Íslendingar ræða mögulegt hrun AMOC á COP30
Umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra Íslands vakti athygli á mögulegu hruni AMOC í ávarpi á COP30.
„Breytingar á hafstraumum í kringum Ísland gætu haft afdrifarík áhrif og valdið umtalsverðri röskun á innviðum, hagkerfi, vistkerfum og lífskjörum almennings.“ Þetta sagði Jóhann Páll Jóhannsson, umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra, í ávarpi á COP30. Hann beindi sjónum að loftslagsvendipunktum og þeirri alvarlegu hættu sem felist í hnignun eða hugsanlegu hruni veltihringrásar Atlantshafsins (AMOC). „Þessi vendipunktur gæti orðið á líftíma barna okkar,“ sagði hann einnig.
Ekki óumflýjanleg þróun
Ríkisstjórn Íslands hafi þegar brugðist við og nálgist málið sem þjóðaröryggisógn. Nýlegar vísindarannsóknir bendi til að hættan á verulegri röskun AMOC fari vaxandi ef ekki takist að draga hraðar úr losun gróðurhúsalofttegunda á heimsvísu. Ráðherra sagði góðu fréttirnar vera þær að þessi þróun sé ekki óumflýjanleg. Þær ákvarðanir sem teknar verði nú og aðgerðir sem gripið verði til í sameiningu skipti sköpum fyrir framtíðina.
„Við verðum að flýta fyrir samdrætti í losun, við verðum að fjárfesta og fjárfesta mikið, í nýrri tækni með nýjum möguleikum, allt frá ofurheitum jarðvarma til bindingar og jarðefnavinnslu CO2 ,“ sagði ráðherra enn fremur í ávarpi sínu.
Sérstakur AMOC-viðburður
Efna átti til sérstaks viðburðar að tilstuðlan ráðherra, um AMOC-veltihringrásina og mögulega hnignun hennar, í svokölluðum Cryosphere-skála, 20. nóvember, þar sem m.a. þýski haf- og loftslagsfræðingurinn dr. Stefan Rahmstrof, prófessor við Potsdamháskóla, hefði framsögu.
Á dagskrá ráðherra samhliða setu á COP30 voru tvíhliða fundir með ráðherrum annarra ríkja og leiðtogum alþjóðastofnana, m.a. umhverfisráðherra Finnlands, umhverfis- og orkuráðherra Ítalíu og loftslags- og orkumálaráðherra Nýja-Sjálands. Átti þar að leggja áherslu á mikilvægi samstarfs ríkja í loftslagsmálum, um hnignun veltihringrásarinnar, nýsköpun, föngun og förgun kolefnis og ofurheitan jarðhita.
