Hvíla þarf kartöflugarða í Þykkvabænum í þrjú ár
Atvinnuvegaráðuneytið hefur sent kartöflubændunum í Hrauk í Þykkvabænum fyrirmæli um hvíla þurfi þá garða í þrjú ár þar sem kartöfluhnúðormur hefur greinst, sem er skæður skaðvaldur í kartöflurækt.
Staðfest var í vor að í þremur sýnum, teknum úr þremur görðum bændanna Lilju Guðnadóttur og Guðna Þórs Guðjónssonar í Hrauk, væri um hnúðorm að ræða.
Ekki hættulegur mönnum eða dýrum
Í viðtali hér í blaðinu í lok maí sagði Helgi Jóhannesson, garðyrkjuráðunautur hjá Ráðgjafarmiðstöð landbúnaðarins, að um þráðorm væri að ræða sem legðist á rætur karöfluplantna þannig að það drægi úr vexti og uppskeran minnkaði. Hann væri ekki hættulegur mönnum eða dýrum, en almennt væri viðurkennt að um mikinn skaðvald væri að ræða sem erfitt geti verið að uppræta. Smitefni geti þannig lifaði í jarðvegi í allt að 20 ár.
Hnúðormurinn smitist milli svæða með sýktu útsæði og með smituðum jarðvegi á vélum og tækjum.
Getur verið best að loka smituðum görðum
Þórhildur Ísberg, fagsviðsstjóri plöntuheilbrigðis hjá Matvælastofnun, segir að eftir þrjú ár fari fram sýnataka að nýju. „Ræktendur þurfa að gæta sóttvarna á milli garða, þrífa tæki og forðast jarðvegssmit, auk þess sem Matvælastofnun mun taka sýni í öllum öðrum görðum viðkomandi ræktenda í haust til að kanna hver staðan sé.
Eina ráðið við kartöfluhnúðormi eftir að hann er kominn í garðinn er að hvíla garðinn og mögulega setja niður yrki með mótstöðuafli gegn hnúðorminum. Jarðvegssmit eru erfið að eiga við og hnúðormurinn er oft lífseigur og getur niðurstaðan verið að best sé að loka smituðum görðum og hætta kartöflurækt í þeim,“ segir hún.
Kartöflur verða ræktaðar í görðunum í sumar
Guðni Þór segir að það verði ræktað í þessum görðum í sumar eins og til stóð, en síðan verði þeir hvíldir. Enda var búið að setja niður í þá þegar staðfest var að þetta væri hnúðormur. „Við munum bara fylgjast vel með og ganga varlega um þetta. Mér skilst að það fari ekkert á milli mála ef þetta er til staðar í kartöflugörðum.
Ég hef verið að afla mér upplýsinga um hnúðorminn og ég er ekki viss um að hann lifi af kaldan íslenskan vetur með sínum umhleypingum. Mig grunar það og vona það auðvitað. Það var líka gleðilegt að ræktunarbannið er eingöngu til þriggja ára, en þetta eru reyndar bara þrír garðar á um fimm hekturum af um 27 hekturum sem við settum niður í núna í vor.“
