með auðveldari hætti takast á við sveiflur og jafnframt tryggja nægt vöruframboð á innanlandsmarkaði,“ segir Guðfinna.

Hún bendir á að þegar tollar eru felldir niður vegna skorts á ákveðinni vöru þá þurfi magnið sem flutt er inn að vera í samræmi við áætlaðan skort og þann tíma sem skortsástand varir. 

„Þá þarf líka með einhverjum hætti að tryggja að þrátt fyrir niðurfellingu tolla sé ekki verið að flytja inn vöru á verði sem raskar jafnvægi í verðmyndun á markaði.“

Að sögn Guðfinnu getur niður­felling og lækkun tolla unnið gegn því að innlend framleiðsla blómstri. Tollarnir séu settir á til þess að auka samkeppnishæfni inn­lendrar framleiðslu og stuðla þannig að matvælaöryggi, styðja við innlend störf og að einhverju leyti af byggðasjónarmiðum.

Lausn á vísnagátu
Líf&Starf 24. nóvember 2025

Lausn á vísnagátu

Lausnin á vísnagátu Guðbjörns Sigurmundssonar í síðasta Bændablaði er orðið mál.

Skákmánuðurinn janúar
Líf&Starf 3. febrúar 2025

Skákmánuðurinn janúar

Janúarmánuður hefur lengi verið frekar stór skákmánuður á Íslandi. Í þeim mánuði...

Þörfnumst heilbrigðara sambands við tímann
Líf&Starf 13. desember 2024

Þörfnumst heilbrigðara sambands við tímann

Carl Honoré, sem gjarnan hefur verið kallaður rödd alþjóðlegu Hæglætishreyfingar...

Sækja áhrif til Suður-Evrópu
Líf&Starf 9. október 2024

Sækja áhrif til Suður-Evrópu

Í síðustu úthlutun Matvælasjóðs fengu bændur í Syðra-Holti í Svarfaðardal rúmleg...

Brautryðjandi í búskap með íslenska hesta í Noregi
Líf&Starf 14. ágúst 2024

Brautryðjandi í búskap með íslenska hesta í Noregi

Ingebjørg Helkås Vaa fæddist í Noregi 14. júlí 1933, yngst fimm systkina. Hún va...

Stjörnuspá vikunnar
Líf&Starf 2. júlí 2024

Stjörnuspá vikunnar

Vatnsberinn veit vart í hvorn fótinn hann á að stíga þessa dagana. Lífið virðist...

Heitt poppkorn er hollt sælgæti!
Líf&Starf 10. maí 2022

Heitt poppkorn er hollt sælgæti!

Svo hljóðaði auglýsing er birtist á síðu Morgunblaðsins í júlílok árið 1968 - en...

Lesning fyrir heilabilaða
Líf&Starf 4. maí 2022

Lesning fyrir heilabilaða

Þegar ég setti saman bókina Í húsi afa míns sem kom út fyrir tólf árum, hvarflað...