Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 2 mánaða.
Timburstaflar í vinnslustöð Skógarafurða. Þátttakendur á vinnustofunni á Egilsstöðum virða afurðina fyrir sér.
Timburstaflar í vinnslustöð Skógarafurða. Þátttakendur á vinnustofunni á Egilsstöðum virða afurðina fyrir sér.
Á faglegum nótum 24. september 2025

Jafningjafræðsla sem lykill að sjálfbærni

Höfundur: Sigurður Torfi Sigurðsson, verkefnastjóri Loftslagsvæns landbúnaðar.

Í sumar fóru fram fjórar staðarvinnustofur á vegum verkefnisins Loftslagsvænn landbúnaður. Vinnustofur sem þessar hafa verið haldnar á hverju sumri frá upphafi verkefnisins, yfirleitt á búum þátttakenda, og miðast viðfangsefni vinnustofanna við það sem einkennir hvert gestgjafabú og þá þætti sem þau leggja áherslu á í verkefninu. Á vinnustofurnar mæta bændur sem eru þátttakendur í verkefninu, ráðunautar sem vinna við verkefnið f.h. RML og sérfræðingar frá Landi og skógi. Markmiðið með þeim er að skapa vettvang fyrir bændur til að koma saman á þeirra heimavelli, skoða hvað gestgjafar eru að gera og ræða leiðir til að bæta búskaparhætti m.t.t. loftslagsvænna áherslna. Vinnustofurnar í sumar voru haldnar á Bessastöðum við Hrútafjörð, Heiðarbæ 1 í Þingvallasveit, Egilsstöðum í Fljótsdal og Fljótshólum í Flóahreppi. Góð mæting var á allar vinnustofurnar og sýna þær vel hvernig jafningjafræðsla og staðbundin þekking getur verið drifkraftur að breytingum í átt að sjálfbærari framtíð.

Bessastaðir – fóðuröflun, skógrækt og beitarstýring

Á Bessastöðum var fókusinn á fóðuröflun og jarðrækt en þar leggja bændur ríka áherslu á að viðhalda góðri ræktun í túnum og að framleiða gott gróffóður til að viðhalda háum afurðum mjólkurkúa. Jafnframt leggja bændur á Bessastöðum mikla áherslu á að ræktunarland skili góðri uppskeru. Þau hafa náð miklum árangri við gerð lokræsa og ná þannig að hafa spildur stærri og jafnari að lögun en þegar ræst er fram með hefðbundnum framræsluskurðum og við skipulag ræktunarlands leggja þau áherslu á að aðkoma sé góð að spildum og að aðkomuleiðir séu a.m.k. á tveimur stöðum. Ef aðkomuleiðir í spildur eru góðar er hægt að takmarka óþarfa umferð um tún og þar með óþarfa jarðvegsþjöppun. Með góðri jarðrækt og fóðrun má ná fram bæði loftslagslegum og hagrænum ávinningi. Eftir því sem spildur eru stærri og jafnari að lögun verða jaðaráhrif á uppskeru hlutfallslega minni, reikna má með að uppskera verði meiri pr. ha og vinnslubreidd véla nýtist betur, sem dregur úr eldsneytisnotkun og hefur þá bæði loftslagsvæn og hagræn áhrif. Góð meðhöndlun jarðvegs skilar meiri gæðum og magni uppskeru og góð nýting fóðurauðlinda dregur úr þörf fyrir innflutt fóður sem minnkar kolefnisspor búsins. Góð gæði gróffóðurs er lykill að háum afurðum hjá mjólkurkúm og hefur jákvæð áhrif þegar horft er til mælinga á losun gróðurhúsalofttegunda jórturdýra.

Skógrækt var einnig til umræðu, bæði nytjaskógrækt og ræktun skjólbelta. Þann dag sem vinnustofan var haldin var norðan slagviðri með rigningu og slyddu og fengu þátttakendur þannig af eigin raun að kynnast áhrifum skjólbelta. Skógrækt og skjólbelti gefa ekki einungis skjól heldur hafa einnig margþætt loftslagsáhrif, binda kolefni, geta haft jákvæð áhrif á jarðveg og með auknu skjóli geta skapast oft betri vaxtarskilyrði fyrir annan gróður, t.d. túngrös.

Að lokum var fyrirkomulag beitarstýringar í hrossahögum skoðað bæði út frá hagræðingu í vinnu og nýtingu á landi m.t.t. umhverfisáhrifa. Rétt beitarstýring getur stuðlað að betri nýtingu beitarlands, viðhaldið breytileika í gróðri og komið í veg fyrir rýrnun jarðvegs vegna ofbeitar. Með markvissri beitarstýringu má draga úr áhrifum ofbeitar og álags á jarðveg, sem hefur jákvæð áhrif á loftslag og bætir afkomu til lengri tíma.

Heiðarbær – sauðfjárrækt, stafrænar lausnir og uppgræðsla

Heiðarbær 1 er eitt af afurðahæstu sauðfjárbúum landsins. Aðalumræðuefni vinnustofunnar var sauðfjárrækt með áherslu á hvernig auka megi afurðir og bæta afkomu búa með góðri aðstöðu og aukinni skilvirkni í vinnu. Á Heiðarbæ 1 leggja bændur áherslu á að vel fari um búfé og að vinnuaðstaða sé góð. Uppsetning og innréttingar í fjárhúsum miða að því að vinna sé skilvirk og að einfalt sé fyrir eina manneskju að sinna daglegum bússtörfum. Rekstrargangar til flokkunar, sauðburðaraðstaða og annað sem tilheyrir fjárragi og daglegum störfum er haglega hannað til að auðvelt sé að hafa yfirsýn, hlúa að og sinna þörfum gripa. Sama er um fyrirkomulag og aðkomu í beitarhólf, þau eru skipulögð á þann hátt að sem minnst rask verði á lambfé og sem flest lömb skili sér til nytja. Góð aðstaða og skilvirkni í vinnu eru þannig lykillinn að góðri afurðasemi búsins. Þetta sýnir hvernig hagræðing í vinnuumhverfi og góð aðstaða hefur jákvæð áhrif á loftslag. Það verða meiri afurðir, minni sóun, betri nýting, aukin afköst og minna kolefnisspor.

Stafrænar lausnir í búfjárrækt og úthagabeit voru einnig til umræðu. Til eru fjölmargar tæknilausnir sem gera bændum kleift að fylgjast með búfé og beitarlandi í rauntíma og ákvarðanir byggðar á gögnum fremur en tilfinningu eða vana. Þessi tækni hefur ekki verið notuð hér á landi nema að litlu leyti en með henni geta bændur fylgst með hreyfingu og hegðun búfjár, hámarka má nýtingu beitarlands og koma í veg fyrir ofbeit. Þetta stuðlar að betri jarðvegsvernd, aukinni kolefnisbindingu og minni losun gróðurhúsalofttegunda. Þessi tækni getur einnig haft hagræn áhrif, bændur fá betri yfirsýn yfir búfé í sumarhögum og þörf fyrir vinnuafl verður minni. Þetta getur létt álag á bændum, aukið öryggi í rekstri og gert búskapinn aðlaðandi fyrir yngri kynslóðir og stuðlað að kynslóðaskiptum í landbúnaði.

Að lokum voru skoðuð landgræðslusvæði þar sem stunduð hefur verið uppgræðsla um áratugaskeið. Uppgræðslan hefur bætt og aukið nýtingargildi beitarlands og aukið þannig virði þess. Uppgræðsla hefur bein loftslagsáhrif – hún bindur kolefni, bætir vatnsbúskap og eykur líffræðilega fjölbreytni.

Egilsstaðir – nýsköpun í sauðfjárrækt, afurðir nytjaskóga og fjölbreyttar stoðir

Á Egilsstöðum í Fljótsdal er rekið sauðfjárbú en einnig er öflugt ferðaþjónustufyrirtæki með rekstur á jörðinni og leigir húsnæði og land af eigendum jarðarinnar. Þar sem vinnustofan fór fram í einu helsta skógræktarhéraði landsins var ekki hjá því komið að taka góða umræðu um skógrækt. Þátttakendur hittust á Ytri-Víðivöllum þar sem fyrirtækið Skógarafurðir rekur vinnslustöð fyrir afurðir nytjaskógræktar. Þar var farið yfir hvernig nýta má afurðir úr ræktuðum skógum, t.d. timbur og eldivið, en jafnframt rætt hvernig skógrækt getur verið lykilstoð í loftslagsvænum landbúnaði. Skógrækt er áhrifarík leið til að binda kolefni úr andrúmslofti bæði í trjávexti og jarðvegi. Með ræktun nytjaskóga og verndun náttúruskóga, t.d. sjálfssáða birkiskóga, má draga úr nettólosun gróðurhúsalofttegunda og vega þannig upp á móti losun frá öðrum þáttum í landbúnaði svo sem frá búfé eða vélum. Samfélagslega hefur skógrækt einnig jákvæð áhrif, þar sem hún getur skapað ný tækifæri til afurðavinnslu og útivistar.

Á vinnustofunni var einnig rætt um nýjar nálganir í sauðfjárrækt og afurðavinnslu, hvernig nýjar nálganir geta skapað ný tækifæri fyrir bændur – bæði loftslagslega og rekstrarlega. Þar hafa bændur tekið upp gamla siði, þ.e. farið að mjólka ær og hafa þróað rekstur þar sem framleiddar eru vörur úr mjólkinni, m.a. ís og ostar, sem seldar eru beint til ferðamanna og annarra viðskiptavina. Þetta er dæmi um fjölbreytta afurðaframleiðslu og styttri virðiskeðjur sem geta haft margþætt áhrif. Aukin tegundaflóra afurða getur haft jákvæð loftslagsáhrif, t.d. verður minni þörf fyrir innflutning, nýting hráefna verður betri og aukin verðmætasköpun er á staðnum. Með því að bæta við stoðum í rekstri verður búreksturinn sveigjanlegri og sjálfbærari. Þetta getur líka leitt til aukinnar atvinnusköpunar á landsbyggðinni, þar sem fleiri störf skapast í vinnslu, markaðssetningu og þjónustu. Samfélagslega styrkir þetta tengsl bænda við nærsamfélagið og skapar ný störf og tækifæri.

Gulrótargarðar á Fljótshólum. Ráðunautur RML upplýsir þátttakendur vinnustofunnar um tilraunareiti fyrir vistvæna illgresiseyðingu.

Fljótshólar – grænmetisrækt og vistvæn illgresiseyðing

Síðasta vinnustofa sumarsins var haldin að Fljótshólum í Flóahreppi. Það er nýbreytni frá fyrri árum að bjóða upp á vinnustofu síðsumars en til þessa hafa vinnustofurnar yfirleitt verið í byrjun júní. Vinnustofan tókst vel og það var góð mæting og voru helstu umræðuefni útiræktun grænmetis, eyðing illgresis, skjólbeltaræktun og landgræðsla.

Á Fljótshólum samanstendur rekstur búsins af útiræktuðu grænmeti og nautgriparækt til mjólkurframleiðslu. Löng hefð er fyrir ræktun gulróta á Fljótshólum en ræktun þar hefur staðið óslitið frá árinu 1930. Þegar núverandi bændur tóku við búi eldri kynslóðar sáu þeir tækifæri í að efla reksturinn og þróa landbúnaðinn í átt að umhverfisvænni framleiðslu. Þau hafa tæknivætt pökkunaraðstöðuna og unnið að skilvirkni í verkferlum til að auka framleiðsluna í grænmetisræktuninni. Þau hafa nýtt þátttöku sína í Loftslagsvænum landbúnaði til að vinna markvissar að loftslags- og umhverfismálum og tileinkað sér aðgerðir til að stuðla að betri búskaparháttum. Í þeirri vegferð tengjast þau verkefninu Arosus, sem er alþjóðlegt verkefni, en RML er þátttakandi í verkefninu og er með tilraunasvæði á Fljótshólum. Á vinnustofunni var fjallað um verkefnið en það snýst um eyðingu illgresis með vistvænum aðferðum. Farið var yfir helstu atriði og hvernig vinna hefur farið fram, þátttakendur skoðuðu tilraunareiti og höfðu málefnalegar umræður. Vistvæn illgresiseyðing stuðlar að heilbrigðari vistkerfum. Hún getur dregið úr notkun skaðlegra efna, bætt jarðveg og hefur þannig bæði loftslagsleg og samfélagsleg áhrif með minni mengun og aukinni líffræðilegri fjölbreytni. Einnig er mikill hagrænn ávinningur að losna við illgresi, það tekur næringu úr jarðvegi og pláss þar sem annar gróður á að vera.

Umræður spunnust einnig um skjólbelti en bændur á Fljótshólum hafa sett sér það markmið að hafa að reglu að planta skjólbeltum um leið og spildum er lokað með túngrasi í skiptiræktun eftir garðrækt. Mikill vöxtur var í trjánum og má búast við að á næstu árum skili þau miklum árangri bæði við skjólmyndun og bindingu kolefnis. Að lokum var skoðað landgræðslusvæði en uppgræðsla hefur verið stunduð á jörðinni um áratugaskeið. Líkt og í Heiðarbæ hefur uppgræðslan bætt nýtingargildi og aukið virði uppgróins lands og má nefna að grænmetisgarðarnir og stór hluti ræktunarlands er á uppgræddum svæðum.

Samantekt – jafningjafræðsla og staðbundin þekking sem drifkraftur

Vinnustofurnar sýna að aðgerðir sem miða að hagræðingu og aukinni afurðasemi geta haft margþætt áhrif á loftslag, efnahag og samfélag. Jákvæð áhrif eins og lokræsi í framræslulandi, betri nýting auðlinda, nýsköpun og aukin afkoma bænda geta styrkt sjálfbærni til lengri tíma. Neikvæð áhrif eins og jarðvegsrýrnun og þyngri vélanotkun þarf að vega og meta í samhengi við heildaráhrif.

Jafningjafræðsla gegnir lykilhlutverki í þessu ferli. Þegar bændur miðla reynslu sinni og læra hver af öðrum, skapast traust og raunhæfar lausnir sem byggja á staðbundinni þekkingu. Slíkt samtal er grundvöllur að sjálfbærum landbúnaði sem tekur tillit til loftslags, samfélags og efnahags.

Til lengri tíma litið hagnast stjórnvöld á því að styðja framkvæmdir og fjárfestingar hjá bændum sem miða að sjálfbærni. Góð afkoma búa er ekki aðeins lykill að loftslagslegum ávinningi – hún er forsenda þess að bændur geti haldið áfram að þróa og innleiða nýjar lausnir sem nýtast öllum.

Lausn á vísnagátu
Líf&Starf 24. nóvember 2025

Lausn á vísnagátu

Lausnin á vísnagátu Guðbjörns Sigurmundssonar í síðasta Bændablaði er orðið mál.

Skákmánuðurinn janúar
Líf&Starf 3. febrúar 2025

Skákmánuðurinn janúar

Janúarmánuður hefur lengi verið frekar stór skákmánuður á Íslandi. Í þeim mánuði...

Þörfnumst heilbrigðara sambands við tímann
Líf&Starf 13. desember 2024

Þörfnumst heilbrigðara sambands við tímann

Carl Honoré, sem gjarnan hefur verið kallaður rödd alþjóðlegu Hæglætishreyfingar...

Sækja áhrif til Suður-Evrópu
Líf&Starf 9. október 2024

Sækja áhrif til Suður-Evrópu

Í síðustu úthlutun Matvælasjóðs fengu bændur í Syðra-Holti í Svarfaðardal rúmleg...

Brautryðjandi í búskap með íslenska hesta í Noregi
Líf&Starf 14. ágúst 2024

Brautryðjandi í búskap með íslenska hesta í Noregi

Ingebjørg Helkås Vaa fæddist í Noregi 14. júlí 1933, yngst fimm systkina. Hún va...

Stjörnuspá vikunnar
Líf&Starf 2. júlí 2024

Stjörnuspá vikunnar

Vatnsberinn veit vart í hvorn fótinn hann á að stíga þessa dagana. Lífið virðist...

Heitt poppkorn er hollt sælgæti!
Líf&Starf 10. maí 2022

Heitt poppkorn er hollt sælgæti!

Svo hljóðaði auglýsing er birtist á síðu Morgunblaðsins í júlílok árið 1968 - en...

Lesning fyrir heilabilaða
Líf&Starf 4. maí 2022

Lesning fyrir heilabilaða

Þegar ég setti saman bókina Í húsi afa míns sem kom út fyrir tólf árum, hvarflað...