Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 2 mánaða.
Marietta Maissen og Pétur Behrens í reiðhöll sinni að Finnsstaðaholti, með hryssunni Blábrá frá Finnsstaðaholti, undan Aski frá Finnsstaðaholti og Hrannarsdótturinni Sunnu frá Keldnakoti. Þau hafa lagt æviverkið í kynbótastarf og tamningar auk þess að vera bæði myndlistarmenn.
Marietta Maissen og Pétur Behrens í reiðhöll sinni að Finnsstaðaholti, með hryssunni Blábrá frá Finnsstaðaholti, undan Aski frá Finnsstaðaholti og Hrannarsdótturinni Sunnu frá Keldnakoti. Þau hafa lagt æviverkið í kynbótastarf og tamningar auk þess að vera bæði myndlistarmenn.
Mynd / sá
Viðtal 5. september 2025

Íslenski hesturinn varð þeirra örlagavaldur

Höfundur: Steinunn Ásmundsdóttir

Hjónin Marietta Maissen og Pétur Behrens muna eftir því þegar fyrstu íslensku hestarnir voru að koma til Sviss og Þýskalands frá Íslandi. Þau segja þá hafa valdið byltingu í hestahaldi og verið upphaf svokallaðrar frítímareiðmennsku þar um slóðir.

„Við tökum eiginlega aldrei eftir því hvort við erum að tala þýsku eða íslensku,“ segir Marietta Amalie Maissen hlæjandi þegar Pétur Behrens, maður hennar, spyr hana á þýsku hvort hún vilji kaffi. Við sitjum í eldhúsinu í Finnsstaðaholti, skammt frá Egilsstöðum, og sprokum um hestamennskuna og myndlistina sem einkennt hefur líf þeirra beggja. Þau eru glettin bæði tvö, hafa mikla útgeislun og búa yfir ríkri frásagnargáfu. Hafa enda sitthvað að segja frá löngum og gifturíkum ferli sem markað hefur spor í sögu íslenska hestsins, hvort heldur er á Íslandi eða í Evrópu, og sömuleiðis í íslenska myndlist.

Riðið út á bleiunni

Marietta er svissnesk og Pétur þýskur en bæði eru þau íslenskir ríkisborgarar. Þau eru bæði landsþekktir hestamenn og hefur margt góðhrossið komið úr ranni þeirra.

Forsaga Mariettu í Sviss er forvitnileg og tengd íslenska hestinum órjúfanlegum böndum. Hún ólst upp með íslenskum hestum, í grennd við fjallaþorpið Laax í svissnesku Ölpunum. „Ég fæddist árið 1958 og þegar ég var ársgömul komu fyrstu íslensku hestarnir til fjölskyldunnar,“ segir hún og heldur áfram: „Ég á tvær eldri systur og þegar þær voru átta eða níu ára fór móðir okkar, sem var frá Austurríki og hafði alltaf dreymt um að eiga hesta, til hestasölumanns í Sviss, sem fyrst og fremst seldi stóra hesta. Í þá daga voru pony-hestar, þ.e. litlir, varla til. Kannski Shetlands-hestar, þeir minnstu, en þeir voru fágætir. Frítímahestamennska þekktist heldur ekki á þessum tíma. En mamma fór sem sagt til hestakaupmannsins og spurði hvort hann ætti ekki eitthvað minna en stóru hestana, fyrir börnin. Hann svaraði því játandi, hann ætti fyrir tilviljun í fórum sínum tvo hesta frá Íslandi. Hún vissi ekkert um Ísland og þaðan af síður um íslenska hesta, en þeir voru bara passlega stórir og sætir svo hún keypti þá.“

Marietta segir hafa komið í ljós að þetta voru tvö hross frá Kirkjubæ, hryssa og geldingur. „Ég man svo að það voru fljótlega komnir fimm hestar heim. Systur mínar voru á fullu í hestunum. Þær riðu t.d. í skólann í þorpinu en þá var enn lítil umferð á þeim slóðum. Slíkt væri óhugsandi í dag.“

Hún segist þannig ekki hafa þekkt neitt annað en íslenska hesta og strax fengið miklar mætur á þeim. „Svo var það líka að þegar systur mínar áttu að passa mig, nenntu þær því ekki heldur tóku mig bara með á hestbak þótt ég væri enn bleiubarn, án hjálms og alls,“ segir hún hlæjandi. Hún eigi mynd af sér á hestbaki þar sem fæturnir séu enn það stuttir að þeir nái ekki yfir hnakkblaðið, á baki Glóa frá Kirkjubæ.

„Þetta þróaðist þannig að við vorum alltaf með hesta og mamma var líka dugleg að ríða út. Laax var í þá daga enn bændaþorp en svo varð mikill uppgangur, farið að byggja skíðalyftur og hótel í stórum stíl og laða að ferðafólk. Byggt var stórt hótel í nágrenni við okkur og þá kom upp hugmynd um að vera með hestaleigu á sumrin fyrir ferðamenn. Þarna kom furðulegasta fólk, t.d. prinsessan Yourievsky, sem var alls ekki rússnesk en hafði gifst rússneskum aðalsmanni, barnabarni Zar Alexanders II. Hún var afar dugleg í viðskiptum og pantaði fullt af íslenskum hestum, líklega í gegnum foreldra mína, um tuttugu hross. Þau lentu fyrst hjá okkur því aðstaðan hjá hótelinu var ekki tilbúin. Í þá daga voru ekki til stórar hestakerrur þannig að á hverjum degi kom einhver maður með hestakerru og henti út tveimur hestum, þangað til að heilt stóð var komið. Þau voru nú sum helvíti stygg! Enda nýinnflutt. Eftir á vitum við að þetta voru sérvalin hross, en ekki bara eitthvað úr kjötstóði frá Íslandi,“ útskýrir hún.

Marietta er þekkt tamningakona. Hér er hún tólf ára gömul í Sviss, í hindrunarstökki á Glóa frá Kirkjubæ. Hún kom fyrst til Íslands árið 1982 til að temja hesta á Fremri-Hvestu í Arnarfirði. Mynd/aðsend
Katastrófan á EM

Sagan er ekki þar með búin. Marietta tiltekur að einn hestanna, moldóttur og mjög líflegur, hafi sýnt glæsilega tilburði við að stökkva yfir háa girðingu og að pabbi hennar, sem annars hafði ekki mikinn áhuga á hestum, hafi veitt því athygli.

„Þetta fannst honum flott og keypti hestinn, Víking, út úr þessu stóði prinsessunnar. Hann hafði átt að verða reiðskólahestur en varð þess í stað þrisvar Evrópumeistari í skeiði og gerði það líka gott í fimmgangi og þolreið. Víkingur varð fljótasti skeiðhestur á meginlandinu, æðislegur gæðingur. Systir mín, Barla Maissen, var knapi hans og var um tíma jafnvel fræg hér uppi á Íslandi. Hún gerði Íslendingum nefnilega alveg hræðilegan grikk,“ segir Marietta skelmislega.

Nú blandar Pétur sér í frásögnina: „Íslendingar fóru árið 1970 á fyrsta Evrópumótið og ætluðu auðvitað að sigra. Enginn vissi af þessum hesti eða systur Mariettu. Svo kemur þessi svissneski, alveg þrælöflugur, með átján ára stúlku á baki, og sigraði Íslendinga í skeiði.“ Þau segja hlæjandi að þetta hafi verið algjör katastrófa. Barla varð svo Evrópumeistari í skeiði og þolreið.

Fætur fram og hendur upp!

Áfram er haldið við að rifja upp innkomu íslenska hestsins á meginlandinu. „Fyrst vissum við ekkert um ganghesta!“ segir Marietta glettnislega. „Svo fór maður eitthvað að heyra um ganghesta og skeið, í þá tíð var talað meira um skeið en tölt. En hrossin kenndu okkur í raun og veru það sem þurfti.

Síðan fóru fleiri í Sviss að eiga íslenska hesta og þá myndaðist fyrsta félagið. Meiri upplýsingar bárust þá á milli fólks um hvernig bæri að ríða svona hestum. En lengi var sú vitleysa samt í gangi að ekki mætti ríða íslenska hestinum eins og stórum hestum, sem sagt ekki eftir grunnreglum klassískrar reiðmennsku. Heldur bara fætur fram og hendur upp! Í dag vitum við að þetta var algjört bull. En af því að íslenski hesturinn var með þessar auka gangtegundir þá kom upp þessi hugdetta að þetta væru allt öðruvísi hross sem þyrftu aðra reiðmennsku. Svo sáu menn auðvitað myndir af því hvernig íslenskir bændur sátu hross og þá var reynt að herma eftir því. Á vissan hátt varð þróunin í reiðmennsku á íslenskum hestum hér á Íslandi og á meginlandinu síðan mjög svipuð,“ segir hún.

Marietta segir vilja gleymast að í þá daga hafi hestamennska verið sport fyrir fína fólkið, og á stórum hestum. Venjulegt fólk hafði ekki efni á slíku. Frítímahestamennska var þá rétt að byrja og íslenski hesturinn ódýr í kaupum á þeim tíma og auðveldur að halda: harðgerður, þoldi vetrarkulda og þurfti ekki að hafa í neinni bómull eða alltaf inni.

Hún útskýrir að um 80% af því fólki sem átti fyrstu íslensku hestana í Sviss hafi verið lágeða millitekjufólk sem gat með naumindum leyft sér að eiga slíka hesta. „En inn á milli kom fólk eins og t.d. auðmaðurinn Max Indermauer [1901–1986, einn af stofnendum FEIF, alþjóðasambands samtaka eigenda íslenskra hesta, innsk.blm.]. Mér hefur alltaf þótt skemmtilegt að þarna blandaðist saman fólk af öllum stéttum í kringum íslensku hestana. Þarna voru pípari og milljónamæringur sem höfðu sama áhugamál,“ segir hún.

Pétur kynntist íslenskum hestum á unglingsaldri í Þýskalandi og hefur átt drjúgan þátt í að renna stoðum undir kynningu, keppnir og félagsstarf, hér á landi og erlendis, alla tíð síðan.

Sá íslenski olli byltingu

Hún bendir einnig á að áhugavert sé að íslenski hesturinn hafi valdið byltingu í hestahaldi á meginlandinu.

„Menn fóru að hugsa hvort það væri í lagi að stinga íslenskum hesti inn í dimma stíu 23 klukkustundir í strekk og hreyfa hann kannski í klukkutíma á dag. Þetta hefðbundna hestahald erlendis hafði auðvitað þróast út frá vinnuhestum og hestum sem voru í hernum. Þeir hestar unnu allan daginn og nauðsynlegt var að þeir fengju sína einkastíu og nóg af fóðri og ró. Þetta yfirfærðist svo á einkahestahald og var hreint ekki hestvænt. Þá kom þessi bylting, að vera með opin hesthús, sem er hægt erlendis af því að það er ekki alltaf rok og rigning, skaflar og bylur. Sem sagt stórt gerði og opið hesthús þar sem hestarnir finna líka skjól um hásumar þegar hitar eru. Þeir voru ekki lengur innilokaðir. Þetta er í dag orðið mjög algengt og líka fyrir stóra hesta og er miklu heilbrigðara hestahald. Hestahaldið breyttist því í gegnum íslenska hestinn og það er í rauninni ákaflega merkilegt,“ segir hún.

Marietta bætir því við að þegar útlendingar komu til þeirra Péturs hér heima og sáu hestastóðið frjálst úti í haga, hafi þeir spurt sjálfa sig hvað í ósköpunum þeir væru að gera með að hafa hestana sína í lokuðum húsum og litlum gerðum í sínu heimalandi, hestarnir yrðu greinilega að fá meira pláss.

Hún keppti tvisvar á EM

Marietta hóf að keppa þegar hún var níu ára ára, á svissnesku meistaramóti fyrir smáhesta. Í þá daga var ekki til nein sérstök keppni fyrir íslenska hesta, hvað þá barna- eða unglingaflokkar. Hún keppti bara við alla en hestunum var raðað í stærðarflokka. Níu ára gömul sigraði hún í hindrunarstökki, þrautabraut og stökk-kappreiðum. Sautján ára var hún komin í svissneska keppnissveit fyrir Evrópumót íslenskra hesta í Austurríki. Hún náði í keppnissveitina með því að vera svissneskur meistari í hindrunarstökki og ofarlega í tölti og fjórgangi, á hestinum Gáska frá Hvammi, og keppti þá við knapa á öllum aldri, ungmennaflokkur var ekki til. Og á þessu móti varð fyrsti snertipunktur þeirra Péturs, sem var liðsstjóri fyrir Íslendinga.

Marietta útskýrir að Gáski hafi verið hátt stemmdur og ansi viðkvæmur, þótt hann væri góður að öðru leyti. Mótið hófst á fánareið þar sem hver þjóð kom inn með sinn fána. „Það sem ég vissi ekki var að þarna átti lúðrasveit að spila. Það fór mjög illa í Gáska minn!“ Hesturinn hafi rokið af stað, í gegnum alla hópa þátttökuþjóðanna sem riðluðust þá tvist og bast. „Þá tók Pétur eftir mér!“ segir hún brosleit. Gáski tók lúðrasveitina mjög nærri sér og þeim gekk ekki sérlega vel á mótinu.

Rúmlega tvítug keppti hún aftur fyrir Sviss á EM í Noregi. „Þá var ég komin með annan hest, mjög góðan og áreiðanlegan. Það gekk bara vel og ég var allavega best Svisslendinganna þar í fjórgangi og tölti, með sjö vetra hest sem ég hafði tamið og þjálfað,“ segir hún.

Íslenski hesturinn allra bestur

Félög í kringum íslenska hestinn erlendis lutu engri stjórn frá Íslandi heldur þróuðust algerlega sjálfstætt. Félög úr ýmsum löndum fóru svo í samtal og þau Marietta og Pétur segja í raun ótrúlegt hversu fljótt alþjóðlegum samskiptum og keppnisreglum hafi verið komið á. Þau nefna þar til sögunnar Gunnar Bjarnason, sem hafi verið afar ötull.

„Hann spáði því að til yrði landssamband hestamannafélaga á Íslandi, en við dræmar undirtektir. Hann spáði því líka að íslenski hesturinn myndi sigra heiminn og því trúðu enn færri,“ segir Pétur íbygginn og heldur áfram: „Honum tókst þó að sannfæra menn erlendis um að þessi hestur væri alveg sérstakur. Sennilega allra bestur. Svo komu að þessu menn eins og Feldmann-feðgar og fleiri, þetta voru hestamenn fram í fingurgóma og sáu að þarna var eitthvað mjög spennandi í gangi,“ segir Pétur.

„Feldmann-feðgar voru mjög áberandi í Íslandshestahreyfingunni,“ stingur Marietta að. „Þeir komu á svissneskt meistaramót og þá sá gamli Feldmann eldri Víking okkar með systur minni Börlu. Hann fór að juða í pabba mínum að selja sér hestinn og bauð upphæðir sem voru í þá daga óhugsandi. Pabbi sagði bara nei, það kom ekki til greina því hann var hálfsmeykur við viðbrögð systur minnar. Feldmann sagði þá við pabba að þetta væri nú ekki hestur fyrir stelpu, þetta væri alvöru gæðingur og ekki fyrir kvenfólk! Pabbi minn hugsaði aldrei svona, svo þessi orð réðu örugglega úrslitum um að Feldmann fékk aldrei hestinn,“ segir hún.

Sú fyrsta til að sýna úr eigin ræktun

Eins og flestum sem umgangast íslenska hesta á erlendri grund langaði Mariettu að kynnast Íslandi. Þá kom óvænt fyrirspurn frá Pétri um hvort hana langaði að koma upp og vinna við tamningar.

„Ég fékk upphringingu frá Bjarna S. Kristóferssyni á FremriHvestu í Arnarfirði sem vantaði tamningamann,“ segir Pétur sem sat þá í stjórn Félags tamningamanna. Hann kvaðst skyldi líta á lista yfir tamningamenn en bóndi sagðist vilja fá útlenda konu: „Ég hef heyrt um þær og hvað þær geta í tamningum og ég vil fá útlenda konu,“ ítrekaði bóndi. Pétur hringdi í systur Mariettu og bað hana að spyrja stúlkuna hvort hún hefði áhuga. Marietta var ekki lengi að ákveða sig og mætti í Arnarfjörð árið 1982, þar sem henni líkaði vel.

„Þetta var frábær og fallegur staður og yndislegt fólk. Hann Bjarni átti góða hesta. Hann var sveitakóngur og átti glæsilegt íbúðarhús. Og þegar hann ákvað að fara út í hrossarækt þá keypti hann ekki bara eitthvað, heldur vel ættaðar hryssur af Kolkuósættinni. Besti hesturinn okkar er úr hryssu frá honum, hann Hrannar frá Höskuldsstöðum. Við eigum enn þá afkvæmi út af þessum vel dæmda 1. verðlauna graðhesti,“ segir hún.

Pétur útskýrir að Marietta sé líklegast fyrsta útlenda konan á Íslandi sem tamið hafi og sýnt graðhest úr eigin ræktun á Landsmóti og því beri að halda til haga.

„Að ná sér í þátttökurétt með kynbótahest á Landsmóti er ekki ónýtt,“ segir hann kankvís og veit um hvað hann er að tala sem þrautreyndur tamningamaður. Marietta hefur enda verið þekkt í þessum geira um árabil.

Einn af þeim sem ruddi brautina

Pétur Behrens er vel þekktur í heimi íslenska hestsins, bæði hér á landi og í Evrópu. Hann var einn af þeim sem ruddu brautina og kom íslenska hestinum almennilega á kortið. Auk þess er hann myndlistarmaður og hefur getið sér góðs orðstírs sem slíkur, ekki síst fyrir myndverk sín af hestum. Hann stundaði myndlistarnám árin 1956–1960, fyrst í Hamborg og síðan í Meisterschule für Grafik í Berlín, þar sem hann útskrifaðist með sóma og fékk þá sín fyrstu gullverðlaun.

Pétur fæddist árið 1937 í Þýskalandi, í þorpi sunnan við Hamborg. Hann segist hafa verið stríðsbarn og tilveran hafi snúist um að lifa af sprengiregn og hafa eitthvað til hnífs og skeiðar. Hestar voru ekki innan sjónsviðsins í þá daga, nema þá dráttarhestar hjá bændum.

Sextán ára gamall kynntist hann fyrst íslenska hestinum. Þá keyptu nágrannar hans tvo hesta og innflytjandi þeirra, Ursula Schaumburg, sem var fyrsti innflytjandi íslenskra hesta í Þýskalandi og bjó ekki langt frá, geymdi hestana hjá þessum nágrönnum uns þeir fóru til kaupenda. Pétur fékk þar að fara á bak og segir þar hafa myndast fyrstu tengsl sín við íslenska hestakynið.

Á menntaskólaárunum stundaði hann fimleika af kappi og varð hans flokkur m.a. Hamborgarmeistarar. Pétur segir það hafa hjálpað sér mikið varðandi jafnvægi og skilning á hreyfingu í reiðmennskunni.

Laumaði sér í tamningar

Pétur heimsótti Ísland í fyrsta sinn 1959, þá í námi í Berlín, en hafði ásamt félaga sínum fengið þá flugu í höfuðið að afla fjármagns fyrir námsvistinni með því að vinna á Íslandi um tíma. Sögur fóru af því að þar væri svo gott að vinna og hægt að fá betra kaup en í Þýskalandi og jafnvel Svíþjóð þangað sem námsmenn fóru gjarnan á sumrin í uppgripavinnu.

Þeir sigldu til Íslands með flutningaskipi, með viðkomu í Noregi, og unnu til dæmis í síld á Siglufirði, á togaranum Norðlendingi og við byggingu Sjúkrahúss Reykjavíkur, við Hringbraut og einnig í Fossvogi. Pétur vann einnig að byggingu stórs frystihúss á Kirkjusandi. Hesta sá hann aðeins tilsýndar í rútuferðum sínum milli vinnustaða.

Hann hóf svo störf á auglýsingastofu í Hamborg eftir nám, en var alltaf að hugsa um Ísland og undi hag sínum ekki vel. Íslandsþráin kvaldi hann.

Pétur afréð að flytja til Íslands árið 1962 enda togaði landið, og þá ekki síður íslensku hestarnir, í hann. Hann fór að vinna á Korpúlfsstöðum í heyi og lærði íslensku. Hann fékk svo starf á auglýsingastofu Gísla B. Björnssonar, fyrstu auglýsingastofu Íslands, og ekki leið á löngu uns hann keypti sinn fyrsta hest og tamdi hann sjálfur.

Svo leið og beið en dag nokkurn sá Pétur auglýst starf tamningamanns í blaði, á Efra-Vatnshorni á Norðurlandi vestra. Hann sótti um þótt hann hefði litla sem enga reynslu af grunntamningu þrátt fyrir að vera ágætlega reiðfær. Svo merkilega vildi til að hann var, engu að síður, ráðinn til starfans enda áhugasamur mjög og hafði jú tamið eigin hest.

Við tók alveg nýr raunveruleiki fyrir Pétur, slæm veður, stygg hross sem varla höfðu séð fólk sum hver, en hann, vopnaður Müseler’s Riding Logic-handbókinni um reiðmennsku, takt, stöðu og jafnvægi, náði árangri með hestana á bænum og var þá einnig ráðinn á aðra bæi til tamninga. Síðan hefur hann verið á bólakafi í íslenska hestaheiminum.

Í Finnsstaðaholti er vinnustofa og gallerí þeirra Mariettu og Péturs.
Bækur, greinar og þýðingar

Árið 1966 batt Pétur trúss við fyrri konu sína, Ragnheiði Steingrímsdóttur, og bjuggu þau að Keldnakoti á Suðurlandi þar sem þau m.a. þjálfuðu og tömdu hross uns leiðir skildi. Pétur varð einn af stofnfélögum Félags tamningamanna (FT) 1970, keppti margoft og vann til verðlauna og gegndi nokkrum sinnum landsliðsþjálfarastöðu á Evrópumótum.

Hann stofnaði ásamt fleirum íslenska hestatímaritið Eiðfaxa, árið 1977, og hefur skrifað ásamt Mariettu fjöldann allan af greinum um hestamennsku, auk bókar um tamningu hesta. Þá myndskreytti hann Islandpferde Reitlehre; „Die Blaue Bibel“, e. Walter Feldmann og A.K. Rostock. Hann var útnefndur heiðursfélagi Hestamannafélags Íslands (LH) árið 2010.

Listaverkabókin HESTAR kom út árið 2020. Er um að ræða safn teikninga og málverka Péturs af hestum og landslagi á rúmlega 200 blaðsíðum og með hverju verki fylgir sérsniðin lýsing listamannsins á viðfangsefni og tækni, á íslensku, ensku og þýsku.

Marietta og Pétur hafa einnig verið mikilvirkir þýðendur. Má til dæmis nefna þýðingu þeirra á Íslenska hestinum e. Gísla B. Björnsson og Hjalta Jón Sveinsson og Vatnagarpa eftir Jens Einarsson. Þau þýddu Eiðfaxa International í meira en 20 ár og stuðluðu þannig að kynningu á íslenska hestinum víða um lönd.

Samhliða hestamennskunni kenndi Pétur myndlist árin 1978–1985, m.a. í Myndlista- og handíðaskóla Íslands. Fyrsta einkasýning hans var árið 1976, en síðan hefur hann haldið yfir tuttugu slíkar og tekið þátt í samsýningum.

Blómleg Höskuldsstaðaár

Þau bjuggu fyrst um sinn í Mosfellsbæ og voru þar með hesta. Marietta kenndi þýsku hjá málaskólanum Mími um tíma, um leið og hún var í íslenskunámi. Árið 1983 innritaðist hún í Myndlista- og handíðaskólann og útskrifaðist 1987 sem grafískur hönnuður. Þá voru þau Pétur samtíða við skólann, hún sem nemandi en hann sem kennari.

Hún var þó ekki sátt við að vera í þrengslum og óhrjálegum högum með hestana og fannst að Ísland hlyti að bjóða upp á meiri möguleika.

Úr varð að þau keyptu bæinn Höskuldsstaði í Breiðdal á Austurlandi 1986, að áeggjan vinar þeirra Ríkharðs Valtingojer, austurrísks grafíklistamanns sem sest hafði að á Stöðvarfirði árið áður með fjölskyldu sína. Þar störfuðu Pétur og Marietta sem listamenn, þýðendur, hrossaræktendur og tamningamenn í vel á þriðja áratug.

Höskuldsstaðir, 900 ha að stærð, voru falleg, skógrík jörð, þá í eyði og það ódýr að þau réðu við kaupin. Þau tóku fjóra hesta með sér, þ.á.m. eina hryssu, Drottningu frá Fremri-Hvestu.

„Við ákváðum áður að fara með hana til frægs stóðhests, Ófeigs frá Flugumýri, sem þá var staðsettur í Kópavogi. Ári seinna fæddist á Höskuldsstöðum móálóttur hestur sem varð besti hestur allra tíma! Ég hef átt marga góða hesta en þetta var sá allra besti,“ útskýrir Marietta.

Þau voru öll árin í uppbyggingu og viðhaldi og staðurinn varð mjög búsældarlegur þegar fram liðu stundir. Þegar árin liðu fundu þau þó orðið fyrir fjarlægðinni við alla þjónustu og hugsuðu að kannski ættu þau að flytja sig um set. Upphófst þá mikil leit í öllum landsfjórðungum að heppilegum stað, þokkalega nálægt þéttbýli, þar sem ekki þyrfti að byggja allt upp. Leitin bar árangur eftir fáein ár.

Hestarnir og myndlistin

Árið 2010 fluttu þau með um þrjátíu hesta og annað hafurtask í Finnsstaðaholt í nágrenni Egilsstaða, þar sem þau byggðu nútímalegt hesthús og litla reiðhöll, auk þess að kaupa viðbótarland út úr Finnsstaðalandinu og leigja gott beitarland.

Bærinn er rétt hjá Fossgerði, sem er hesthúsahverfi Egilsstaðabúa. Þar er góður keppnisvöllur og einnig reiðleiðir allt um kring, svo þau eru vel í sveit sett auk þess sem stutt er í þjónustu á Egilsstöðum.

Í Finnsstaðaholti fæðast tvö til fjögur folöld á ári. Þekktir hestar hafa komið úr ræktun Mariettu og Péturs, t.d. Hrannar frá Höskuldsstöðum. Dóttir hans er Hrönn frá Höskuldsstöðum og sonur hennar er Askur frá Finnsstaðaholti. Askur varð, hvort tveggja í fyrra og í ár, svissneskur meistari í tölti og er að sögn Mariettu afar góður og vel dæmdur hestur.

Þau segjast samt vera farin að líta til þess að draga saman seglin og hægja aðeins á. „Við erum farin að reyna að minnka við okkur, þetta er að verða of mikil vinna,“ segja þau.

Pétur og Marietta hafa rekið vinnustofu og myndlistargallerí fyrir verk sín frá 2015, lengst af í miðbæ Egilsstaða, en sl. vor fluttu þau hvort tveggja í Finnsstaðaholt.

Þau halda úti vefsíðunni peturbehrens.com þar sem fjallað er m.a. um myndlist þeirra og sýnd verk og eftirprentanir.

Lausn á vísnagátu
Líf&Starf 24. nóvember 2025

Lausn á vísnagátu

Lausnin á vísnagátu Guðbjörns Sigurmundssonar í síðasta Bændablaði er orðið mál.

Skákmánuðurinn janúar
Líf&Starf 3. febrúar 2025

Skákmánuðurinn janúar

Janúarmánuður hefur lengi verið frekar stór skákmánuður á Íslandi. Í þeim mánuði...

Þörfnumst heilbrigðara sambands við tímann
Líf&Starf 13. desember 2024

Þörfnumst heilbrigðara sambands við tímann

Carl Honoré, sem gjarnan hefur verið kallaður rödd alþjóðlegu Hæglætishreyfingar...

Sækja áhrif til Suður-Evrópu
Líf&Starf 9. október 2024

Sækja áhrif til Suður-Evrópu

Í síðustu úthlutun Matvælasjóðs fengu bændur í Syðra-Holti í Svarfaðardal rúmleg...

Brautryðjandi í búskap með íslenska hesta í Noregi
Líf&Starf 14. ágúst 2024

Brautryðjandi í búskap með íslenska hesta í Noregi

Ingebjørg Helkås Vaa fæddist í Noregi 14. júlí 1933, yngst fimm systkina. Hún va...

Stjörnuspá vikunnar
Líf&Starf 2. júlí 2024

Stjörnuspá vikunnar

Vatnsberinn veit vart í hvorn fótinn hann á að stíga þessa dagana. Lífið virðist...

Heitt poppkorn er hollt sælgæti!
Líf&Starf 10. maí 2022

Heitt poppkorn er hollt sælgæti!

Svo hljóðaði auglýsing er birtist á síðu Morgunblaðsins í júlílok árið 1968 - en...

Lesning fyrir heilabilaða
Líf&Starf 4. maí 2022

Lesning fyrir heilabilaða

Þegar ég setti saman bókina Í húsi afa míns sem kom út fyrir tólf árum, hvarflað...