Íslendingar eiga Evrópumeistara í riffilskotfimi
Jón Þór Sigurðsson varð Evrópumeistari í riffilskotfimi í Frakklandi á dögunum. Um var að ræða keppni af þrjú hundruð metra færi og bætti Jón Þór í leiðinni eigið Íslandsmet þegar hann skoraði 599 stig af 600 mögulegum á mótinu í Frakklandi. En hver er Jón Þór Sigurðsson?
„Ég er fæddur í Reykjavík en uppalinn að mestu í Garðabæ, fyrir utan nokkur ár í Danmörku þegar foreldrar mínir voru þar í námi fyrir þó nokkrum áratugum síðan. Ég bý enn í Garðabænum með konu og þremur dætrum og starfa sem flugmaður. Ég dusta svo rykið annað slagið af kjuðaparinu með æskuvinum mínum í hljómsveitinni Diktu, þar sem ég lem húðirnar af mismiklum móð. Hreyfi mig annað slagið og finnst fátt betra en að vera úti í íslensku náttúrunni með fjölskyldunni. Svo kemur það fyrir annað slagið að ég gangi til veiða eða smelli af eins og einni og einni ljósmynd utan veiðitíma,“ segir Jón Þór.
Hvað ertu búinn að vera lengi að æfa skotfimi og hvað kom til, af hverju byrjaðir þú?
„Þetta byrjaði út frá veiðifiktisem ég flæktist í með gömlum skólafélaga á menntaskólaárunum. Við veiðum enn saman í dag og ekkert lát á því. Mest hefur líklega farið fyrir refaveiðinni og svo eitthvert fuglaskytterí í bland. Mér var svo boðið á skotæfingu með fyrrum vinnufélaga og þá var ekki aftur snúið. Þetta var líklega undir lok 2009 sem ég byrjaði að æfa og var svo kominn á smáþjóðaleikana í Liechtenstein 2011 að keppa í skotfimi fyrir Íslands hönd. Mjög súrrealískt fyrir mig, sem hafði í besta falli verið þekktur fyrir meðalmennsku í hinum klassísku boltaíþróttum fram að því, að labba inn á íþróttaleikvang fullan af áhorfendum á setningarhátið íklæddur íslenska landsliðsbúningnum,“ segir Jón Þór skellihlæjandi.
Yfirvofandi spenna
Hvað er það skemmtilegasta og mest heillandi við þessa íþrótt að þínu mati?
„Ég er nú kannski ekki þekktur fyrir að sitja lengi kyrr, en einhverra hluta vegna hafa þessar skotíþróttir hentað mér ágætlega. Ég hef mjög gaman af þessari áskorun að stunda þetta sport, hún reynir á líkamlega en andlega hliðin er ekki síður krefjandi. Kannski er það þessi yfirvofandi spenna sem felst í því að það er allt undir í hverju einasta skoti, alveg sama þó þú sért nánast búinn að tryggja þér gullverðlaun eða heimsmet eða hvað það er, það þarf ekki nema eitt óheppilegt skot og þá er það allt farið út um gluggann. Svo getur þetta líka verið svolítið græjusport ef menn vilja. Ég hef líka mjög gaman af þeirri hlið,“ segir hann.
Og þú ert nýkominn heim af stóru móti og varðst Evrópumeistari í riffilgreininni „300 m Prone“ þar sem skotið er með stórum rifflum. Hvernig tilfinning er að vera orðinn Evrópumeistari í þessu og hvernig hafa viðbrögð fólks í kringum þig verið?
„Það er auðvitað mjög gaman og gaman að fá viðurkenningu á því sem maður hefur verið að vinna að síðustu ár. Viðbrögðin hafa verið mjög jákvæð og skemmtileg og gaman að fá hamingjuóskir frá svona mörgum og ég er mjög þakklátur fyrir það,“ segir Jón Þór stoltur.
Voru margir keppendur á þessu móti og var það mjög sterkt, eða?
„Já, á þessu Evrópumeistaramóti voru að mér skilst 977 keppendur frá 49 Evrópulöndum, sem er metfjöldi þátttakenda. Í 300 m prone karla kepptu 37 keppendur frá 13 þjóðum.“
Mikil skotveiðimenning
Eru margir að æfa skotfimi á Íslandi og gera það jafnt konur sem karlar?
„Já, það er þó nokkur ástundun á skotíþróttum hér á landi. Bæði er mikil og rótgróin saga og menning tengd skotíþróttum og svo er mikil skotveiðimenning á Íslandi og ég held að þetta haldist töluvert í hendur hjá okkur, en það mætti sjálfsagt alltaf bæta um betur,“ segir Jón Þór.
Er þetta dýrt sport og hvað ert þú að æfa þig mikið?
„300 m skotfimin myndi seint flokkast sem ódýrt sport, allavega miðað við margar aðrar skotgreinar. Sjálfur æfi ég langmest sams konar grein nema á 50 metrum með minna kalíberi og er þá stærstur verðmunurinn í skotfærunum. Einnig er aðbúnaður til æfinga hér heima töluvert betri til æfinga á 50 metrum og er innandyra. Ég æfi mjög mismikið, bæði vegna skuldbindinga annars staðar, og oft er svo á skjön sá tími sem ég get æft og hvenær aðstaðan er laus og það mætti örugglega bæta úr því fyrir núverandi skotfimiiðkendur og fyrir komandi kynslóðir,“ segir hann.
Nokkur mót fram undan
Er eitthvað sérstakt fram undan hjá þér í keppnum?
„Næst á dagskrá hjá mér í keppnum erlendis er „300 m Lapua European Cup Final“ sem eru úrslit í samnefndri bikarmótaröð þar sem þarf að vinna sér inn stig til þátttöku í úrslitum yfir tímabilið. Það mót er haldið í Zagreb í október. Síðan er heimsmeistaramót í nóvember í Kaíró þar sem ég keppi í bæði 50 m og 300 m prone,“ segir Jón Þór að lokum um leið og hann þakkar Bændablaðinu fyrir áhugann á því sem hann er að gera og hann hvetur alla sem eru áhugasamir um skotfimi að prófa að mæta á æfingu eða nýliðakvöld í einhverju af fjölmörgum skotíþróttafélögunum um allt land.
