Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 10 mánaða.
Hrútarnir Faldur og Garpur eru báðir frá Ytri-Skógum. Þeir reyndust vinsælustu hrútar sæðingastöðvanna í vetur.
Hrútarnir Faldur og Garpur eru báðir frá Ytri-Skógum. Þeir reyndust vinsælustu hrútar sæðingastöðvanna í vetur.
Mynd / Aðsendar
Fréttir 10. janúar 2025

Hrútarnir frá Ytri-Skógum vinsælastir

Höfundur: Sigurður Már Harðarson

Góð þátttaka var í sauðfjársæðingum nú í desember, litlu minni en árið 2023, sem þá var óvenjumikil.

Að sögn Eyþórs Einarssonar, ráðunautar hjá Ráðgjafarmiðstöð landbúnaðarins, var metþátttaka árið 2023, þegar sæddar voru 29.074 þúsund ær, um 11 prósent af fullorðnum ám á skýrslum. „Þá var bæði kominn hópur af ARR- hrútum á stöðvarnar og ríkið studdi við sæðingarnar með hvatastyrkjum. Fara þarf aftur til ársins 2012 til að finna jafnmargar sæðingar, en þá voru sæddar 29.133 ær, en þá voru líka mun fleiri ær á skýrslum og því lægra hlutfall sætt, eða átta prósent af fullorðnum ám.

Miðað við 65 til 70 prósenta nýtingu á því sæði sem fór út til bænda nú í desember þá stefnir í mjög svipaða þátttöku í ár og má ætla að sæddar ær verði á bilinu 29 til 31 þúsund.“

Mest sótt í Garp og Fald

Á meðfylgjandi lista má sjá hversu mikið sæði var sent út frá sæðingastöðvunum báðum úr 30 efstu hrútunum. „Þessi listi gefur ágæta mynd af vinsældum hrútanna en er þó ekki fullkomlega rétt því sumir hrútar önnuðu ekki alveg eftirspurn og því meira sent út í staðinn úr hrútum sem voru duglegri að gefa sæði. Hver raunveruleg notkun er á hrútunum skýrist svo von bráðar þegar bændur hafa klárað að skrá sæðingarnar í Fjárvís.

Á báðum stöðvum voru hrútar frá Ytri-Skógum vinsælastir. Garpur 23-936 var bæði mest pantaði hrúturinn og sá sem mest sæði var afgreitt úr í Borgarnesi. Í Þorleifskoti var það Faldur 23-937 sem mest var sótt í. Meðal þeirra hrúta sem voru meira pantaðir en þeir gátu annað og hefðu því staðið ofar á listanum ef þeir hefðu gefið meira sæði voru Toppur frá Hófgerði, Hlekkur frá Mýrum 2, Dufgus frá Sauðafelli, Alvís frá Kjarna og Ófeigur frá Heydalsá 1,“ segir Eyþór.

Meiri dreifing á ARR- breytileikanum en 2023

Ef feld- og forystuhrútar eru frátaldir þá voru 47 hrútar í boði á stöðvunum í vetur. „Þar af voru fimm sem báru ekki verndandi eða mögulega verndandi arfgerð, allt hrútar sem voru nú sinn annan vetur á stöð. Var lítið sótt í þessa hrúta utan Káts frá Efstu-Grund, sem áfram var mjög vinsæll enda með afburðagóða útkomu í lambadómum síðastliðið haust,“ segir Eyþór.

„Þó nú sé ekki hrútur með verndandi breytileikann ARR gegn riðu efstur á lista yfir þá hrúta sem mest var sent út af sæði frá, þá var í heildina talsvert meira sent út af sæði úr hrútum sem bera breytileikann en árið áður.

Árið 2023 voru sendir út 25.700 skammtar úr ARR-hrútum en árið 2024 voru sendir út um 29 þúsund skammtar. Skýrist það væntanlega af því að nú var enn meiri breidd í hrútakostinum. Í hópnum voru margir af glæsilegustu lambhrútum landsins og þá bættist við liðsauki úr Dölunum, en fimm hrútar komu frá Vífilsdal af hinni nýju ARR-línu. Líkt og við mátti búast hefur áherslan í notkun hrúta verið breytileg eftir svæðum en Vífilsdalshrútarnir hafa verið mun meira nýttir í áhættuhólfunum fyrir norðan heldur en annars staðar á landinu.“

Hrútar með breytileikann T137 ekki fullnýttir

Þegar Eyþór er spurður út í notkun á hrútum með breytileikann T137, sem einnig hefur verið talinn vera verndandi gegn riðu, en þó ekki formlega viðurkenndur sem slíkur, segist hann skynja ágætan áhuga á honum. „Hann er enn með þá stöðu að vera talinn mögulega verndandi. Þessir tveir hrútar sem báru T137 voru ekki fullnýttir en við viljum að sjálfsögðu viðhalda honum í stofninum. Það væri vissulega akkur í því ef sá breytileiki stendur undir því að flokkast sem verndandi en hvort sé komið fram nægilegar sönnur á það veit ég ekki, það hefur í sjálfu sér ekki mikið komið fram af nýjum rannsóknarniðurstöðum síðan núverandi flokkun var sett fram.

En þó T137 yrði ekki fært upp í flokk og skilgreint sem verndandi arfgerð að svo stöddu hafa bændur mikið svigrúm til að nýta þann breytileika í sinni ræktun en landsáætlun um útrýmingu riðuveiki veitir mikið svigrúm til hagnýtingar á mögulega verndandi arfgerðum.“

Garpur frá Ytri-Skógum.

Sæðingadagar féllu aldrei niður

Eyþór segir að sæðingastöðvarnar hafi sent frá sér 44.174 sæðisskammta til sauðfjárbænda í desember. „Í heildina er fjöldi skammta um 1.700 færri en en 2023. Samdrátturinn var aðallega í útsendu sæði frá Þorleifskoti á Suðurlandsstöðinni. Í sumum héruðum var meira sætt en í fyrra og öðrum heldur minna.

Heilt yfir gekk sæðingavertíðin með allra besta móti. Annars vegar var það vegna þess að veður var nokkuð skaplegt og því féllu sæðingadagar aldrei niður vegna ófærðar. Hins vegar var það vegna þess hve vel pantanir dreifðust á hrútana og tiltölulega vel gekk að anna eftirspurn.“

Hvatastyrkir vegna sæðinga

Matvælaráðuneytið mun veita hvatastyrki til þess að styðja við innleiðingu á verndandi og mögulega verndandi arfgerðum. Eyþór segir að forsendan sé að bændur skrái sæðingarnar inn í Fjárvís eigi síðar en 13. janúar.

„Styrkurinn er 1.100 krónur á sædda á með hrút sem ber verndandi arfgerð og 550 kr. ef sætt er með hrútum sem bera mögulega verndandi arfgerðir. Uppgjörið fer fram í gegnum Afurð.

Faldur frá Ytri-Skógum.Caption

Skylt efni: sauðfjársæðingar

Lausn á vísnagátu
Líf&Starf 24. nóvember 2025

Lausn á vísnagátu

Lausnin á vísnagátu Guðbjörns Sigurmundssonar í síðasta Bændablaði er orðið mál.

Skákmánuðurinn janúar
Líf&Starf 3. febrúar 2025

Skákmánuðurinn janúar

Janúarmánuður hefur lengi verið frekar stór skákmánuður á Íslandi. Í þeim mánuði...

Þörfnumst heilbrigðara sambands við tímann
Líf&Starf 13. desember 2024

Þörfnumst heilbrigðara sambands við tímann

Carl Honoré, sem gjarnan hefur verið kallaður rödd alþjóðlegu Hæglætishreyfingar...

Sækja áhrif til Suður-Evrópu
Líf&Starf 9. október 2024

Sækja áhrif til Suður-Evrópu

Í síðustu úthlutun Matvælasjóðs fengu bændur í Syðra-Holti í Svarfaðardal rúmleg...

Brautryðjandi í búskap með íslenska hesta í Noregi
Líf&Starf 14. ágúst 2024

Brautryðjandi í búskap með íslenska hesta í Noregi

Ingebjørg Helkås Vaa fæddist í Noregi 14. júlí 1933, yngst fimm systkina. Hún va...

Stjörnuspá vikunnar
Líf&Starf 2. júlí 2024

Stjörnuspá vikunnar

Vatnsberinn veit vart í hvorn fótinn hann á að stíga þessa dagana. Lífið virðist...

Heitt poppkorn er hollt sælgæti!
Líf&Starf 10. maí 2022

Heitt poppkorn er hollt sælgæti!

Svo hljóðaði auglýsing er birtist á síðu Morgunblaðsins í júlílok árið 1968 - en...

Lesning fyrir heilabilaða
Líf&Starf 4. maí 2022

Lesning fyrir heilabilaða

Þegar ég setti saman bókina Í húsi afa míns sem kom út fyrir tólf árum, hvarflað...