Kjötbókin 30 ára
Kjötbókin er 30 ára á þessu ári. Hún kom fyrst út í prentaðri útgáfu árið 1994 og svo endurútgefin í rafrænni útgáfu 2011 og er öllum er opin.
Í Kjötbókinni er að finna margvíslegar upplýsingar um kjötafurðirnar sem eru í framleiðslu á Íslandi; skrokkhluta, kjötmat, vinnslu og matreiðslu meðal annars. Óli Þór Hilmarsson, verkefnisstjóri hjá Matís, var ásamt þeim Guðjóni Þorkelssyni og Gunnþórunni Einarsdóttur í ritnefnd bókarinnar þegar hún var gefin út rafrænt. „Það hefur verið ákveðið að fara í vinnu við að uppfæra bakenda bókarinnar, sem sumir hverjir eru að verða ansi stirðir og laskaðir. Til dæmis eru upplýsingar undir lambakjötskaflanum um efnainnihald orðnar nokkuð gamlar. Í lok síðasta árs var skýrslan „Hlutfall kjöts, fitu og beina í lambakjöti“ til dæmis gefin út, sem gefur okkur alveg nýjar upplýsingar,“ segir Óli Þór.

„Þá er töflugrunnurinn í bókinni svo úreltur að það tekur því ekki að færa nýjar upplýsingar þar inn, heldur uppfæra hann í heild sinni,“ heldur Óli Þór áfram.
Hann segir að þar sem bókin sé á rafrænu formi þá sé hægt að fylgjast með innliti fólks inn í bókina. „Við höfum séð að síðastliðna 12 mánuði hafa verið 83.600 innlit, sem gerir að jafnaði 230 á sólarhring með hámarksaðsókn rétt fyrir jól upp á 400 innlit.“
Kjötbókin er sem fyrr segir öllum aðgengileg, en hún liggur á vefslóðinni www.kjotbokin.is.
