Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 7 mánaða.
„Það er sennilega einsdæmi að til sé virkt, kynbótahæft landkyn með jafnlanga, einsleita og trausta forsögu og það íslenska.“
„Það er sennilega einsdæmi að til sé virkt, kynbótahæft landkyn með jafnlanga, einsleita og trausta forsögu og það íslenska.“
Mynd / Bbl
Lesendarýni 14. apríl 2025

Innflutningur á erlendu kúakyni til mjólkurframleiðslu

Höfundur: Erfðanefnd landbúnaðarins.

Í kjölfar umræðu um innflutning á erlendu kúakyni til mjólkurfram - leiðslu vill erfðanefnd landbúnaðarins benda á að ef af innflutningi verður þarf að huga að verndun íslenska kúastofnsins.

Það er sennilega einsdæmi að til sé virkt, kynbótahæft landkyn með jafnlanga, einsleita og trausta forsögu og það íslenska. Íslenski kúastofninn hefur verið nægilega stór til að standa undir virku kynbótastarfi og á meðan hann er eini mjólkurkúastofn landsins hefur ekki þurft að hafa áhyggjur af viðgangi hans, en gæta hefur þurft að þróun skyldleikaræktar í stofninum. Erfðaframfarir hafa verið töluverðar í stofninum á undanförnum árum og í lok árs 2022 var tekið upp erfðamengjaúrval og hafnar eru tilraunir með notkun á kyngreindu sæði. Í ljósi þess að mikill munur er á meðalnyt milli búa, væri ástæða til að huga betur að rannsóknum og ráðgjöf varðandi fóðrun, uppeldi og aðbúnað.

Í landsáætlun erfðanefndar landbúnaðarins 2024–2028 (www. agrogen.is) kemur fram að nauðsynlegt sé að gera úttekt á verndargildi kúastofnsins, ræktun og viðhaldi verndaðs stofns ef til innflutnings á öðru kúakyni kemur. Þetta felur í sér að skipuleggja þarf verndunarstofninn frá upphafi og setja upp skýrsluhald og ræktunaráætlun, sem miði að viðhaldi stofnsins til lengri tíma. Rétt er að leggja áherslu á að skipuleg verndun íslenska kúastofnsins mun kosta töluverða fjármuni og fjármögnun starfsins verður að tryggja til frambúðar. Verndunargildi íslenska kúastofnsins er ótvírætt, litafjölbreytni er einstök og sennilega eru fá eða engin nautgripakyn í Evrópu sem hafa haldist við án innblöndunar jafnlengi og það íslenska. Ástæða er til að leggja áherslu á mikilvægi sérkenna íslensku kúnna í samanburði við erlend kyn. Erfðafræðilegur samanburður kúakynja á Norðurlöndum sem gerður var á vegum Norræna genabankans fyrir húsdýr sýndi að það er munur á tíðni próteingerða í mjólk hjá íslenskum kúm og hjá framleiðslukynjum á Norðurlöndum. Munurinn er íslensku mjólkinni í hag varðandi nýtingu mjólkur til ostagerðar. Nýlega birtist vísindagrein sem sýndi fram á að mjólk úr íslenskum kúm inniheldur hátt hlutfall fásykra (oligosaccharides) sem eru vel til þess fallnar að nýta í fæðubótarefni sem t.d. styrkja ónæmiskerfið, hafa góð áhrif á meltinguna og draga úr líkum á offitu. Báðir þessir eiginleikar eru verðmætir og hugsanlega búa íslenskar kýr yfir fleiri sérstæðum eiginleikum sem geta orðið verðmætir í framtíðinni. Til langtíma varðveislu þarf einnig að huga að því að safna erfðaefni úr íslenskum nautgripum. Í dag er aðeins varðveitt sæði úr völdum nautum á Nautastöð BÍ. Til að fanga sem mestan breytileika í stofninum þarf að varðveita erfðaefni úr breiðum hópi gripa.

Á deildarfundi nautgripabænda sem haldinn var 27.–28. febrúar s.l. voru samþykktar tvær tillögur sem snúa að innflutningi á erlendu mjólkurkúakyni. Annars vegar tillaga þar sem fundurinn hvetur stjórnvöld til að hefja vinnu við verndaráætlun fyrir íslenska mjólkurkúakynið og hins vegar að stjórn nautgripabænda skipi starfshóp til að greina áhrif af hugsanlegum innflutningi á erfðaefni úr erlendu mjólkurkúakyni á íslenska mjólkurframleiðslu. Erfðanefnd landbúnaðarins fagnar þessum ályktunum og telur að nautgripabændur séu með þessu að sýna ábyrgð. Erfðanefndin vill leggja á það ríka áherslu að umræða og ákvarðanataka í þessu máli geti ekki farið fram nema að raunsæ verndaráætlun fyrir íslensku kúna liggi fyrir, hvernig eigi að framkvæma þá verndun og hvað hún komi til með að kosta.

Hlutverk erfðanefndar landbúnaðarins er skilgreint í 16. grein búnaðarlaga nr. 70/1998 og 5. grein laga um innflutning dýra nr. 54/1990. Um starf nefndarinnar gildir reglugerð 151/2005 um varðveislu og nýtingu erfðaauðlinda í landbúnaði. Reglugerðin er sett með skírskotun til samnings Sameinuðu þjóðanna um líffræðilega fjölbreytni, sem Alþingi fullgilti 1994. Samkvæmt ákvæðum samningsins skuldbinda þjóðir heims sig til að vernda og viðhalda erfðaauðlindum, bæði í villtum og ræktuðum tegundum. Lögð er áhersla á umráðarétt þjóða yfir eigin erfðaauðlindum og þar með ábyrgð á verndun þeirra. Meginhlutverk erfðanefndar landbúnaðarins er því að fjalla um innflutning á erlendu kúakyni út frá sjónarmiðum verndunar búfjárstofna og varðveislu erfðafjölbreytileika þeirra.

Skylt efni: erlent kúakyn

Lausn á vísnagátu
Líf&Starf 24. nóvember 2025

Lausn á vísnagátu

Lausnin á vísnagátu Guðbjörns Sigurmundssonar í síðasta Bændablaði er orðið mál.

Skákmánuðurinn janúar
Líf&Starf 3. febrúar 2025

Skákmánuðurinn janúar

Janúarmánuður hefur lengi verið frekar stór skákmánuður á Íslandi. Í þeim mánuði...

Þörfnumst heilbrigðara sambands við tímann
Líf&Starf 13. desember 2024

Þörfnumst heilbrigðara sambands við tímann

Carl Honoré, sem gjarnan hefur verið kallaður rödd alþjóðlegu Hæglætishreyfingar...

Sækja áhrif til Suður-Evrópu
Líf&Starf 9. október 2024

Sækja áhrif til Suður-Evrópu

Í síðustu úthlutun Matvælasjóðs fengu bændur í Syðra-Holti í Svarfaðardal rúmleg...

Brautryðjandi í búskap með íslenska hesta í Noregi
Líf&Starf 14. ágúst 2024

Brautryðjandi í búskap með íslenska hesta í Noregi

Ingebjørg Helkås Vaa fæddist í Noregi 14. júlí 1933, yngst fimm systkina. Hún va...

Stjörnuspá vikunnar
Líf&Starf 2. júlí 2024

Stjörnuspá vikunnar

Vatnsberinn veit vart í hvorn fótinn hann á að stíga þessa dagana. Lífið virðist...

Heitt poppkorn er hollt sælgæti!
Líf&Starf 10. maí 2022

Heitt poppkorn er hollt sælgæti!

Svo hljóðaði auglýsing er birtist á síðu Morgunblaðsins í júlílok árið 1968 - en...

Lesning fyrir heilabilaða
Líf&Starf 4. maí 2022

Lesning fyrir heilabilaða

Þegar ég setti saman bókina Í húsi afa míns sem kom út fyrir tólf árum, hvarflað...