Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en mánaðar gamalt.
Horfið er frá sérstökum markmiðum um rekstrarhagræðingu í sauðfjár- og stórgripaslátrun í frumvarpsdrögum um breytingar á búvörulögum. Markmið frumvarpsins er að lögfesta almennar samstarfsheimildir um framleiðendafélög.
Horfið er frá sérstökum markmiðum um rekstrarhagræðingu í sauðfjár- og stórgripaslátrun í frumvarpsdrögum um breytingar á búvörulögum. Markmið frumvarpsins er að lögfesta almennar samstarfsheimildir um framleiðendafélög.
Mynd / Bbl
Fréttir 9. október 2025

Horfið frá markmiðum um hagræðingu í slátrun

Höfundur: Sigurður Már Harðarson

Með fyrirhuguðum breytingum á búvörulögum er ætlunin að fella niður almenna undanþágu fyrir kjötafurðastöðvar frá samkeppnislögum og að lögfesta almennar samstarfsheimildir um framleiðendafélög bænda, sem eru óháðar búgreinum.

Til að njóta undanþágu frá samkeppnislögum, til að eiga með sér samstarf um afmarkaða þætti, verða framleiðendafélögin að vera undir „beinum yfirráðum bænda“, eins og það er orðað í frumvarpsdrögunum.

Félög í meirihlutaeigu bænda

Með frumvarpinu sem atvinnuvegaráðherra hyggst mæla fyrir nú á haustþingi er að vissu leyti snúið aftur til markmiða í frumvarps Svandísar Svavarsdóttur í nóvember 2023, þar sem skilyrði fyrir undanþágu frá samkeppnislögum, til sameiningar og samráðs, var bundið við félög í meirihlutaeigu bænda. Þá var um leið hugtakið „framleiðendafélag“ fyrst innleitt.

Frumvarpið var svo aftur lagt fyrir Alþingi 18. mars á síðasta ári. Atvinnuveganefnd breytti hins vegar þessum skilyrðum í lokavinnslu frumvarpsins þannig að vikið er frá skilyrðum um meirihlutaeigu bænda í framleiðendafélögum. Þórarinn Ingi Pétursson, þáverandi formaður atvinnuveganefndar gaf þá skýringu í umfjöllun Bændablaðsins í apríl að þegar málin voru skoðuð betur hafi einungis þrjú félög í slátrun og vinnslu uppfyllt skilyrðin; Ísfugl, Matfugl og Stjörnugrís. Það hafi komið fram í gögnum Samkeppniseftirlitsins við meðferð málsins hjá atvinnuveganefnd.

Sagði Þórarinn að í ljós hafi komið að fyrra frumvarp náði ekki utan um sauðfjár- og nautgripabændur – og þess vegna hafi það verið víkkað út. Grundvallarhugmyndin með breytingunum hefði verið að auka möguleika á rekstrarhagræðingu í slátrun og vinnslu sauðfjár og stórgripa.

Sama vandamálið

Margrét Ágústa Sigurðardóttir, framkvæmdastjóri Bændasamtaka Íslands, segir að svo virðist sem nákvæmlega sama vandamál sé komið upp og þegar frumvarp Svandísar var lagt fram í upphafi. „Það er að heimildin til hagræðingarinnar nái aðeins til hvíta geirans, kjúklinga- og svínakjöts, en ekki til rauða kjötsins þar sem hagræðingarþörfin er hvað mest.“ Það sé tekið fram í skýringum með drögunum að frumvarpið muni ekki hafa áhrif á þegar gerð samkomulög um verkaskiptingu milli afurðastöðva samkvæmt 71. gr. A núgildandi laga, en þar sé vísað til undanþágunnar varðandi kjötafurðir.

Hún spyr hvers vegna þarna sé eingöngu talað um samkomulag um verkaskiptingu en ekki heimildina til að sameinast. Sú spurning vakni hvort ætlunin sé að rekja upp þær sameiningar sem nú þegar hafa átt sér stað – og þá hvaða afleiðingar það muni hafa á bændur.

„Þegar fella átti úr gildi þetta ákvæði núna á vorþingi þá kom mjög skýrt fram í meirihlutaáliti atvinnuveganefndar að hún teldi rétt að ítreka að frumvarpið myndi ekki hafa áhrif á þær sameiningar framleiðendafélaga eða afurðastöðva sem lokið er. Þetta er eitt af þeim fjölmörgu álitaefnum sem koma upp en frumvarpsdrögin vekja einfaldlega langtum fleiri spurningar en þau svara.“

Snertir lítið sauðfjár- og stórgripaslátrun

Margrét Gísladóttir, framkvæmdastjóri Samtaka fyrirtækja í landúnaði, tekur í sama streng og nafna hennar, varðandi kjötafurðastöðvarnar. „Það er margt líkt með þessu frumvarpi og því frumvarpi sem Svandís Svavarsdóttir lagði fram á sínum tíma. En það var alveg ljóst að sú útgáfa þess frumvarps var gölluð og hefði aldrei náð markmiðum sínum um hagræðingu í slátrun og vinnslu í sauðfjár og stórgripaslátrun án breytinga. Af þeim sökum brýndi Svandís, þáverandi matvælaráðherra, þingið til þess að gera breytingar. Það vekur því furðu að ráðuneytið skuli enn einu sinni leggja til útfærslu sem er ljóst að tekur að takmörkuðu leyti til sauðfjár og stórgripaslátrunar.

Spurð um það hvort breytingin á búvörulögum muni verða hvatning fyrir afurðastöðvar að breyta eignarhaldinu þannig að undanþáguákvæði gildi fyrir þau í mögulegum hagræðingaraðgerðum, segir hún að það sé ekki hlaupið að því að breyta eignarhaldi á fyrirtækjum sisvona í þá veru. „Hlutur bænda var í fyrri tíð meiri í mörgum fyrirtækjum en með aukinni fjárþörf vegna erfiðleika í rekstri hefur þurft að fá aðra aðila inn í gegnum tíðina. Fyrirtækin eru, þrátt fyrir mismunandi eignarhald, úrvinnslufyrirtæki bænda og starfa sem slík af miklum metnaði.

En það er í raun alveg ótækt að allar lykilskilgreiningar eru enn óútfærðar sem gerir okkur erfiðara fyrir að taka afstöðu til einstakra þátta frumvarpsins. Hvaða forsendur verða að baki mati Samkeppniseftirlitsins á yfirráðum?“ spyr hún. „Við höfum áður séð mat frá eftirlitinu á þessum þáttum sem að okkar mati ganga ekki upp. Þá vakna líka spurningar um hverjar séu skilgreiningarnar á frumframleiðanda og framleiðendafélagi. Þetta á allt saman að útfæra í reglugerðum síðar meir. Hættan við slíkt er að þar er verið að færa ákvarðanavald um útfærslur til framkvæmdavaldsins frá Alþingi þar sem það ætti sannarlega heima,“ segir Margrét Gísladóttir.

Hún segir að með frumvarpinu sé verið að veita Samkeppniseftirlitinu heimild til að fella úr gildi samninga eða samstarf eða krefjast breytinga á þeim, telji eftirlitið þess þurfa. Jafnvel þó slíkar ákvarðanir væru þvert gegn markmiðum laganna. „Aftur legg ég áherslu á að það er svo margt óútfært og mörgum spurningum ósvarað. Eins og frumvarpið lítur út núna þá virðist vera ansi mikið af lausum endum.“

Breytir öllu varðandi núverandi fyrirkomulag

Spurð út í fyrirhugaðar breytingar á lagaumhverfi mjólkuriðnaðarins, segir Margrét Ágústa að með drögunum sé í raun verið að leysa upp núverandi fyrirkomulag. „Vitandi að það sé verið að kollsteypa því þá er gefinn þessi aðlögunarfrestur til 1. júlí 2027. Sé ætlunin að sú verkaskipting sem hefur verið til staðar í rúm 20 ár í mjólkinni haldi gildi sínu, af hverju er þá gefinn frestur til aðlögunar að því að mjólkurundanþágan verði felld úr gildi?“ spyr hún.

„Miðað við drögin þá mun þetta breyta öllu hvað varðar það fyrirkomulag sem fyrir er í söfnun og vinnslu á mjólk frá bændum á Íslandi. Sú hagræðing sem hefur fengist með því hvernig þessu hefur verið háttað með tilheyrandi ávinningi fyrir bændur og neytendur – með ábata upp á tvo til þrjá milljarða á ári –mun því væntanlega verða að engu ef þessi frumvarpsdrög verða að lögum,“ segir Margrét Ágústa.

Gæti orðið dýrkeypt

Margrét Gísladóttir bendir á að enn sé erfitt að átta sig á hvaða áhrif breytingarnar gagnvart mjólkuriðnaðinum muni hafa. „Það er erfitt að átta sig á nákvæmum áhrifum þar sem svo margar lykilskilgreiningar vantar, en þau gætu orðið veruleg.

Það sem er furðulegast í þessu er að alls staðar er verið að stefna að frekari stærðarhagkvæmni og burðugri rekstrareiningum í landbúnaði. Gott dæmi um slíkt er yfirstandandi sameining mjólkurafurðafyrirtækjanna Arla og DMK. Hér er verið að fara í þveröfuga átt, í átt frá stærðarhagkvæmni, án sýnilegrar ástæðu. Þessar tillögur, verði þær að veruleika, gætu því orðið ansi dýrkeyptar fyrir fámenna og dreifbýla eyju eins og Ísland.“

Skylt efni: búvörulög

Lausn á vísnagátu
Líf&Starf 24. nóvember 2025

Lausn á vísnagátu

Lausnin á vísnagátu Guðbjörns Sigurmundssonar í síðasta Bændablaði er orðið mál.

Skákmánuðurinn janúar
Líf&Starf 3. febrúar 2025

Skákmánuðurinn janúar

Janúarmánuður hefur lengi verið frekar stór skákmánuður á Íslandi. Í þeim mánuði...

Þörfnumst heilbrigðara sambands við tímann
Líf&Starf 13. desember 2024

Þörfnumst heilbrigðara sambands við tímann

Carl Honoré, sem gjarnan hefur verið kallaður rödd alþjóðlegu Hæglætishreyfingar...

Sækja áhrif til Suður-Evrópu
Líf&Starf 9. október 2024

Sækja áhrif til Suður-Evrópu

Í síðustu úthlutun Matvælasjóðs fengu bændur í Syðra-Holti í Svarfaðardal rúmleg...

Brautryðjandi í búskap með íslenska hesta í Noregi
Líf&Starf 14. ágúst 2024

Brautryðjandi í búskap með íslenska hesta í Noregi

Ingebjørg Helkås Vaa fæddist í Noregi 14. júlí 1933, yngst fimm systkina. Hún va...

Stjörnuspá vikunnar
Líf&Starf 2. júlí 2024

Stjörnuspá vikunnar

Vatnsberinn veit vart í hvorn fótinn hann á að stíga þessa dagana. Lífið virðist...

Heitt poppkorn er hollt sælgæti!
Líf&Starf 10. maí 2022

Heitt poppkorn er hollt sælgæti!

Svo hljóðaði auglýsing er birtist á síðu Morgunblaðsins í júlílok árið 1968 - en...

Lesning fyrir heilabilaða
Líf&Starf 4. maí 2022

Lesning fyrir heilabilaða

Þegar ég setti saman bókina Í húsi afa míns sem kom út fyrir tólf árum, hvarflað...