Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 1 árs.
Jón Örn Ólafsson, bóndi á Nýjabæ, heldur á arfhreinni Angus-kvígu.
Jón Örn Ólafsson, bóndi á Nýjabæ, heldur á arfhreinni Angus-kvígu.
Mynd / Edda Ævarsdóttir
Fréttir 29. janúar 2024

Hraðvöxnustu nautin í Nýjabæ

Höfundur: Ástvaldur Lárusson

Mikill daglegur vöxtur var á ungneytum í Nýjabæ undir Eyjafjöllum í fyrra samkvæmt niðurstöðum skýrsluhaldsársins í nautakjötsframleiðslunni.

Á listanum yfir tíu hraðvöxnustu nautin á landinu voru sex frá Nýjabæ. Þaðan kom naut 1382, undan Erpi, sem bar höfuð og herðar yfir önnur með 795,5 gramma vöxt á dag. Þungi þess var 412,2 kílógrömm þegar því var slátrað 16,4 mánaða gömlu. Jón Örn Ólafsson og Edda Ævarsdóttir eru bændur í Nýjabæ og segir hann þau hafa unnið að þessu í nokkurn tíma með uppbyggingu á stofni með nýju erfðaefni úr holdanautum af Angus-kyni.

Skammur eldistími

Jón Örn segir þau miða að því að láta allar kýrnar bera í maí og júní og að kálfarnir gangi úti fram í miðjan október. Þá séu þeir teknir inn í hús þar sem þeir klári eldið fram á næsta haust. Holdagripirnir séu flestir fimmtán til sextán mánaða gamlir þegar þeir fari í sláturhús og markmiðið sé að hafa eldistímann skamman. Jón Örn bendir á að þegar nautin séu komin í mikla þyngd séu þau orðin dýr á fóðrum þar sem stöðugt meira af orkunni fari í viðhald en vöxt hjá nautunum.

Með þessu náist jafnframt betri nýting á húsunum þar sem gripirnir eru bara einn vetur inni og flestir sláturgripirnir séu farnir áður en næsti hópur kemur inn. Jón Örn segir aðstöðu og velferð gripanna skipta miklu máli. Allar stíurnar séu með mjúku yfirborði og gott pláss fyrir hvern einstakling. Þá leggi þau sig fram við að vera með gott fóður, með kröftugu heyi og heimaræktuðu byggi, sem fari í gegnum heilfóðurblandara.

Hundrað og tuttugu kýr

Um hundrað og tuttugu kýr báru í Nýjabæ síðasta sumar. Jón Örn segir þær allar holdablendinga og eiga þau núna þrjár hreinræktaðar Angus-kvígur.

Þá verði allir kálfar næsta sumars undan arfhreinum Angus- nautum. Á Nýjabæ er mikið notast við sæðingar og hafa bændurnir komið sér upp svokölluðum beiðslisgreini til að geta fylgst með hvenær kýrnar eru yxna. Þær sem festi ekki fang eftir tvær sæðingar og smá tíma með þarfanauti séu sendar í sláturhús.

Nokkuð hafi aukist að nautgripir frá Nýjabæ séu seldir á fæti sem ræktunargripir. Það séu þá bæði naut og kvígur. Jón Örn segir að með því fáist tekjur fyrr inn og þeir gripir sem eru eftir hafi meira rými sem skili sér í betri vexti. Nánar má lesa um niðurstöður skýrsluhaldsársins í nautakjötsframleiðslunni á síðum 42-43 í Bændablaðinu.

Lausn á vísnagátu
Líf&Starf 24. nóvember 2025

Lausn á vísnagátu

Lausnin á vísnagátu Guðbjörns Sigurmundssonar í síðasta Bændablaði er orðið mál.

Skákmánuðurinn janúar
Líf&Starf 3. febrúar 2025

Skákmánuðurinn janúar

Janúarmánuður hefur lengi verið frekar stór skákmánuður á Íslandi. Í þeim mánuði...

Þörfnumst heilbrigðara sambands við tímann
Líf&Starf 13. desember 2024

Þörfnumst heilbrigðara sambands við tímann

Carl Honoré, sem gjarnan hefur verið kallaður rödd alþjóðlegu Hæglætishreyfingar...

Sækja áhrif til Suður-Evrópu
Líf&Starf 9. október 2024

Sækja áhrif til Suður-Evrópu

Í síðustu úthlutun Matvælasjóðs fengu bændur í Syðra-Holti í Svarfaðardal rúmleg...

Brautryðjandi í búskap með íslenska hesta í Noregi
Líf&Starf 14. ágúst 2024

Brautryðjandi í búskap með íslenska hesta í Noregi

Ingebjørg Helkås Vaa fæddist í Noregi 14. júlí 1933, yngst fimm systkina. Hún va...

Stjörnuspá vikunnar
Líf&Starf 2. júlí 2024

Stjörnuspá vikunnar

Vatnsberinn veit vart í hvorn fótinn hann á að stíga þessa dagana. Lífið virðist...

Heitt poppkorn er hollt sælgæti!
Líf&Starf 10. maí 2022

Heitt poppkorn er hollt sælgæti!

Svo hljóðaði auglýsing er birtist á síðu Morgunblaðsins í júlílok árið 1968 - en...

Lesning fyrir heilabilaða
Líf&Starf 4. maí 2022

Lesning fyrir heilabilaða

Þegar ég setti saman bókina Í húsi afa míns sem kom út fyrir tólf árum, hvarflað...