Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en mánaðar gamalt.
Kollumúlavatn við Egilssel í Lónsöræfum.
Kollumúlavatn við Egilssel í Lónsöræfum.
Mynd / ÞH
Líf og starf 30. október 2025

Í fögrum dal

Höfundur: Kristján B. Jónasson

Í Stafafellsfjöllum inn af Lóni í Austur-Skaftafellssýslu er Víðidalur. Þar hefur enginn búið í nokkuð á aðra öld en á 19. öld voru gerðar tilraunir til að nema þar land og stofna bú. Að endingu gáfust síðustu ábúendurnir upp og hörfuðu neðan úr fjöllunum.

Í ágústbyrjun 1882 reið landkönnuðurinn og jarðfræðingurinn Þorvaldur Thoroddsen með fylgdarmanni sínum Sigfúsi Jónssyni, bónda á Hvannavöllum í Geithellnadal, fram með Hofsjökli hinum eystri, milli jökulsins og Tungutinda, og niður í Víðidal í Stafafellsfjöllum. Á þessum hásumardegi blasti við þeim félögum sannkölluð paradís. Enn var ekki farið að reka fé úr Lóni eða úr Nesjum í Hornafirði í afrétt svo innarlega eins og síðar varð og ekki hafði heldur verið búið í dalnum um langt skeið. Þarna var því ekki skepnu að sjá, hvað þá heldur menn, en gróður hins vegar svo mikill að undrum sætti. Segir Þorvaldur í ferðabók sinni að hann hafi varla „séð þvílíkt á Íslandi“. Og bætir svo við: „Hestarnir óðu alls staðar grasið, víðinn og blómgresið í hné og þar yfir.“ Inn á milli sagði Þorvaldur að væru hvannstóð, sem „tóku manni í hönd“ og „milli þeirra uxu gulviðarhríslur, grávíðir, blágresi, dökkfjólulitir lokasjóðsbræður, sóleyjar og margt fleira“. Þorvaldur bætti hins vegar við að þótt dalurinn væri sannarlega blómlegur sæi hann vart möguleika á búsetu þar „fyrir snjóþyngslum á vetrum og eins af því að aðflutningar eru því nær með öllu bannaðir vegna jökla og öræfa er að dalnum liggja“.

Dvalið í dalakofa

Fylgdarmaður Þorvaldar, Sigfús á Hvannavöllum, var hins vegar annarrar skoðunar. Honum leist svo vel á sig í þessari veröld handan fjallanna að hann fékk leyfi Stafafellsprests til að hefja þar landnám, sá þriðji sem það reyndi á 19. öld. Fyrri tilraunir höfðu báðar runnið út í sandinn, sú síðasta raunar á harmsögulegan hátt. Þótt Sigfúsi væri fullkunnugt um afdrif síðustu ábúenda dalsins lét hann það ekki á sig fá.

Kona Sigfúsar hét Ragnhildur Jónsdóttir og þau áttu einn son uppkominn, Jón, sem varð 19 ára árið 1883 er fjölskyldan reisti bæ og útihús í dalnum á grunni eldri húsa. Var bærinn nefndur Grund. Síðla júní það ár fór fjölskyldan alfarin í dalinn og flutti allt hafurtask sitt, hátt í hundrað hestburði, yfir skörðin inn af Geithellnadal og yfir í Víðidal. Leiðin þarna á milli er um 20 kílómetra löng. Hæst liggur hún í um 750 metra hæð yfir sjávarmáli og ef stysta leiðin er valin liggur ferðin yfir jökul. Hinir austfirsku smájöklar í næsta nágrenni Víðidals, Hofsjökull og Þrándarjökull, voru um þetta leyti á hátindi útþenslu sinnar og jökultilveru en hafa nú látið á sjá. Óðum styttist í skapadægur þeirra.

Feðgarnir Sigfús og Jón bættu svo um betur sumarið eftir og hófu að reisa ný bæjarhús sem voru tilbúin 1885. Í ársbyrjun 1888 féll snjóflóð á elsta hluta bæjarins og gjöreyddi honum svo það var sannarlega lán að fjölskyldan hafði flutt sig um set.

Fyrstu árin var ekki öðrum til að dreifa á Grund en þeim þremur en síðan bættist við vinnufólk. Fyrsta vinnukonan hét Helga Þorsteinsdóttir. Hún varð brátt eiginkona Jóns bóndasonar og eignuðust þau börn og svo réðust fleiri í vist. Ber heimildum saman um að á heimilinu hafi verið fyrirmyndarbragur þegar allt lék í lyndi um 1890. Þegar mest var bjuggu átta á Grund.

Gengið á landið

Helsta heimildin um veru þessa fólks í Víðidal er dagbók Jóns Sigfússonar. Tveimur árum eftir að þau komu að Grund hóf hann ritun hennar og ef fáeinar eyður eru undanskildar (einkum yfir heyskapartímann) skráði hann veður og verk nánast allan búskapartíma fjölskyldu sinnar í dalnum.

Jón greinir til að mynda frá því að hafa reynt að færa björg í bú með veiði. Hann reyndi að fella hreindýr, en það gekk ekki sem best með haglabyssu. Á þessum árum héldu hreindýrin sig líka norðar og innar og of langt var fyrir Víðidalsfólk að fara inn á Eyjabakka á veiðar. Hins vegar var Jón öflug rjúpnaskytta og þau á Grund lögðu rjúpur inn í verslunina á Papósi. Árið 1889 segist Jón hafa skotið 400 rjúpur þann vetur fyrir góulok sem er nú dágóður árangur. Jóni ber hins vegar saman við fleiri heimildir um að einhver kveisa hafi komið upp í stofninum 1893 því þá tók alveg fyrir rjúpur á Austurlandi um nokkurra ára skeið.

Fleira fór svo að bresta í búskapnum. Í dagbókunum er greint frá eldiviðaröflun í Víðidal og um Stafafellsfjöll, á því svæði sem nú er jafnan nefnt Lónsöræfi, þótt enginn hafi kannast við það örnefni á 19. öld. Talar Jón um að „skóga“ sem greinilega þýðir að höggnar eða rifnar eru niður stærri hríslur en einnig greinir hann frá viðarkolagerð sem jafnan fer fram fyrir slátt eða eftir slátt, þá „kurlar“ hann. Sömuleiðis segir hann frá eldiviðarferðum á vetrum þegar „sprek“ eru tínd og svo er rifið upp lyng og tíndur mosi til að kynda undir pottunum.

Að auki var túnið á Grund stækkað. Þar sem blóm og víðir uxu áður við gömlu tóttirnar á Grund voru þúfur burtsniðnar og runnarnir rifnir upp til að fá töðu fyrir kýrnar. Grundarfólk var jafnan með eina til tvær kýr þótt Jóni virðist hafa verið lítt um slíkar skepnur gefið, enda voru það afurðir af sauðfénu: ullin, skrokkarnir og gærurnar sem búið gat selt. Fjárbúskapurinn treysti fyrst og fremst á útibeit því heyfengurinn var rýr. Það rétt hafðist að berja saman 50 hesta af heyi hvert sumar þar sem hver skiki og reitur var sleginn. Þetta var ekki merkilegt fóður, blandið alls kyns blómvexti og víðitágum. Til samanburðar má ráða að á fyrri hluta 20. aldar, áður en vélvæðing sveitanna hófst fyrir alvöru, voru 300 til 400 hestar taldir eðlilegur heyfengur á meðalbúi.

Þegar Þorvaldur Thoroddsen kom aftur í dalinn 1894, tólf árum eftir fyrstu heimsókn sína í þennan unaðsreit, brá honum því illilega. „Ræktunin og fjárbeitin er algerlega búin að breyta Víðidal,“ segir hann og bætir við: „Þó túnið sé stórt, þá fást aðeins af því 40 hestar. Það er snögglent, grasið gisið og sést í mold milli stráa.“ Þetta gat ekki gengið svona til lengdar.

Farið burt

Það var svo vorið 1897 að Grundarfólk gafst upp og fór. Landið bar ekki lengur bústofninn, aðdrættir voru erfiðir og barningurinn við að komast um fjöllin í vetrarhörkum hafði tekið toll af heilsu heimilisfólks. Þessu til viðbótar hafði hrikt í stoðum heimilisfriðarins þegar húsbóndinn barnaði vinnukonu sem kom að Grund um 1894. Hélt húsfreyja sig þá við hlóðirnar og kom ekki inn í baðstofuna á vökunni. Eftir að vinnukonan var rekin burt með þunga sinn skánaði þó stem ningin en ekki greri alveg um heilt.

En þau komust þó heil í burt. Hálfri öld fyrr, 1847, höfðu aðrir reynt að koma sér fyrir í Víðidal, þau Þorsteinn Hinriksson og Ólöf Nikulásdóttir. Ólöf var ekkja, hafði eignast þrjú börn í sínu fyrra hjónabandi en þau Þorsteinn áttu saman tvo syni. Á þrettándanum fyrsta veturinn þeirra í Víðidal féll snjóflóð á bæinn. Í því fórust Þorsteinn og drengirnir tveir en Ólöf og tvær dætur hennar úr fyrra hjónabandi, Halldóra og Guðný, voru í eldhúsinu og það slapp að mestu. Skriðan kaffærði það hins vegar svo gjörsamlega að í sex vikur voru mæðgurnar luktar inni og lifðu á hráu hangikjöti. Ólöf hafði meiðst í flóðinu og var ekki til stórræðanna en stúlkunum tókst á endanum að brjótast út um snjóhuluna og draga móður sína með sér út og halda síðan í áttina að Geithellnadal. Gríðarlegur snjór var yfir öllu og veður vond og villtust þær á leiðinni. Þegar þær loksins komust yfir í Geithellnadal álpuðust þær utan í snarbratta hjarnbrekku sem þær þorðu ekki að fara út á og því voru þær strand í klettabelti hátt uppi í fjalli. Tilviljunin hagaði því þannig til að bróðir Ragnhildar Jónsdóttur sem seinna settist að á Grund var þá vinnumaður á Hvannavöllum, innsta bæ í Geithellnadal. Hann rak augun í einhverja skrítna þúst uppi í fjallinu. Fór hann að svipast um hvað það væri, fann svo mæðgurnar nær dauða en lífi og bjargaði þeim.

En örlögin eru skrítin skepna. Á öskudag 1885 féll snjóflóð á Seyðisfirði þar sem 14 hús sópuðust út á sjó, 24 fórust og tugir slösuðust. Þar létu lífið Guðný sú sem bjargaðist með naumindum úr snjóflóðinu á Víðidal 1848 og ung dóttir hennar. 

Lausn á vísnagátu
Líf&Starf 24. nóvember 2025

Lausn á vísnagátu

Lausnin á vísnagátu Guðbjörns Sigurmundssonar í síðasta Bændablaði er orðið mál.

Skákmánuðurinn janúar
Líf&Starf 3. febrúar 2025

Skákmánuðurinn janúar

Janúarmánuður hefur lengi verið frekar stór skákmánuður á Íslandi. Í þeim mánuði...

Þörfnumst heilbrigðara sambands við tímann
Líf&Starf 13. desember 2024

Þörfnumst heilbrigðara sambands við tímann

Carl Honoré, sem gjarnan hefur verið kallaður rödd alþjóðlegu Hæglætishreyfingar...

Sækja áhrif til Suður-Evrópu
Líf&Starf 9. október 2024

Sækja áhrif til Suður-Evrópu

Í síðustu úthlutun Matvælasjóðs fengu bændur í Syðra-Holti í Svarfaðardal rúmleg...

Brautryðjandi í búskap með íslenska hesta í Noregi
Líf&Starf 14. ágúst 2024

Brautryðjandi í búskap með íslenska hesta í Noregi

Ingebjørg Helkås Vaa fæddist í Noregi 14. júlí 1933, yngst fimm systkina. Hún va...

Stjörnuspá vikunnar
Líf&Starf 2. júlí 2024

Stjörnuspá vikunnar

Vatnsberinn veit vart í hvorn fótinn hann á að stíga þessa dagana. Lífið virðist...

Heitt poppkorn er hollt sælgæti!
Líf&Starf 10. maí 2022

Heitt poppkorn er hollt sælgæti!

Svo hljóðaði auglýsing er birtist á síðu Morgunblaðsins í júlílok árið 1968 - en...

Lesning fyrir heilabilaða
Líf&Starf 4. maí 2022

Lesning fyrir heilabilaða

Þegar ég setti saman bókina Í húsi afa míns sem kom út fyrir tólf árum, hvarflað...