Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en mánaðar gamalt.
Ísland fulltengt
Lesendarýni 31. október 2025

Ísland fulltengt

Höfundur: Eyjólfur Ármannsson, innviðaráðherra

Síðsumars ferðaðist ég um landið og var með opna íbúafundi í öllum landshlutum, þar sem ég ræddi við heimamenn um stöðu innviða, með áherslu á samgöngur og fjarskipti. Umræðurnar voru mikilvægt innlegg í stefnumótun og aðgerðir ríkisstjórnarinnar.

Á flestum íbúafundum var bent á áskoranir í fjarskiptum, einkum frá íbúum og fulltrúum í dreifbýlli sveitarfélögum. Samstaða er innan ríkisstjórnar um að tryggja þurfi góð fjarskipti í allri byggð og þar sem fólk er á ferð á farartækjum eða tveimur jafnfljótum. Ákall fólks um góð fjarskipti er einfaldlega óháð búsetu.

Á íbúafundunum sagði ég frá þeim árangri sem náðst hefur. Styrktri ljósleiðaravæðingu sveitanna lauk fyrir nokkrum árum og við munum ljúka sambærilegri uppbyggingu þar sem markaðsbrestur er í öllu þéttbýli á kjörtímabilinu. Sama gildir um samfellda farsímaþjónustu á öllum stofnvegum á láglendi.

Í dag nær 4G til 99,9% allra heimila í landinu og 5G til rúmlega 96% og fer vaxandi. Þau heimili sem standa verst og eiga ekki kost á a.m.k. 10 Mb netsambandi, geta fengið slíka þjónustu fyrir milligöngu Neyðarlínunnar.

Þessar aðgerðir og sá árangur sem við höfum náð í almennu aðgengi að fjarskiptum byggja á samspili margra aðila. Annars vegar á grundvelli viðskiptasjónarmiða og regluverks, og hins vegar á stuðningi ríkis og sveitarfélaga á grundvelli markaðsbrests.

Fögnum framþróun

Við lifum á tímum fordæmalausrar tækniþróunar, þó sitt sýnist hverjum um það hvað teljist góð fjarskipti frá einum tíma til annars. Þegar ADSL kom í þéttbýlið sat sveitin eftir með ISDN. Sú staða þótti ómöguleg. Þegar ljósleiðari kom síðar í sveitirnar sat þéttbýlið að mestu eftir með ljósnet. Það þótti einnig ómögulegt til frambúðar. Þessari þróun í þráðbundnum nettengingum mun með tímanum ljúka með niðurlagningu koparkerfisins á öllu landinu.

Nú stendur yfir átak fjarskiptafyrirtækja, sveitarfélaga og innviðaráðuneytisins í ljósleiðaravæðingu í öllu þéttbýli. Því ljúkum við á kjörtímabilinu. Það er ekki lengur spurning hvort ljósleiðarinn komi, heldur hvenær.

Sambærilegt hefur gerst í uppbyggingu farsímakerfa. Fyrst kom NMT. Þá tók við GSM (2G), þá 3G, svo 4G og síðast 5G. Eins og fólk þekkir þarf oftast nýjan farsíma til að geta nýtt nýja kynslóð farsímakerfa. Við munum ljúka niðurtöku allra GSM og 3G kerfa hér á landi fyrir næstu áramót. Þetta er gert á grundvelli skilyrða sem Fjarskiptastofa setti og mun fylgja eftir. Eftir standa 4G og 5G kerfin. Þau eru afkastameiri, fullkomnari og yfirleitt langdrægari.

Farsímar, öryggiskerfi, posar, mjaltaþjónar og önnur nettengd tæki sem ekki styðjast við 4G eða 5G munu missa samband. Þess vegna er mikilvægt að huga tímanlega að uppfærslu eða útskiptingu slíkra tækja. Á vef Fjarskiptastofu er hægt að tilkynna um mögulega skerðingu á farnetsþjónustu og fá leiðbeiningar um úrræði.

Alþjónusta sem öryggisnet

Stjórnvöld fólu Neyðarlínunni árið 2024 að tryggja svokallaða alþjónustu í fjarskiptum á öllum lögheimilum/vinnustöðum með heilsársbúsetu eða -starfsemi. Talið var að um 100 slíkar byggingar víðs vegar um landið væru undir lágmarksviðmiði um 10 Mb/s netsamband um aðallega ljósleiðara eða 4G farnet. Neyðarlínan hóf því skipulegar úrbætur gagnvart slíkum byggingum með fjármögnun frá ríkinu. Komi á daginn eftir niðurlagningu GSM og 3G að slíkar byggingar eigi ekki kost á umræddri lágmarksþjónustu, verður þeim einfaldlega bætt við alþjónustuverkefni Neyðarlínunnar.

Eintengdir byggðakjarnar

Öll fjarskipti til og frá nokkrum þéttbýlisstöðum fara um einn ljósleiðarastreng. Við rof á slíkum strengjum verða staðirnir sambandslausir sé ekkert varasamband fyrir hendi. Þessi alvarlega staða kom upp á Skagaströnd síðasta vetur og er víti til varnaðar. Við getum öll verið sammála um að langvarandi fjarskiptaleysi er óboðlegt í nútímasamfélagi sé hjá því komist. Ég tel tímabært að leggja grunn að raunhæfum aðgerðum til að minnka líkur á slíku.

Farnet á tengivegum og fjölförnum svæðum

Á íbúafundum í sumar var fólki einnig tíðrætt um skort á farsímasambandi á vissum tengivegum. Fram kom að uppbygging gagnvart stofnvegunum sé mikilvæg og brýn. Ekki megi þó undanskilja helstu tengivegi í umræðu um bætt farsímasamband á vegum á grundvelli umferðaröryggis. Eins kom fram að bæta þurfi farsímasamband víða á ferðamannastöðum svo fólk í neyð geti hið minnsta haft samband við 112. Ég tek heilshugar undir þessi sjónarmið og tel einnig tímabært að huga að skynsamlegum lausnum við þessum áskorunum.

Ísland fulltengt

Uppbyggingu ljósleiðara og farnets í allri byggð og á stofnvegum mun ljúka á kjörtímabilinu. Á landsvæðum og vegum utan markaðssvæða kunna nýjungar í fjarskiptum um gervihnetti að bæta stöðuna þó óvíst sé hvenær, sérstaklega þar sem ekki finnast aðrar ásættanlegar leiðir í millitíðinni.

Við sem samfélag viljum einfaldlega góð og áfallaþolin fjarskipti fyrir allt landið, vegina, atvinnulífið og heimilin – Ísland fulltengt.

Lausn á vísnagátu
Líf&Starf 24. nóvember 2025

Lausn á vísnagátu

Lausnin á vísnagátu Guðbjörns Sigurmundssonar í síðasta Bændablaði er orðið mál.

Skákmánuðurinn janúar
Líf&Starf 3. febrúar 2025

Skákmánuðurinn janúar

Janúarmánuður hefur lengi verið frekar stór skákmánuður á Íslandi. Í þeim mánuði...

Þörfnumst heilbrigðara sambands við tímann
Líf&Starf 13. desember 2024

Þörfnumst heilbrigðara sambands við tímann

Carl Honoré, sem gjarnan hefur verið kallaður rödd alþjóðlegu Hæglætishreyfingar...

Sækja áhrif til Suður-Evrópu
Líf&Starf 9. október 2024

Sækja áhrif til Suður-Evrópu

Í síðustu úthlutun Matvælasjóðs fengu bændur í Syðra-Holti í Svarfaðardal rúmleg...

Brautryðjandi í búskap með íslenska hesta í Noregi
Líf&Starf 14. ágúst 2024

Brautryðjandi í búskap með íslenska hesta í Noregi

Ingebjørg Helkås Vaa fæddist í Noregi 14. júlí 1933, yngst fimm systkina. Hún va...

Stjörnuspá vikunnar
Líf&Starf 2. júlí 2024

Stjörnuspá vikunnar

Vatnsberinn veit vart í hvorn fótinn hann á að stíga þessa dagana. Lífið virðist...

Heitt poppkorn er hollt sælgæti!
Líf&Starf 10. maí 2022

Heitt poppkorn er hollt sælgæti!

Svo hljóðaði auglýsing er birtist á síðu Morgunblaðsins í júlílok árið 1968 - en...

Lesning fyrir heilabilaða
Líf&Starf 4. maí 2022

Lesning fyrir heilabilaða

Þegar ég setti saman bókina Í húsi afa míns sem kom út fyrir tólf árum, hvarflað...