Axel Sæland, formaður garðyrkjudeildar Bændasamtaka Íslands, er sjálfur blómabóndi á Espiflöt í Reykholti í Biskupstungum.
Axel Sæland, formaður garðyrkjudeildar Bændasamtaka Íslands, er sjálfur blómabóndi á Espiflöt í Reykholti í Biskupstungum.
Mynd / sá
Viðtal 6. nóvember 2025

Innlend grænmetisframleiðsla hefur gefið eftir

Höfundur: Sigurður Már Harðarson

Garðyrkjubændur í útiræktun grænmetis eru sammála um að síðasta sumar hafi verið eitt það allra besta í mörg ár. Því verður gott framboð af tilteknu íslensku útiræktuðu grænmeti í vetur og jafnvel alveg fram á næsta sumar.

En það verður ekki svo um fyrirsjáanlega framtíð. Til að auka framboð á grænmetistegundum og hlutfall innlends grænmetis á markaði varanlega, þarf stefnubreytingu hjá stjórnvöldum og nýtt hvatakerfi, svo bændur sjái sér beinan hag í því að auka ræktun. Á undanförnum árum hefur uppskorið magn útiræktaðs grænmetis ráðist af tíðarfari, en umfang garðyrkjunnar – fjöldi býla og stærð ræktarlands – er svipað frá ári til árs. Sömu sögu er að segja af ylræktinni; þar er lítil breyting milli ára – enda hár fjárfestingarkostnaður fyrir nýliða að koma inn í greinina og garðyrkjubændur sem fyrir eru að stækka við sig.

Um leið eykst innflutningur á ýmsum tegundum. Þetta sést í nýlegri skýrslu um fæðuöryggi sem atvinnuvegaráðuneytið lét vinna fyrir sig, þar sem segir að íslenska grænmetisframleiðslan hafi dregist saman um tíu prósent á síðustu tíu árum, sé miðað við hlutfall af innanlandsþörf, og fari úr 37% í um 27% árið 2024.

Góð skilyrði fyrir allar tegundir

Axel Sæland, formaður garðyrkjudeildar Bændasamtaka Íslands, segir að þetta sumar muni svo sannanlega fara í sögubækurnar sem eitt allra besta sumar í útirækt þó ekki séu komnar staðfestar uppskerutölur. „Það má eiginlega segja að allt hafi verið með bændum þetta sumarið fyrir utan smá kuldakafla í byrjun júní. Það voraði snemma og frost var nánast ekkert í jörðu þannig að bændur gátu hafið vorverkin allt að fjórum vikum fyrr en venjulega. Þó svo að margir hafi beðið með að setja niður vegna reynslu fyrri ára kom það svo ekki að sök þar sem stærsti hluti sumarsins var mjög hagfelldur. Margir sólardagar og regluleg úrkoma þannig að skilyrði til vaxtar voru virkilega góð. Þetta á við allar þær tegundir sem eru ræktaðar hér á landi sem og landshlutana. Allir bændur voru að ná í virkilega góða uppskeru.

Það er alveg ljóst að geymslur grænmetisbænda eru fullar og sérstaklega fullar hjá rófu-, gulrótarog kartöflubændum. Birgðastaðan verður góð fram á næsta sumar.“

Úrelt kerfi

Þegar Axel er spurður um niðurstöður áðurnefndrar skýrslu, um að sjálfsaflahlutfall í garðyrkjunni sé lágt og fari lækkandi, segir hann að margt spili þar inn í. „Grunnurinn er sá að það hefur ekki verið næg fjárfesting í greininni til margra ára og tollverndin í útiræktinni hefur rýrnað gríðarlega mikið síðustu ár vegna hárrar verðbólgu. Umhverfið þarf að vera vaxtarhvetjandi til að aukin framleiðsla eigi sér stað. Samkeppnin erlendis frá er mikil þó svo að tollar séu til staðar.

Ég hef sagt það áður að núverandi búvörusamningar hamla frekari vexti, þeir henta ágætlega til að viðhalda stöðunni eins og hún er. Fyrir einstaka framleiðendur er jafnvel best að heildarframleiðsla minnki, því þá fá þeir sem eru eftir meiri ríkisstuðning. Þetta er úrelt kerfi sem miðaðist við umhverfi þar sem næg framleiðsla var og mátti meira að segja draga úr henni. Garðyrkjubændum mun eingöngu fækka miðað við hvernig kerfið er upp sett og því líkur á að hlutfall íslensks grænmetis á markaði haldi áfram að minnka ef ekkert breytist með nýjum búvörusamningum.“

Vannýtt tækifæri

Í skýrslunni segir einnig að vannýtt tækifæri séu í garðyrkjuframleiðslu á Íslandi, að full ástæða sé til að kanna hvort og hvernig hægt sé að beita stuðningskerfi landbúnaðarins til að styðja frekar við grænmetisframleiðslu með það að markmiði að efla hana og stækka hlutdeild innlendrar framleiðslu.

Axel er spurður um hvað garðyrkjudeildin sjái fyrir sér sem helstu áherslumál í viðræðum við stjórnvöld um nýja búvörusamninga, sem renna út í lok næsta árs. Hvort skýrslan færi ekki garðyrkjubændum mikilvægan rökstuðning fyrir því að það eigi að breyta stuðningskerfinu og búa til hvata til framleiðsluaukningar, í því ljósi að hún sé sérstaklega unnin fyrir atvinnuvegaráðuneytið.

„Stuðningskerfið þarf að geta vaxið með aukinni framleiðslu, meiri framtíðarsýn og fyrirsjáanleika. Útiræktin gæti til að mynda verið með fastar greiðslur fyrir hvern ræktaðan hektara – sem væri ákveðin afkomutrygging – og í framhaldi væri hægt að hafa söluhvata fyrir hvert selt kíló af vörunni. Þarna væri þá verið að hvetja bændur til að rækta sem besta vöru og keppa á markaði,“ útskýrir Axel.

Fyrirsjáanleikinn skiptir öllu

„Sama væri hægt að gera í ylræktinni, vera með fastar greiðslur fyrir hvert selt kíló í matvörubúðum og svo er mjög mikilvægt að festa niðurgreiðslurnar á raforkunni í 95%,“ heldur Axel áfram. En í núgildandi búvörusamningum er orðalagið varðandi niðurgreiðslur á dreifingu á rafmagni þannig að hluturinn sem er niðurgreiddur sé „allt að 95%“, sem hefur leitt til þess að niðurgreiðslur hafa minnkað.

„Þetta hefur reyndar verið helsta baráttumál ylræktarinnar á þessari öld. Þarna hafa stjórnvöld þráast við að veita okkur þennan fulla stuðning. Aftur komum við að því hvað stuðningskerfið er gallað. Þarna kemur sér best ef einhverjir í ylræktinni hætta því þá verður meira til skiptanna fyrir þá sem eru eftir. Eins ef nýr aðili kemur inn í greinina og/eða einhver stækkar sína garðyrkjustöð þá lækka greiðslurnar til allra.

Sem sagt enginn hvati til að gera meira eða betur. Það þarf að festa þetta í prósentum til að bændur viti hver stuðningurinn fyrir árið verður, fyrirsjáanleikinn skiptir svo miklu máli. Þessi stuðningur skiptir sköpum upp á framtíðina í ylræktinni, orkukostnaður hefur vaxið hvað hraðast í rekstri og þá bæði orkan og dreifingin. Til að ylræktin vaxi í takt við þjóðina þarf að festa þessar greiðslur í 95%.“

Fjárfestingastuðningur öflugt vopn

„Þarna væri því ekki verið að binda bændur niður á ákveðnar tegundir til ræktunar og ef framleiðslan eykst, fleiri yrki eru ræktuð, eða fleiri bændur bætast við, þurfa bændur ekki að hafa áhyggjur af því að stuðningur frá ríki minnki nema þá að því leyti að þeir þurfa að standa sig sem ræktendur til að selja vöru sína,“ segir Axel.

„Fjárfestingastuðningur er einnig öflugt vopn í að færa garðyrkjuna áfram og skapa ný tækifæri, hann þarf bæði að ná til fasteigna og tækjabúnaðar. Framfarir erlendis til sjálfvirknivæðingar eru miklar en þær taka pláss og eru dýrar. Mannshöndin er orðin mjög dýr og hvert starf sem sparast gerir okkur samkeppnishæfari á markaði.“ 

Vannýtt tækifæri eru í ylræktinni til að auka hlutfall úr þeirri framleiðslu á innlendum markaði. Mynd / smh

Mikil tækifæri til aukningar

Varðandi möguleikana til vaxtar, um hvar tækifærin helst liggi innan tegundanna sem hægt sé að rækta á Íslandi, segir Axel að í raun þurfi stuðningskerfið að geta vaxið í takt við greinina. „Það gerist ekkert þegar kerfið er fast og enginn hvati. Við fylgjumst fyrst og fremst með þeim tegundum sem eru nú þegar í ræktun og hvað þær hafa hátt hlutfall á markaði. Í ylræktinni getum við bætt í allar tegundir en íslenska gúrkan er þó nálægt því að vera með 100% markaðshlutfall. Allar aðrar tegundir eru töluvert frá þessu og því mikil tækifæri til aukningar, til dæmis í tómötum, papriku, jarðarberjum, kryddi og salati – svo eitthvað sé nefnt.

Veðurfar á Íslandi takmarkar aðeins möguleika okkar í útirækt. En rótarávextir hafa virkað best sem og nokkrar káltegundir. Það eru þó alltaf einhverjir bændur að prófa sig áfram með ný yrki og nýjar tegundir. Almennt vilja bændur gera meira og prófa sig áfram í nýjum tegundum en til þess þarf starfsumhverfið að vera í lagi.

En í útiræktuninni eru einnig ónefndir möguleikarnir í frekari vinnslu á fersku grænmeti. Íslenskir grænmetisbændur eru fyrst og fremst á ferskvörumarkaði. Það er eitthvað grænmeti sem fer í tilbúna rétti, en þarna tel ég að séu mikil tækifæri í aukinni framleiðslu.“

Nýliðun, tollar og tryggingar

„Við munum leggja áherslu á nýliðun, tolla og tryggingar,“ segir Axel um önnur áherslumál fyrir komandi búvörusamningagerð. „Nýliðun hefur verið lítil þó svo að eftirspurn eftir grænmeti sé svo sannanlega til staðar. Við höfum töluverðar áhyggjur af þessu, þarna spilar bæði inn í stuðningskerfið til að styðja við nýja garðyrkjubændur og svo menntun. En það hefur gengið erfiðlega að fá fólk og sérstaklega ungt fólk til að læra fagið. Nýliðun í greininni gerist ekki af sjálfu sér. Við þurfum að hafa gott og vandað skólaumhverfi þar sem verðandi bændur finna metnað og gott utanumhald.

Tollvernd hefur staðið í stað í yfir 30 ár. Hlutverk tolla er að vernda innlenda framleiðslu og um leið gera hana samkeppnishæfari á innanlandsmarkaði. Það má nefna til dæmis að 60 krónu tollur á kílóið af kartöflum í dag, hefur ekki nálægt því sama vægi og þessi krónutala gerði fyrir 30 árum. Þetta hefur orðið til þess að umhverfi útiræktarinnar verður erfiðara með hverju árinu sem líður. Verðbólgan étur upp tollverndina og íslenskir útiræktendur sitja eftir í samkeppninni. Því er afar brýnt að endurskoða þetta umhverfi. Sama á við um sumarblómarækt, pottablóm og afskorin blóm.

Þá þarf að skoða vel að koma upp tryggingarvernd fyrir akuryrkju því í dag eru engar slíkar tryggingar fyrir áföllum í boði. Því þarf bóndinn að treysta á veðurguðina þegar kemur að ræktun akra sinna. Það þarf að koma á kerfi þar sem bændur geta með einhverri vissu farið af stað á vorin vitandi að tekjur muni veita þeim gott lifibrauð og einhverjar baktryggingar séu til að tryggja þær. Það er ekki eins og það séu tjón á hverju ári en tjón eru alltaf erfið. Það er ekki hægt að leggja það á hendur bænda að ábyrgðin sé öll þeirra þegar ræktuð er fæða fyrir íslenska þjóð. Árið 2024 var með verstu árum í útirækt og stjórnvöld sáu sig knúin til að koma að málum og greiddu út hálfan milljarð til garðyrkjubænda í bætur. Það var mjög vel gert af þeim en við getum ekki haft kerfið þannig að það sé bara ákvörðun stjórnvalda hverju sinni hvað sé gert í svona tjónum. Bændur vilja heldur ekki vera upp á stjórnvöld komin ef illa fer.“

LED-ljósin eru framtíðin

Í apríl á þessu ári ákvað Jóhann Páll Jóhannsson umhverfis-, orkuog loftslagsráðherra að styðja garðyrkjubændur í ylrækt til fjárfestinga við innleiðingu á LEDljósum í gróðurhúsin, sem talið er að geti minnkað raforkunotkun gróðurhúsa um 40–60 prósent.

Axel segir að LED-ljósin séu framtíðin í ylrækt en fjárfestingakostnaðurinn sé mikill. „Það var því fagnaðarefni þegar Jóhann Páll veitti okkur í ylræktinni þennan fjárfestingastuðning til orkusparandi aðgerða í ylrækt. Þarna fáum við 40% fjármögnun en að hámarki 15 milljónir. Þetta útspil kom boltanum af stað og mér skilst að 10 fyrirtæki hafi sótt um í fyrstu lotunni og núna í nóvember verður opnað aftur á umsóknarferli.

Við hjá Bændasamtökunum höfum hvatt ylræktarbændur til að taka fyrstu skrefin yfir í LED. Þessi ljós hafa vissulega sína kosti og galla en þegar LED-ljósið notar allt að helmingi minni raforku þá trúi ég því að garðyrkjubændur séu tilbúnir að skoða hlutina vel. Stærsta áskorunin er að lítill sem enginn hiti kemur frá LED-ljósum sem er einnig þeirra stærsti kostur, að nánast öll raforkan umbreytist í ljós en ekki hita. Það þýðir að við þurfum að notast við aðra hitagjafa. Jarðvarmi er allt að 15 sinnum ódýrari en rafmagn þegar við skoðum orkueininguna sem það skilar. Þarna kemur ein af okkar dýrmætustu auðlindum inn og mun bæta okkar rekstrarskilyrði til muna eftir því sem við færum okkur meira inn í LED-ljósin.“

Axel hefur þegar tekið LED-ljósin að hluta til í notkun hjá sér með góðum árangri. Mynd / Aðsend

Mikilvægi rannsókna á LED-ljósunum

Christina Stadler, lektor við Landbúnaðarháskóla Íslands, skrifaði í síðasta Bændablað og varaði við of hraðri innleiðingu á LED-ljósum í stað HPS-lampanna. Margt væri enn órannsakað á þessu sviði. Axel segir að það sé alltaf gott að fá fram sjónarmið vísindamanna og margt af því sem hún taki fram þurfi garðyrkjubændur að varast.

„En eins og hún kemur inn á þá hafa verið gerðar rannsóknir til nokkurra ára og það eru enn þá rannsóknir í gangi í Garðyrkjuskólanum með nýjustu LED-ljósunum á markaðnum. Þetta er okkur afar mikilvægt að rannsóknir séu stundaðar árið um kring og núna með sérstakan fókus á LED. Við bændur nýtum okkur svo alla þessa þekkingu til að ná sem bestum árangri í okkar starfi.

Svo má ekki gleyma því að HPS-ljósin eru hætt í þróun og verða bönnuð á markaði fyrr en seinna vegna þess að þau innihalda kvikasilfur. Það er stefna ESB að banna kvikasilfur í öllum ljósum. Því er afar mikilvægt að við tökum ákveðin og góð skref í átt að LEDljósum.“

Vandinn við að vernda kartöflu- og gulrófuyrkin

Axel segir að annars séu íslensku kartöflu- og gulrófuyrkin honum ofarlega í huga þessa dagana. „Við höfum ekki þurft að hafa áhyggjur af þeim síðastliðna áratugi en síðustu ár hafa orðið hnökrar í verndun þeirra.

Áður var þetta allt gert með litlu fjármagni og meiri hugsjón. Í dag er það bara ekki jafnsjálfsagt og með nýjum kynslóðum höfum við þurft að endurskoða nálgun okkar við að vernda og styðja við þessa ræktun. Verndun þeirra og sérstaklega að halda þeim sjúkdómafríum er orðið mun kostnaðarsamara og því þurfum við einnig fjármagn til þeirra verkefna,“ segir hann.

Það eru fjögur kartöfluyrki sem eru íslensk og hafa verið sérstakleg vernduð með sérstakri stofnútsæðisræktun. Þetta eru Premier, Gullauga, Helga og Rauðar íslenskar – og eru langmest ræktuðu yrkin hér á landi.

Íslensku yrkin koma best út

„Mikið þekkingartap varð þegar Sigurgeir Ólafsson féll frá en hann hafði alfarið séð um að passa upp á yrkin. Það hefur reynst áskorun að finna þessu góðan farveg og byggja upp þá þekkingu aftur. Miklu máli skiptir að hafa hreint og sjúkdómsfrítt umhverfi,“ heldur Axel áfram.

„Samið var við Matís um að vefjarækta kartöflurnar og sjá til þess að yrkin séu sjúkdómafrí. Einnig fengu stofnútsæðisbændur fjárfestingartuðning til að byggja gróðurhús á jörðum sínum til að áframrækta plönturnar en það er gert í Eyjafirði og Hornafirði. Á báðum þessum stöðum hefur aldrei greinst mygla og þykja því þessi svæði ákaflega hentug til stofnræktar.

Sandvíkurrófan er einnig íslenskt rófuyrki og hefur ein fjölskylda alfarið séð um að passa upp á það og fjölga því. Þar varð tjón á gróðurhúsi og ekki til fjármagn til endurbyggingar. Þetta varð til þess að farið var í að endurskoða reglurnar í kringum þróunarfé garðyrkjunnar og úr varð að reglum var breytt á þann hátt að núna er hægt að styrkja fjárfestingaverkefni sem varða heildarhagsmuni greinarinnar. Þannig tókst okkur að veita þeim fjárfestingastuðning í gegnum þróunarfé garðyrkjunnar til byggingar á nýju gróðurhúsi til fræsöfnunar.

Öll þessi yrki hafa það umfram erlend yrki sem oft eru ræktuð hér á landi líka, að þau þola kuldann betur og kuldaköstin sem geta komið. Þegar árar illa hafa þessi yrki komið hvað best út. Því er afar mikilvægt að við höfum bolmagn til að standa undir því að viðhalda þessum yrkjum.“

Lausn á vísnagátu
Líf&Starf 24. nóvember 2025

Lausn á vísnagátu

Lausnin á vísnagátu Guðbjörns Sigurmundssonar í síðasta Bændablaði er orðið mál.

Skákmánuðurinn janúar
Líf&Starf 3. febrúar 2025

Skákmánuðurinn janúar

Janúarmánuður hefur lengi verið frekar stór skákmánuður á Íslandi. Í þeim mánuði...

Þörfnumst heilbrigðara sambands við tímann
Líf&Starf 13. desember 2024

Þörfnumst heilbrigðara sambands við tímann

Carl Honoré, sem gjarnan hefur verið kallaður rödd alþjóðlegu Hæglætishreyfingar...

Sækja áhrif til Suður-Evrópu
Líf&Starf 9. október 2024

Sækja áhrif til Suður-Evrópu

Í síðustu úthlutun Matvælasjóðs fengu bændur í Syðra-Holti í Svarfaðardal rúmleg...

Brautryðjandi í búskap með íslenska hesta í Noregi
Líf&Starf 14. ágúst 2024

Brautryðjandi í búskap með íslenska hesta í Noregi

Ingebjørg Helkås Vaa fæddist í Noregi 14. júlí 1933, yngst fimm systkina. Hún va...

Stjörnuspá vikunnar
Líf&Starf 2. júlí 2024

Stjörnuspá vikunnar

Vatnsberinn veit vart í hvorn fótinn hann á að stíga þessa dagana. Lífið virðist...

Heitt poppkorn er hollt sælgæti!
Líf&Starf 10. maí 2022

Heitt poppkorn er hollt sælgæti!

Svo hljóðaði auglýsing er birtist á síðu Morgunblaðsins í júlílok árið 1968 - en...

Lesning fyrir heilabilaða
Líf&Starf 4. maí 2022

Lesning fyrir heilabilaða

Þegar ég setti saman bókina Í húsi afa míns sem kom út fyrir tólf árum, hvarflað...

https://bestun.airserve.net/banner_bundles/de3e87e0d8dde67f98882b3ac12f8b2f