Hugað að snjallari framtíðarmatvælum
Forsvarsmenn Loka Foods segja áherslu lagða á hrein hráefni, endurnýjanlega orku og næringu til að þróa bragðgóð plöntumiðuð matvæli. Markmiðið sé að bjóða upp á heilnæma fæðu á viðráðanlegu verði. Með sjálfbærni að leiðarljósi bjóði Loki upp á nýja valkosti fyrir neytendur og stuðli að þróun framtíðarinnar í matvælaframleiðslu.
Stofnendur fyrirtækisins eru faraldsfræði- og lýðheilsufræðingurinn Christopher McClure og Björn V. Aðalbjörnsson, dósent við matvæla- og næringarfræðideild Háskóla Íslands.
Snjallari framtíðarmatvæli
Samuel Perrella, rekstrar- og framleiðslustjóri Loka Foods, segir fyrirtækið ætla sér að gjörbylta því hvernig fólk borðar: „Að gera hollan, ljúffengan jurtamat ekki aðeins valkost, heldur augljóst val,“ segir hann. Loki eigi rætur að rekja til djarfrar hugmyndar frumkvöðla fyrirtækisins um vinnslu plöntumiðaðra matvæla árið 2023 og sl. tvö ár hafi verið unnið að „snjallari“ framtíðarmatvælum þar sem blandað sé saman nýsköpun, næringu og félagslegum áhrifum í hverju skrefi. Og enn sé aðeins verið að hita upp.
„Matur ætti ekki að vera ruglingslegur, ekki einkaréttur eins né neins, né heldur skaða heilsu þína. Markmið okkar er að ryðja burt hvers kyns ágiskunum – og sektarkennd – úr því að borða vel. Við erum að skora lélega næringu á hólm og bjóða í staðinn eftirsóknarverð matvæli sem eru hollari fyrir líkamann, peningaveskið og plánetuna. Í heimi fullum af röngum upplýsingum og dýrkeyptri vellíðan er okkur full alvara með að jafna aðstöðumun fólks með mat sem er alvöru eldsneyti fyrir alla,“ segir Samuel.
Fyrirtækið hefur, að hans sögn, þegar markaðssett fjölbreytt úrval af plöntumiðuðum matvælum sem standist ekki einungis væntingar heldur gott betur. „Samstarf okkar við helstu söluaðila, eins og Hagkaup og Bónus, þýðir að við hittum þig þar sem þú verslar,“ útskýrir hann.
Heiminn hungri í breytingar
Spáð er að alþjóðlegur plöntumiðaður próteinmarkaður muni ná 77,6 milljörðum dollara árið 2025, knúinn áfram af aukinni eftirspurn neytenda eftir sjálfbærum og hollum matvælum. Loki hefur fengið mikla athygli frá upphafi og var fyrirtækið til dæmis valið besti nýliðinn 2024 hjá Nordic Startup Awards. Samúel segir þó að vissulega sé gott brautargengi ekki án allra hnökra.
„Að hreyfa við rótgrónu matvælakerfi og halda verðinu niðri á meðan gæðunum er viðhaldið – það er okkar Everest,“ segir hann. Það sem hafi gengið best sé ástríðan fyrir verkefninu, fólkið sem að því vinnur og síðast en ekki síst tilgangurinn. Skriðþunginn sé þeirra megin, allt frá fjölbreyttri teymisvinnunni til gleðinnar yfir verkefninu sem slíku.
„Markmið okkar er í raun fagurlega einfalt: að gera hollan mat á viðráðanlegu verði að auðveldu, spennandi vali fyrir alla. Við erum ekki bara að setja á markað vörumerki heldur erum við að byggja upp hreyfingu. Eftir því sem við stækkum þá skerpist einbeitingin. Það sem byrjaði sem vöruþróun er nú í raun samfélagsbreyting og heiminn hungrar í breytingar. Við tökum fagnandi á móti fleiri samstarfsaðilum, stækkum fyrirtækið eftir atvikum og látum hærra í okkur heyra,“ segir hann jafnframt. Lokamarkmið eða endahnútur Loka sé þó hvergi í augsýn.
„Þó að vegvísir okkar nái til ársins 2026 og fjárhagssýnin lengra en til ársins 2027, er hið raunverulega markmið mun stærra. Við viljum vera hér til langs tíma, halda áfram að þróast, vinna sleitulaust að nýsköpun og þjóna samfélögum með mat sem nærir bæði líkama og sál. Loki er ekki bara fyrirtæki heldur er það líka skuldbinding um varanlegar og bragðgóðar breytingar,“ segir Samuel enn fremur.
Fjölbreytt vöruframboð
Fyrir tveimur setti Loki á oddinn að markaðssetja ferskar plöntumiðaðar fisk-líkar afurðir og fékk 85 m.kr. fjárfestingarstyrk frá ýmsum aðilum, m.a. íslenska sjóðnum MGMT Ventures, VegInvest og Sustainable Food Ventures. Var um að ræða fiskisteik að stofni til úr plöntum, sem líkist þorski og með svipað næringarinnihald, bragð og áferð og fiskurinn.
Að sögn Samuels hefur fyrirtækið breytt um áherslur frá því sem var upprunalega. Loki Foods sé ekki vegan- eða grænkerafyrirtæki heldur sé áherslan fyrst og síðast á heilsu og næringu með því að bjóða öllum næringarríkan mat á viðráðanlegu verði.
Á vefsíðu Loka má sjá hvaða plöntumiðuðu „tilbúin til neyslu“-matvæli fyrirtækið hefur þegar á boðstólum. Þ.á.m. krókettur, buff, fiskisteik, plokk (fisk) og bollur. Vörurnar eru m.a. unnar úr kartöflum og baunapróteinum. Á næsta ári er ætlunin að setja á markað m.a. nagga, svokallað kafta, fiskspjót, pylsur og hamborgara auk ýmissa sósa m.a. úr tómötum og plönturótum.
Loki Foods er í Samtökum smáframleiðenda matvæla.
Hringiða er viðskiptahraðall fyrir grænar lausnir. Horft er til nýsköpunarverkefna sem með einum eða öðrum hætti stuðla að sjálfbærni og betri nýtingu, huga að umhverfis- og/eða loftslagsmálum eða hafa hugmyndafræði hringrásarhagkerfisins að leiðarljósi. Hlutverk Hringiðu+ er að styðja við þróun öflugra fyrirtækja sem skapa verðmæt störf og skila árangri í umhverfis- og loftslagsmálum. Í ár voru sjö teymi valin til þátttöku í Hringiðu+ og er Loki Foods eitt þeirra.
