Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 6 ára.
33 tommu breyttur Jeep Grand Cherokee Trailhawk.
33 tommu breyttur Jeep Grand Cherokee Trailhawk.
Mynd / HLJ
Á faglegum nótum 9. janúar 2019

Jeep Grand Cherokee Trailhawk á 33 tommum

Höfundur: Hjörtur L. Jónsson
Á landbúnaðarsýningunni í Laugardal í haust var Ís-Band með nokkra eigulega bíla til sýnis. Þar á meðal var Jeep Grand Cherokee Trailhawk sem seldist strax eftir sýninguna áður en ég náði að prófa hann, en þeir í Ís-Band útbjuggu annan svipaðan og lánuðu mér til prufuaksturs eina helgi.
 
Það verður einfaldlega að viðurkennast að ég hef ekki keyrt svona skemmtilegan bíl á vondum vegum lengi og möguleikarnir sem þessi breyting býður upp á er vel heppnuð. 
 
Hátt undir bílinn án þess að hann sé hækkaður á loftpúðunum.
 
Loftpúðafjöðrunin virkar skemmtilega á möl og í slóðaakstri
 
Grunnverðið á Jeep Grand Cherokee Trailhawk er 12.690.000, en þessi bíll var 33 tommu breyttur og með auka króka að framan, með stigbretti ásamt fleiru og kostar þessi breyting um 830.000. Breytingin er hverrar krónu virði, bíllinn verður eigulegri, betri á malarvegum og á torfærum slóðum. 
 
Malarvegurinn sem ég prófaði bílinn á var frekar ósléttur og var hreint unaður að keyra bílinn á ósléttum veginum. Loftpúðafjöðrunin hreinlega virtist „gleypa“ allar ójöfnur og maður virtist hreinlega svífa í þriggja feta hæð. Út frá malarveginum var enn verri slóði með töluverðum hrygg í miðjunni sem var ekki vandamál þar sem hægt er að hækka bílinn upp um nokkra sentímetra með loftpúðunum (ekki ósvipað og margir vörubílar sem hægt er að hækka á loftpúðunum). Snilldar útbúnaður og frábær fjöðrun fyrir torfæra vegi og vegslóða.
 
Öryggi og þægindi sama hvar litið er
 
Að keyra Jeep Grand Cherokee Trailhawk er hreinn unaður, sætin er hægt að stilla á marga vegu, sætishitari og kæling eru í framsætunum og í aftursætum er sætishitari og sérstök miðstöð fyrir aftursætisfarþega sem þeir geta stjórnað. 
 
Hiti í stýri, 7 tommu upplýsinga­skjár í mælaborði, brekkuhaldari, hátt og lágt drif (læst mismunadrif að aftan), hlífðarpönnur undir vél kössum og eldsneytistank, Bi-Xenon framljós, sem þarf reyndar að muna að kveikja á til að fá afturljósin á til að vera löglegur í íslenskri umferð. Upphitaðir hliðarspeglar, USB og AUX tengi (bæði fram í og aftur í), fjarlægðaskynjarar að framan og aftan, sjálfvirkur radarvari, blindhornsvörn í hliðarspeglum ásamt fleiru sem gerir bílinn í alla staði eigulegan.
Með svona kraftmikla vél á ekki að horfa í eyðslu
 
Margir hugsa um eyðslu þegar verið er að versla ökutæki, en með þessa 3000 cc. dísilvél sem skilar 250 hestöflum finnst mér eyðslan vera aukaatriði.
 
Fyrstu 20 km ók ég innanbæjar og var ég ekkert að hlífa bílnum og enn síður að keyra sparakstur og var mín eyðsla samkvæmt aksturstölvunni nálægt 16-17 l á hundraðið. Næst var það jafn akstur í um 50 km á um 90 km hraða og var þá eyðslan ekki nema rúmir 9 lítrar á hundraðið. Ekki mikið miðað við aksturslag á bíl sem er á 33” dekkjum. 
 
Uppgefin meðaleyðsla á óbreyttum bíl er 7 lítrar á hundraðið í blönduðum akstri. Dráttargeta er uppgefin frá 2800 upp í 3300 kg. Það fer eftir gerðum, en Jeep Grand Cherokee bílarnir eru fimm og með mismunandi drifbúnaði. 
 
Hæð undir lægsta punkt er minnst 22 cm, en svo er hægt að hækka bílinn á loftpúðunum um nálægt 10 cm.
 
Prufuaksturinn um 150 km
 
Alls ók ég bílnum nálægt 150 km og sama hvað var prófað þá var alltaf gott að keyra bílinn, sætin þægileg og fótapláss gott. Á malarveginum heyrðist nánast ekkert malarhljóð undir bílnum og hann var þýður og mjúkur á holóttum malarveginum. 
 
Á bundnu slitlagi fann maður ekki að þessi bíll væri 33” breyttur og þurfti ég að passa mig á að fara ekki of hratt þar sem að bíllinn virtist vera á minni ferð en raun var og margoft stóð ég mig að því að aka á „hárri“ þriggja stafa tölu þegar ég hélt mig vera á löglegum hraða.
Einhver eigulegasti jeppi sem ég hef prófað lengi
 
Það verður að viðurkennast að þessi bíll er einhver sá skemmtilegasti jeppi sem ég hef prófað lengi og mjög fátt sem ég náði að finna að honum annað en að maður þarf alltaf að muna að kveikja ljósin til að fá afturljósin á bílinn svo að maður verði löglegur í umferð. Satt best að segja langar mig í einn svona. Eins og áður segir er hægt að fá fimm mismunandi Jeep Grand Cherokee  á verði frá 10.660.000 upp í 15.770.000, en bíllinn sem prófaður var kostar með breytingunni nálægt 13.500.000, en nánari upplýsingar má nálgast hjá sölumönnum Ís-band.
 
Helstu mál og upplýsingar:
 
Þyngd 2.315 kg
Hæð 1.790mm
Breidd 1.940 mm
Lengd 4.830 mm
 

 

7 myndir:

Lausn á vísnagátu
Líf&Starf 24. nóvember 2025

Lausn á vísnagátu

Lausnin á vísnagátu Guðbjörns Sigurmundssonar í síðasta Bændablaði er orðið mál.

Skákmánuðurinn janúar
Líf&Starf 3. febrúar 2025

Skákmánuðurinn janúar

Janúarmánuður hefur lengi verið frekar stór skákmánuður á Íslandi. Í þeim mánuði...

Þörfnumst heilbrigðara sambands við tímann
Líf&Starf 13. desember 2024

Þörfnumst heilbrigðara sambands við tímann

Carl Honoré, sem gjarnan hefur verið kallaður rödd alþjóðlegu Hæglætishreyfingar...

Sækja áhrif til Suður-Evrópu
Líf&Starf 9. október 2024

Sækja áhrif til Suður-Evrópu

Í síðustu úthlutun Matvælasjóðs fengu bændur í Syðra-Holti í Svarfaðardal rúmleg...

Brautryðjandi í búskap með íslenska hesta í Noregi
Líf&Starf 14. ágúst 2024

Brautryðjandi í búskap með íslenska hesta í Noregi

Ingebjørg Helkås Vaa fæddist í Noregi 14. júlí 1933, yngst fimm systkina. Hún va...

Stjörnuspá vikunnar
Líf&Starf 2. júlí 2024

Stjörnuspá vikunnar

Vatnsberinn veit vart í hvorn fótinn hann á að stíga þessa dagana. Lífið virðist...

Heitt poppkorn er hollt sælgæti!
Líf&Starf 10. maí 2022

Heitt poppkorn er hollt sælgæti!

Svo hljóðaði auglýsing er birtist á síðu Morgunblaðsins í júlílok árið 1968 - en...

Lesning fyrir heilabilaða
Líf&Starf 4. maí 2022

Lesning fyrir heilabilaða

Þegar ég setti saman bókina Í húsi afa míns sem kom út fyrir tólf árum, hvarflað...