Íbúum Bláskógabyggðar fjölgar
Það er mikið um að vera í Bláskógabyggð því íbúum þar er alltaf að fjölga og þá er mikið um byggingaframkvæmdir í sveitarfélaginu. Nýverið var 1.500 íbúa markinu náð en í dag eru íbúar 1.508 samkvæmt vef Þjóðskrár, þ.e. einstaklingar með lögheimili í Bláskógabyggð.
Fjölgun íbúa hefur verið um 7–10% á ári síðustu tvö til þrjú ár. „Fjölgunina má skýra með ýmsu en hér hefur verið byggt mikið af íbúðarhúsnæði síðustu árin, en það var orðin brýn þörf fyrir uppbyggingu íbúða. Sveitarfélagið réðist í gatnagerð, bæði á Laugarvatni og í Reykholti, og úthlutun lóða hefur gengið mjög vel, reyndar svo vel að við eigum afar lítið af lausum lóðum í dag. Atvinnutækifærum hefur farið fjölgandi, auk þess sem fólk sér tækifæri í því að stunda fjarvinnu, eða blöndu af því að vinna heima og fara af og til á vinnustað, mögulega á höfuðborgarsvæðinu. Einnig er talsvert um að fólk sæki atvinnu í nágrannasveitarfélögin eða á Selfoss, og öfugt,“ segir Ásta Stefánsdóttir sveitarstjóri.
Baðlón í Laugarási
Þéttbýliskjarnar í Bláskógabyggð eru þrír, eða Laugarás, Reykholt og Laugarvatn. Mest hefur verið byggt í Reykholti, en einnig talsvert á Laugarvatni, og nú hefur áhugi á lóðum í Laugarási aukist en þar er nú verið að byggja baðlón sem mun skapa nokkurn fjölda starfa. „Lykillinn að því að geta farið í gatnagerð og lóðaúthlutun er að hafa deiliskipulag í gildi og á síðustu árum hefur verið unnið að nýjum deiliskipulagsáætlunum fyrir alla þéttbýlisstaðina. Lóðarhafar greiða hófleg gatnagerðargjöld við úthlutun lóða, en ekki eru innheimt byggingarréttargjöld eða önnur lóðagjöld ofan á gatnagerðargjöldin,“ segir Ásta.
Blandaður hópur nýrra íbúa
En hvaðan koma nýju íbúarnir í Bláskógabyggð og hvaða þjónustu er verið að bjóða upp á?
„Nýir íbúar eru blandaður hópur, bæði Íslendingar og fólk af erlendum uppruna af ýmsu þjóðerni. Barnafjölskyldur sjá hag sinn í því að flytja í sveitarfélagið, enda höfum við náð að taka börn inn á leikskóla frá 12 mánaða aldri. Sveitarfélagið býður líka upp á heimgreiðslur til foreldra yngstu barnanna, kjósi þeir að nýta ekki leikskólapláss. Margir flytja í sveitarfélagið vegna atvinnu, ferðaþjónustan er öflug og vaxandi og er núna heilsársgrein, öfugt við það sem var fyrir nokkrum árum þegar margir drógu saman seglin yfir veturinn. Einnig er mikið í gangi í garðyrkjunni og störfum þar hefur farið heldur fjölgandi. Tækifæri eru til frekari vaxtar á því sviði, einkum ef tekst að koma betra skikki á lagaumhverfi á raforkumarkaði,“ segir Ásta og bætir við að nýlega hafi verið borað eftir heitu vatni í Reykholti og á Laugarvatni og var árangurinn góður og gefur möguleika á frekari atvinnuuppbyggingu.
Öflugur landbúnaður
Auk þeirrar uppbyggingar sem á sér stað í þéttbýliskjörnunum í Bláskógabyggð, þá er einnig víða verið að byggja upp í dreifbýlinu. Landbúnaður í Bláskógabyggð er öflugur og margir bændur í einhvers konar starfsemi með búskapnum, svo sem ferðaþjónustu eða annarri þjónustu. „Og í aðalskipulagi Bláskógabyggðar eru settar skorður við því að hægt sé að taka litlar spildur út úr jörðum undir íbúðarhús, þannig að við erum ekki að sjá þá þróun sem á sér stað víða annars staðar að það sé að verða mikil búseta í dreifbýli sem ekki tengist landbúnaði með einum eða öðrum hætti,“ segir Ásta.
Tvö þúsund sumarhús
Nokkrar sumarhúsabyggðir eru í Bláskógabyggð en rúmlega tvö þúsund sumarhús af öllum stærðum og gerðum eru í sveitarfélaginu. Flesta daga ársins dvelja því mun fleiri í sveitarfélaginu en íbúatalan ein segir til um og yfir sumarið margfaldast það. „Talsverðar skorður eru settar við því í aðalskipulagi sveitarfélagsins að hægt sé að fá rekstrarleyfi til að leigja íbúðarhúsnæði út í skammtímaleigu til ferðamanna, er það bæði til þess að tryggja að húsnæði sé frekar í boði til fastrar búsetu og draga úr ónæði í íbúðargötum sem slíkri starfsemi getur fylgt,“ segir Ásta talandi um sumarhúsin.
Menntaskóli og háskóli
Þjónustustig í Bláskógabyggð er frekar hátt eins og hvað varðar aðgengi að leikskóla og frístund. Grunnskóli er á Laugarvatni og í Reykholti en vel hefur gengið að manna stöður með fagfólki í báðum skólunum og sveitarfélagið sinnir skólaakstri á stóru svæði. „Á Laugarvatni er menntaskóli og starfsemi á vegum Háskóla Íslands. Í sveitarfélaginu eru góð íþróttamannvirki, bæði á Laugarvatni og í Reykholti, og er þar haldið úti íþróttaæfingum, frístundastyrkur til barna og ungmenna er veglegur. Félagsstarf er nokkuð fjölbreytt og flestir geta fundið eitthvað við sitt hæfi. Íbúar hafa einnig um marga veitingastaði að velja, vilji þeir fara út að borða, og tvær dagvöruverslanir eru reknar í sveitarfélaginu. Síðan má ekki gleyma því að víða í Bláskógabyggð er veðursælt og mikil náttúrufegurð og ekki spillir það fyrir,“ segir kampakátur sveitarstjóri Bláskógabyggðar.
