Jólakötturinn í Freyvangi
Það ættu allir að eiga sinn stað í tilverunni, sama hversu skrítnar skrúfur þeir telja sig vera. Margir kannast þó við að passa ekki alltaf inn í eða vera frábrugðinn öðrum, meira að segja jólakötturinn!
Jólasýning Freyvagnsleikhússins að þessu sinni hleypir gestum sínum inn í hugarheim jólakattarins sjálfs, sem fær algerlega nóg af gleðinni í kringum sig og ákveður að fara að heiman, fúll og önugur. Um ræðir hugljúft jólaævintýri eftir formann Freyvangs, Jóhönnu S. Ingólfsdóttur, sem byggir söguna á hinum alíslenska jólaketti auk annarra vel þekktra sögupersóna.
Jóhanna sér um leikstjórn verksins sem frumsýnt er þann 21. nóvember kl. 20 og hentar öllum aldurshópum. Tónlistin er í höndum Eiríks Bóassonar, sem frumsemur tónana – nú í þriðja sinn fyrir barnaleikrit að jólum í Freyvangsleikhúsinu. Hallur Örn Guðjónsson er í aðalhlutverki og er stórskemmtilegur í hlutverki hins önuga jólakattar.
Miða má finna á Tix en til viðbótar verða sýningar allar helgar fram að jólum klukkan 13.
