Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 6 mánaða.
Diana Esther O. Gunnarsdóttir, 9 ára, í köngulóarstöðu.
Diana Esther O. Gunnarsdóttir, 9 ára, í köngulóarstöðu.
Mynd / Hestamannafélagið Geysir
Fréttir 26. maí 2025

Kattliðugir knapar

Höfundur: Guðrún Hulda Pálsdóttir

Styrkur og einbeiting skein úr augum nokkurra barnungra knapa á æskulýðssýningu hestamannafélagsins Geysis á dögunum. Þau sýndu þar afrakstur æfinga vetrarins í hestafimleikum, en þessi áhugaverða íþrótt nýtur vaxandi hylli hér á landi.

Í vetur hafa yfir fjörutíu börn sótt námskeið í hestafimleikum hjá hestamannafélaginu Geysi á Hellu. Reiðkennarinn Jónína Lilja Pálmadóttir hefur umsjón með námskeiðinu en hún kynntist sportinu í heimahögunum í Húnavatnssýslu hjá hestamannafélaginu Þyt fyrir nokkrum árum.

„Kathrin Schmitt er frumkvöðullinn hér á landi en hún æfði hestafimleika í Þýskalandi þegar hún var yngri og kynnti þetta hér og hefur verið með námskeið hjá Þyt í yfir fimmtán ár,“ segir Jónína Lilja. Hún var Kathrinu til aðstoðar í tvö ár áður en hún flutti á Hellu og flutti þá þekkinguna með sér á Suðurlandið. „Þetta er þrælsniðug íþrótt sem eflir jafnvægið mikið og þjálfar bæði styrk, þol og teygjanleika. Ég finn það á dóttur minni sem hefur æft í tvö ár. Þegar hún er komin í hnakkinn á hestbaki þá haggar henni ekkert,“ segir Jónína.

Hestafimleikar eru, eins og nafnið bendir til, fimleikar á hestbaki. Hesturinn fer um á feti eða brokki á meðan knaparnir sýna fimleikalistir á baki hestsins sem búinn er sérstakri dýnu og gjörð með handföngum.

Jónína segir hestafimleika sniðugt fyrsta skref í reiðmennsku enda þurfi þátttakendur hvorki að eiga hest né hafa bakgrunn í hestamennsku eða fimleikum. „Við leggjum mikið upp úr umönnun hestanna svo allir fá að upplifa nándina við dýrið. Sumir hafa aldrei komið nálægt hesti áður og læra þannig almenna umhirðu. Íþróttin eflir liðsanda þótt hún sé mjög einstaklingsmiðuð. Þá er engin aldurs- eða kynjaskipting,“ segir hún en börnin sem æfðu hjá henni í vetur voru á aldrinum 3–13 ára.

„Hugtökin sem við vinnum með er agi, traust og samvinna. Þá þurfa krakkarnir að búa yfir sjálfstrausti til að vaða í að sýna fimleikaæfingar á hesti sem hreyfir sig,“ segir Jónína. Á sýningunni mátti meðal annars sjá börn standa á höndum á hestbaki og knapa vinna saman í hinum ýmsu stöðum sem kallaði á mikið traust til hvort annars.

Erlendis eru hestafimleikar stundaðir sem keppnisform og telst ein af tíu hestaíþróttagreinum sem eru viðurkenndar af Alþjóðahestaíþróttasambandinu (FEI). Jónína telur hestafimleika vera góða viðbót við íslenska hestamennsku. „Íslenski hesturinn hentar vel fyrir þessa íþrótt, enda eru þeir með gott geðslag. Íþróttin eflir jafnvægið gríðarlega og það skiptir gífurlegu máli. Þá virðast börnin hafa rosalega gaman af þessu,“ segir Jónína.

9 myndir:

Lausn á vísnagátu
Líf&Starf 24. nóvember 2025

Lausn á vísnagátu

Lausnin á vísnagátu Guðbjörns Sigurmundssonar í síðasta Bændablaði er orðið mál.

Skákmánuðurinn janúar
Líf&Starf 3. febrúar 2025

Skákmánuðurinn janúar

Janúarmánuður hefur lengi verið frekar stór skákmánuður á Íslandi. Í þeim mánuði...

Þörfnumst heilbrigðara sambands við tímann
Líf&Starf 13. desember 2024

Þörfnumst heilbrigðara sambands við tímann

Carl Honoré, sem gjarnan hefur verið kallaður rödd alþjóðlegu Hæglætishreyfingar...

Sækja áhrif til Suður-Evrópu
Líf&Starf 9. október 2024

Sækja áhrif til Suður-Evrópu

Í síðustu úthlutun Matvælasjóðs fengu bændur í Syðra-Holti í Svarfaðardal rúmleg...

Brautryðjandi í búskap með íslenska hesta í Noregi
Líf&Starf 14. ágúst 2024

Brautryðjandi í búskap með íslenska hesta í Noregi

Ingebjørg Helkås Vaa fæddist í Noregi 14. júlí 1933, yngst fimm systkina. Hún va...

Stjörnuspá vikunnar
Líf&Starf 2. júlí 2024

Stjörnuspá vikunnar

Vatnsberinn veit vart í hvorn fótinn hann á að stíga þessa dagana. Lífið virðist...

Heitt poppkorn er hollt sælgæti!
Líf&Starf 10. maí 2022

Heitt poppkorn er hollt sælgæti!

Svo hljóðaði auglýsing er birtist á síðu Morgunblaðsins í júlílok árið 1968 - en...

Lesning fyrir heilabilaða
Líf&Starf 4. maí 2022

Lesning fyrir heilabilaða

Þegar ég setti saman bókina Í húsi afa míns sem kom út fyrir tólf árum, hvarflað...