Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 4 ára.
Illir að eðlisfari
Á faglegum nótum 11. desember 2020

Illir að eðlisfari

Höfundur: Vilmundur Hansen

Síðasti jólasveinninn kemur til byggða á aðfangadag og á jóladag leggur sá fyrsti af stað aftur til síns heima. Einu sinni á ári gera þessir skrýtnu kallar sér ferð í bæinn með tilheyrandi hlátrasköllum, hurðaskellum og fíflalátum.


Jólasveinarnir eru synir Grýlu og Leppalúði er að öllum líkindum faðir þeirra, en Grýla var ekki við eina fjölina felld því áður en hún kynntist Lúða átti hún vingott við Bola og Gust og átti með þeim fjölda tröllabarna. Í dag eru flestir sammála um að jólasveinarnir séu þrettán og heiti Stekkjarstaur, Giljagaur, Stúfur, Þvörusleikir, Pottasleikir, Askasleikir, Hurðaskellir, Skyr­gámur, Bjúgnakrækir, Glugga­gægir, Gáttaþefur, Ket­krókur og Kertasníkir.


Sigfús Sigfússon þjóð­sagna­safnari sagði að jólasveinarnir væru í mannsmynd, klofnir upp í háls, með klær fyrir fingrum, kringlótta fætur og engar tær. „Þeir eru illir að eðlisfari og líkastir púkum og lifa mest á blótsyrðum manna og óvönduðum munnsöfnuði og eru rógsamir og rángjarnir, einkum á börn.“


Í dag líkjast þeir fremur fíflalegum miðaldra offitusjúklingum, hallærislegum trúðum eða búðarfíflum en ógnvekjandi tröllum.


Nöfn jólasveinanna hafa ekki alltaf verið þau sömu og í dag og áður gengu þeir undir ýmsum nöfnum sem oft voru staðbundin. Í Fljótunum koma fyrir nöfn eins og Pönnuskuggi, Guttormur, Bandaleysir, Lampaskuggi og Klettaskora. Í Mývatnssveit þekktust nöfnin Flórsleikir og Móamangi.

Á Ströndum voru jólasvein­arnir þrettán eða fjórtán og báru önnur nöfn. Baggi, Lútur, Rauður, Redda, Steingrímur, Sledda, Lækjaræsir, Bláminn sjálfur, Blámans barnið, Litli­pungur, Örvadrumbur, Tífall og Tútur, Baggi og Hrútur, Rauður og Redda, Stein­grímur og Sledda, sjálfur Bjálfinn og Bjálfans barnið, Bitahængir, Froðusleikir, Glugga­gægir og Styrjusleikir.


Að sögn Sigfúsar Sigfússonar koma jólasveinarnir til landsins í byrjun jólaföstunnar á „selskinnsbátum vestan frá Grænlandsóbyggðum eða, að sumra sögn, austan frá Finnmörk og kalla sumir byggðarlag þeirra Fimnam. Þeir leggja að landi í leynivogum undir ófærum og geyma báta sína í hellum og halda huldu yfir þeim uns þeir fara aftur nærri þrettánda.“


Sigfús segir jólasveinana skipta sér á bæi þegar þeir koma að landi og „hér þekkjast þeir oft varla frá púkum og árum af verknaði sínum og eru illkaldir sem hafís og heljur. Jólasveinar eiga kistur sem þeir bera menn á brott í.“


Upp úr miðri síðustu öld fara jólasveinarnir að taka á sig alþjóðlega mynd rauðhvíta jólasveinsins. Þeir verða vinir barnanna og færa þeim gjafir í skóinn síðustu dagana fyrir jól og eru ómissandi á jólaskemmtunum.


Íslensku jólasveinarnir hafa haldið þeim sið að vera hávaðasamir og hrekkjóttir og ekki er laust við að börn séu enn hrædd við þá. Hræðsla barnanna er fullkomlega eðlileg. Fullorðið fólk hikar ekki við að segja börnunum að þessir ókunnugu ríflega miðaldra offitusjúklingar, sem ganga um í skrýtnum rauðum fötum, komi í herbergið til þeirra á nóttinni og taki óþekk börn og þau sem ekki vilja fara snemma í rúmið. Einn þeirra er meira að segja þekktur gluggagægir sem líklega væri best geymdur bak við lás og slá. 

Lausn á vísnagátu
Líf&Starf 24. nóvember 2025

Lausn á vísnagátu

Lausnin á vísnagátu Guðbjörns Sigurmundssonar í síðasta Bændablaði er orðið mál.

Skákmánuðurinn janúar
Líf&Starf 3. febrúar 2025

Skákmánuðurinn janúar

Janúarmánuður hefur lengi verið frekar stór skákmánuður á Íslandi. Í þeim mánuði...

Þörfnumst heilbrigðara sambands við tímann
Líf&Starf 13. desember 2024

Þörfnumst heilbrigðara sambands við tímann

Carl Honoré, sem gjarnan hefur verið kallaður rödd alþjóðlegu Hæglætishreyfingar...

Sækja áhrif til Suður-Evrópu
Líf&Starf 9. október 2024

Sækja áhrif til Suður-Evrópu

Í síðustu úthlutun Matvælasjóðs fengu bændur í Syðra-Holti í Svarfaðardal rúmleg...

Brautryðjandi í búskap með íslenska hesta í Noregi
Líf&Starf 14. ágúst 2024

Brautryðjandi í búskap með íslenska hesta í Noregi

Ingebjørg Helkås Vaa fæddist í Noregi 14. júlí 1933, yngst fimm systkina. Hún va...

Stjörnuspá vikunnar
Líf&Starf 2. júlí 2024

Stjörnuspá vikunnar

Vatnsberinn veit vart í hvorn fótinn hann á að stíga þessa dagana. Lífið virðist...

Heitt poppkorn er hollt sælgæti!
Líf&Starf 10. maí 2022

Heitt poppkorn er hollt sælgæti!

Svo hljóðaði auglýsing er birtist á síðu Morgunblaðsins í júlílok árið 1968 - en...

Lesning fyrir heilabilaða
Líf&Starf 4. maí 2022

Lesning fyrir heilabilaða

Þegar ég setti saman bókina Í húsi afa míns sem kom út fyrir tólf árum, hvarflað...