Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 1 árs.
Sápa úr hrossafeiti, vatni og lút.
Sápa úr hrossafeiti, vatni og lút.
Mynd / Aðsendar
Fréttir 4. desember 2024

Hrossafeitin mýkri fyrir húðina

Höfundur: Steinunn Ásmundsdóttir

Fremur mun fátítt að hrossafeiti sé notuð í sápuframleiðslu hérlendis. Úr tíu kílóum af fitu af skepnunni fást um tvö kíló af hreinni, lyktarlausri feiti.

Valgerður Stefánsdóttir.

Valgerður Stefánsdóttir á Akureyri nýtir hrossafeiti í sápuframleiðslu en það mun ekki algengt. Hún segir hrossafeiti vera mýkri en flest önnur spendýrafeiti og bæði mýkjandi og nærandi fyrir húðina.

„Talið er að spendýrafeiti samlagist húð okkar betur en feiti úr jurtaríkinu, vegna DNA-eiginleika hennar, og ég er einfaldlega að prufa mig áfram,“ útskýrir Valgerður.

Hún hefur verið í tilraunastarfsemi heima hjá sér um átta ára skeið og segir þetta áhugamál sem hún sinni eftir því sem áhuginn komi yfir hana og tíminn leyfi. Hennar meginiðja er hins vegar að vera sjúkraliði og heilsunuddmeistari.

Þrjú innihaldsefni

Hún notar hrossafeitina, vatn og lút í þessa tilteknu sápugerð. „Ég hef sem áhugamanneskja um sápur hvergi rekist á lífrænar, náttúrulegar sápur sem innihalda einungis þrjú innihaldsefni. Ég nota ýmsar olíur og fitu í sápurnar mínar, bæði úr jurta- og dýraríkinu. Mín reynsla og álit er að langbestu sápurnar séu þær sem eru tiltölulega einfaldar og hafa fá innihaldsefni. Ég er sömuleiðis hætt að nota nokkur ilmefni í þær,“ segir Valgerður. Sápurnar sínar noti hún á kroppinn og í hárið og líki það vel.

„Ég er nýfarin að prófa bæði hrossa- og nautafeiti í sápurnar og fleira sem ég er að gera. Það er talsvert mál að hreinsa feitina. Úr u.þ.b. tíu kílóum af fitu, beint af skepnunni, fékk ég um tvö kíló af hreinni, lyktarlausri feiti. Þetta er svona gamaldags ferli sem ég hef ánægju af,“ segir hún.

Fær feitina hjá slátrara

Feitina fær hún frá slátrara og er ekki kostnaðarsamt sem neinu nemur. „Hreinsunarferlið felst í því að ég byrja á að hreinsa feitina eins og unnt er. Svo þarf að hita hana með vatni, svo hún brenni ekki, í stórum potti við mjög lágan hita, uns hún er öll orðin mjúk og það getur alveg tekið sólarhring. Það þarf að fylgjast mjög vel með henni allan tímann. Þá þarf að sigta allt gegnum klút, setja í ílát og láta kólna alveg. Þegar feitin er orðin alveg köld, þarf að hreinsa groms sem er neðst
á klumpinum og hita aftur. Það getur tekið 4–5 svona skipti í þessu hreinsunarferli til að fá feitina alveg hreina og lyktarlausa,“ útskýrir hún. „Ég nota, í það sem ég geri, helst og nánast einungis lífræn, náttúruleg efni og mest það sem til er hér heima,“ segir Valgerður. Hún hefur t.d. framleitt nærandi húðsalva og notað ýmislegt úr jurtaríkinu, svo sem lífrænar olíur, þ.á m. ólífuolíu, kókosfeiti, sheabutter o.fl. Nú síðast gerði hún salva úr hrossa- og nautafeiti, bývaxi og fleiru úr dýraríkinu sem hún segir hafa komið mjög vel út. Einnig hefur hún notað ilmkjarnaolíur í svitalyktareyði og sérblandar nuddolíurnar sínar. En segist þó smám saman vera að færa sig frá öllum ilmefnum.

Dúlluhekl frá mömmu

Sápurnar sem hún selur setur hún gjarnan á hekluð smástykki, sem eru augnayndi, og bindur bast eða snæri utan um. Dúllurnar eru heklaðar af aldraðri móður Valgerðar, Ásthildi Sigurðardóttur á Stokkahlöðum, fyrrverandi skólastjóra barnaskólans á Hrafnagili, úr garnafgöngum. „Ég þekki engan einstakling sem er jafnduglegur og ötull að prjóna og hekla eins og hún,“ hnýtir Valgerður við.

Hún situr uppi með gamla, stóra sellófan-rúllu og notar selló utan um einstaka sápu. „Það er fallegt, kemur vel út og einhvern tíma þarf hvort eð er að farga því. Ég spyr sjálfa mig hvort það er umhverfisvænna að henda heilli rúllu í einu eða nota út úr henni,“ segir Valgerður sposk.

Lausn á vísnagátu
Líf&Starf 24. nóvember 2025

Lausn á vísnagátu

Lausnin á vísnagátu Guðbjörns Sigurmundssonar í síðasta Bændablaði er orðið mál.

Skákmánuðurinn janúar
Líf&Starf 3. febrúar 2025

Skákmánuðurinn janúar

Janúarmánuður hefur lengi verið frekar stór skákmánuður á Íslandi. Í þeim mánuði...

Þörfnumst heilbrigðara sambands við tímann
Líf&Starf 13. desember 2024

Þörfnumst heilbrigðara sambands við tímann

Carl Honoré, sem gjarnan hefur verið kallaður rödd alþjóðlegu Hæglætishreyfingar...

Sækja áhrif til Suður-Evrópu
Líf&Starf 9. október 2024

Sækja áhrif til Suður-Evrópu

Í síðustu úthlutun Matvælasjóðs fengu bændur í Syðra-Holti í Svarfaðardal rúmleg...

Brautryðjandi í búskap með íslenska hesta í Noregi
Líf&Starf 14. ágúst 2024

Brautryðjandi í búskap með íslenska hesta í Noregi

Ingebjørg Helkås Vaa fæddist í Noregi 14. júlí 1933, yngst fimm systkina. Hún va...

Stjörnuspá vikunnar
Líf&Starf 2. júlí 2024

Stjörnuspá vikunnar

Vatnsberinn veit vart í hvorn fótinn hann á að stíga þessa dagana. Lífið virðist...

Heitt poppkorn er hollt sælgæti!
Líf&Starf 10. maí 2022

Heitt poppkorn er hollt sælgæti!

Svo hljóðaði auglýsing er birtist á síðu Morgunblaðsins í júlílok árið 1968 - en...

Lesning fyrir heilabilaða
Líf&Starf 4. maí 2022

Lesning fyrir heilabilaða

Þegar ég setti saman bókina Í húsi afa míns sem kom út fyrir tólf árum, hvarflað...