Hörð andstaða birtist í umsögnum um frumvarpsdrög að breytingum á búvörulögum í samkeppnisátt. Ekki síst um að undanþáguheimild afurðastöðva í mjólkuriðnaði til að vinna saman og sameinast verði felld brott.
Hörð andstaða birtist í umsögnum um frumvarpsdrög að breytingum á búvörulögum í samkeppnisátt. Ekki síst um að undanþáguheimild afurðastöðva í mjólkuriðnaði til að vinna saman og sameinast verði felld brott.
Mynd / smh
Fréttir 10. nóvember 2025

Hörð andstaða gegn breytingum í samkeppnisátt

Höfundur: Sigurður Már Harðarson

Umsagnarferli um umdeild frumvarpsdrög þar sem breyta á búvörulögum, lauk 24. október og bárust alls 26 umsóknir áður en umsagnarfresturinn rann út. Af þeim má segja að 21 séu efnislega andsnúnar drögunum en þrjár meðmæltar.

Eftir að umsóknarfresturinn rann út birtust í Samráðsgátt umsagnir frá Mjólkursamsölunni og byggðarráði Skagafjarðar, þar sem mikilli andstöðu er lýst við frumvarpsdrögin.

Undanþágur felldar niður

Í breytingunum felst að sérstakar undanþáguheimildir frá samkeppnislögum eru felldar niður fyrir afurðastöðvar í landbúnaði um samstarf og sameiningar. Þess í stað er gert ráð fyrir samstarfsheimildum óháðum búgreinum, með því skilyrði að afurðastöðvarnar séu undir „beinum yfirráðum bænda“, eins og það er orðað í drögunum. Í greinargerð með frumvarpsdrögunum er vitnað til stefnuyfirlýsingar ríkisstjórnarinnar þar sem lögð er áhersla á að rjúfa kyrrstöðu og vinna að aukinni verðmætasköpun í atvinnulífi, meðal annars með því að ýta undir vöxt og verðmætasköpun í matvælaframleiðslu og vinna að fjölbreytni í atvinnulífi og sterku samkeppniseftirliti.

Í greinargerðinni segir enn fremur að með frumvarpinu sé stefnt að því að styrkja stöðu frumframleiðenda búvara og skapa tækifæri til aukinnar samvinnu og verðmætasköpunar að teknu tilliti til meginreglna samkeppnisréttar og þannig tryggja að innlendir frumframleiðendur hafi sambærilegt svigrúm til samvinnu og hagræðingar líkt og í nágrannalöndum okkar.

Bændum og neytendum til hagsbóta

Í frumvarpsdrögunum er ákvæði um að undanþáguheimild afurðastöðva í mjólkuriðnaði til að vinna saman og sameinast verði felld brott 1. júlí 2027.

Ragnar Árnason segir í umsögn sinni að mjólkurvinnsla á Íslandi hafi starfað samkvæmt undanþáguheimildinni í hartnær aldarfjórðung og á grundvelli hennar hafi verið gerðar verulegar skipulagsbreytingar í greininni og lagt í viðamiklar fjárfestingar sem hafa skilað mikilli framleiðniaukningu og lækkun vinnslukostnaðar bæði bændum og neytendum til hagsbóta. Verði undanþágan afnumin sé lagalegur grundvöllur þessarar hagræðingar brostinn og núverandi skipan í mjólkurvinnslu í algerri óvissu. Í kjötvinnslu hafi heimildin einungis staðið í eitt og hálft ár. Engu að síður virðist veruleg hagræðing þegar hafa átt sér stað í greininni og flest bendir til að hún muni halda áfram á komandi árum líkt og gerst hefur í mjólkurvinnslu.

Segir Ragnar að niðurfelling heimildarinnar kippi forsendunum undan því að slík þróun geti átt sér stað.

Meta ætti raunveruleg áhrif árið 2027

Mörg sveitarfélög vara við því að frumvarpsdrögin fari óbreytt fyrir Alþingi. Dalabyggð, Borgarbyggð, Hvalfjarðarsveit, Samtök sveitarfélaga á Norðurlandi vestra og Fjórðungssamband Vestfirðinga eru á einu máli um að lagasetning á þessum grunni geti veikt stöðu bænda.

Í umsögn Dalabyggðar segir að eins og fram komi í mati á áhrifum frumvarpsins þá snerti það fyrst og fremst bændur, framleiðendafélög og neytendur. Samt virðist sem drögin taki helst mið af markaðs- og samkeppnissjónarmiðum.

Bent er á að fyrst ekki liggi meira á að afnema undanþáguheimildina fyrir mjólkuriðnaðinn væri ráð að halda einnig inni undanþáguheimildum sem kjötafurðastöðvar fengu við síðustu breytingar á búvörulögum um vorið 2024. Á þeim tíma væri hægt að meta raunveruleg áhrif af þeim breytingum og ávinning bænda og neytenda. Borgarbyggð segir að verði drögin að lögum óttist sveitarstjórn Borgarbyggðar að afkomu sífellt fleiri bænda verði teflt í tvísýnu. Það sé langsótt að breytingarnar muni í raun stuðla að því markmiði að styrkja stöðu bænda og leiða til aukinnar verðmætasköpunar.

Jöfnun flutningskostnaðar vantar

Fjórðungssamband Vestfirðinga vekur í sinni umsögn athygli á því að staða mjólkurbænda á Vestfjörðum varð til muna viðkvæmari eftir lokun afurðastöðvar á Vestfjörðum og framleiðsla mjólkur hafi dregist saman frá því sem hún áður var og í sauðfjárrækt. Þessi staða hafi veikt búsetu í dreifbýli á Vestfjörðum og mikilvægt að breytingar á búvörulögum taki tillit til þeirrar stöðu.

Flutningskostnaður sé þar stórt atriði og því er lýst áhyggjum að í greinargerð varðandi söfnun framleiðslu er eingöngu fjallað um raunkostnað en ekki fjallað um jöfnun á flutningskostnaði. Mjólkurbúskapur og úrvinnsla sé þar sérstaklega viðkvæm og má segja að flutningskostnaður sé meginbreyta á Vestfjörðum vegna fjarlægðar frá mjólkurvinnslum. Vakin er athygli á að rammi búvörulaga hafi skapað svigrúm fyrir stofnun nýrra mjólkurvinnsla sem ekki eru í eigu framleiðenda. „Þessar stöðvar hafa komið á nýsköpun og samkeppni í framleiðslu á fjölbreyttum afurðum úr mjólk. Má skilgreina þessa aðila sem sjálfstæðar mjólkurvinnslur en á Vestfjörðum er það mjólkurvinnsla Örnu ehf. í Bolungarvík sem hér um ræðir,“ segir í umsögninni.

Frumvarpið styður ekki við landbúnaðarstefnuna

Samtök iðnaðarins segjast í umsögn sinni styðja jákvæð markmið frumvarpsins um verðmætasköpun og aukinn vöxt, en telja að framlagt frumvarp gangi þvert gegn þeim markmiðum sem lýst er. Leiðin sem boðuð sé í frumvarpsdrögunum sé vís til að vinna gegn yfirlýstum markmiðum frekar en að styðja við þau.

„Við gerð frumvarpsins virðist hafa farist fyrir að taka nægjanlegt tillit til landbúnaðarstefnu til ársins 2040, sem samþykkt var á Alþingi 1. júní 2023 og var unnin í samráði við greinina. Í umræddri landbúnaðarstefnu er samhljómur í markmiðum ríkisstjórnar Samfylkingar, Viðreisnar og Flokks fólksins sem og þeim markmiðum sem frumvarpinu er ætlað að stefna að. Í landbúnaðarstefnunni koma fram sameiginleg markmið en þar segir „meginmarkmið landbúnaðarstefnunnar verði að efla og styðja íslenskan landbúnað og styrkja stoðir hans til framtíðar með sjálfbæra þróun að leiðarljósi“ og eru áherslur lagðar á ákveðin meginviðfangsefni, m.a. fæðuöryggi, hringrásarhagkerfi, alþjóðleg markaðsmál, neytendur, nýsköpun og tækni, menntun, rannsóknir og þróun sem og fyrirkomulag stuðnings við landbúnað. Frumvarpið sem hér er til umsagnar styður því miður ekki við þessar áherslur, nema síður sé, og virðist þvert á móti vinna gegn tilgangi búvörulaga“, segir í umsögninni.

„Það vekur talsverða furðu að í frumvarpinu útvisti ráðuneytið helstu verkefnum við framkvæmd og afmörkun þeirra reglna sem þar eru boðaðar til sjálfstæðrar eftirlitsstofnunar. En í frumvarpinu er Samkeppniseftirlitinu falið hlutverk við framfylgd formreglna um skráningu framleiðenda og stofnuninni því falið nýtt hlutverk á grundvelli búvörulaga. Hlutverk sem með réttu ætti að vera innan fagráðuneytis eða undirstofnun sem starfar á ábyrgð ráðherra. Ekki er þar við setið heldur er sama eftirlitsaðila í raun falið að móta og fylla matskenndar reglur sem þar eru lagðar fram, án nokkurs aðhalds eða ramma. Þetta hefði þá þýðingu að reglurnar sem gilda um landbúnaðarframleiðslu hér á landi munu að endingu velta á huglægu mati Samkeppniseftirlitsins, enda er ekki neina hlutlæga mælikvarða að finna sem afmarka valdheimildir stofnunarinnar“, segir enn fremur í umsögn Samtaka iðnaðarins.

Regluverk ESB á ekki við á Íslandi

Bændasamtök Íslands eru á sama máli og Samtök iðnaðarins hvað varðar þær auknu valdheimildir sem Samkeppniseftirlitinu eru færðar í drögunum. Þær séu of víðtækar og til þess fallnar að skapa réttaróvissu. Bændasamtökin lýsa verulegum og þungum áhyggjum af þeim breytingum sem drögin fela í sér. Að mati samtakanna myndu slíkar breytingar veikja samkeppnisstöðu íslensks landbúnaðar, draga úr möguleikum til hagræðingar og sporna gegn framþróun og nýsköpun í greininni. „Frumvarpsdrögin ganga gegn þeirri þróun sem átt hefur sér stað undanfarna tvo áratugi í mjólkuriðnaði, þar sem sameining og hagræðing hafa skilað miklum ávinningi, allt að 5 milljörðum króna árlega, bændum og neytendum til hagsbóta. Að sama skapi er áætlað að hagræðing í kjötiðnaði muni skila um 2 milljörðum kr. á ári. Með breytingunum er gengið þvert gegn yfirlýstri stefnu stjórnvalda um að efla verðmætasköpun í íslenskri matvælaframleiðslu og tryggja sjálfbæra innlenda framleiðslu.“

Áhyggjuefni sé að frumvarpið byggi á fyrirmynd úr regluverki Evrópusambandsins, sem eigi ekki við um íslenskar aðstæður. Enda falli Ísland ekki undir sameiginlega landbúnaðarstefnu sambandsins og starfsskilyrði landbúnaðarins í heild gjörólík.

Alvarlegt skref aftur á bak

Bændasamtökin benda á að tilgangur búvörulaga sé meðal annars að stuðla að framförum, hagkvæmni og auknum ábata fyrir bændur og neytendur. „Það er skýr afstaða Bændasamtaka Íslands að frumvarpsdrögin gangi í gagnstæða átt með því að þrengja heimildir framleiðenda til samvinnu og hagræðingar, án þess að sýnt sé fram á að slíkar takmarkanir muni stuðla að aukinni verðmætasköpun, fjölbreytni eða nýjum störfum. Að þrengja svigrúm til hagræðingar myndi ekki leiða til aukinnar samkeppni, heldur til minni framleiðni, rekstrarörðugleika og hugsanlegrar lokunar starfsemi.“

Mat samtakanna er að frumvarpsdrögin séu of víðtæk, óljós og illa aðlöguð íslenskum aðstæðum. „Þau eru ekki í samræmi við markmið landbúnaðarstefnu Íslands um sjálfbæra, hagkvæma og öfluga innlenda matvælaframleiðslu og virðast vera til þess ætluð að veikja stöðu innlendra framleiðenda gagnvart erlendum keppinautum.“ 

Í umsögninni er lögð áhersla á að löggjöf um samstarf í landbúnaði verði að byggja á þeim forsendum sem eigi við hér á landi. Halda eigi undanþágunni varðandi mjólkurframleiðslu óbreyttri og þá fremur skerpa á núgildandi heimildum í kjötiðnaðinum til samvinnu og hagræðingar fremur en að þrengja þær með þeim hætti sem boðaðar eru í frumvarpsdrögunum. Að fella núverandi undanþáguheimildir úr gildi væri alvarlegt skref aftur á bak sem myndi grafa undan þeirri uppbyggingu og sátt sem náðst hefur á undanförnum árum.

Í frumvarpsdrögunum er fallið frá markmiðum núgildandi laga um hagræðingu í slátrun og vinnslu sauðfjár og stórgripa. Mynd / Bbl

Fallið frá hagræðingu í slátrun

Samtök fyrirtækja í landbúnaði leggjast alfarið gegn framlagningu frumvarpsins, í sinni umsögn. Þau telja að frumvarpið sé ekki til þess fallið að uppfylla meginmarkmið þess um að stuðla að hagfelldari starfsskilyrðum í landbúnaði með áherslur á að styrkja stöðu bænda í virðiskeðjunni.

Í umsögninni segir að með frumvarpinu séu núverandi heimildir úrvinnslufyrirtækja bænda til hagræðingar skertar á sama tíma og kvaðir eru auknar. Boðaðar séu grundvallarbreytingar á núverandi starfsumhverfi mjólkuriðnaðarins, án ástæðu. Þær heimildir sem þar gilda í dag séu forsenda hagræðingar sem skila bændum og neytendum ávinningi sem nemur 3 milljörðum króna á ári.

Ekkert samtal eða samráð hafi átti sér stað við afurðastöðvar né bændur eða samtök þeirra við undirbúning málsins. Alfarið sé fallið frá markmiðum fyrri frumvarpa og núgildandi laga um hagræðingu í slátrun og vinnslu sauðfjár og stórgripa, þrátt fyrir þverpólitíska samstöðu um mikilvægi þess að ná niður framleiðslukostnaði í þeim hluta landbúnaðarframleiðslunnar til hagsbóta fyrir bændur.

Þá er gagnrýnt að þrátt fyrir að frumframleiðendum og framleiðendafélögum sé veitt undanþáguheimild frá ákvæðum 10. og 12. grein samkeppnislaga, verði allir samningar háðir samþykki Samkeppniseftirlitsins. Ekki sé tekið tillit til þróunar á félagaformi og eignarhaldi afurðastöðva í landbúnaði sem hefur átt sér stað hér á landi.

Telja Samtök fyrirtækja í landbúnaði að frumvarpið feli í sér stefnubreytingu frá stærðarhagkvæmni og samvinnu á mjög svo dreifðum örmarkaði í viðkvæmri stöðu.

Núverandi kerfi reynst kúabændum vel

Félög kúabænda á Suðurlandi og í Skagafirði skiluðu inn nokkuð samhljóða umsögnum, þar sem lagst er alfarið gegn þeim breytingum sem fyrirhugaðar eru í frumvarpinu. Núverandi kerfi hafi reynst afar vel þannig að hægt sé að framleiða mjólk um allt land, draga úr framleiðslukostnaði afurðastöðva, skila bændum hærra afurðaverði og lægra vöruverði til neytenda. Allar líkur væru á því, að með því að fella undanþáguákvæðið út fyrir mjólkuriðnaðinn muni það hafa neikvæð áhrif á öll framangreind atriði.

Auðhumla er samvinnufélag í eigu um 500 kúabænda og snýst starfsemin annars vegar um að taka við mjólk frá félagsmönnum og hins vegar að umbreyta henni í mjólkurafurðir. Um seinni hlutann sér Mjólkursamsalan að miklum hluta, en hún er að langstærstum hluta í eigu Auðhumlu.

Í umsögn Auðhumlu segir að frumvarpsdrögin geri ráð fyrir að stefnt sé að því að styrkja stöðu frumframleiðenda og skapa tækifæri til aukinnar samvinnu og verðmætasköpunar, að teknu tilliti til meginreglna samkeppnisréttar. Með því sé tryggt að innlendir frumframleiðendur hafi sambærilegt svigrúm til samvinnu og hagræðingar líkt og í nágrannalöndum okkar. Í umsögninni er bent á að ekki verði séð að þörf sé fyrir slíka lagasetningu þar sem nú þegar séu til staðar undanþáguheimildir í búvörulögum sem heimila samstarf í hagræðingarskyni, með viðeigandi undanþágum frá ákvæðum samkeppnislaga. „Eins og opinber umræða undanfarna daga, í kjölfar þess að frumvarpið var birt til umsagnar, ber með sér ríkir almenn ósátt meðal bænda um efni frumvarpsins. Stjórnvöld geta vart borið því við að þeim breytingum sem frumvarpið felur í sér sé ætlað að auka hag bænda þegar bændur leggjast sjálfir gegn breytingunum og hafa þungar áhyggjur af mögulegum áhrifum þeirra.“

Virðist Auðhumlu að tilgangur frumvarpsins sé að innleiða í íslensk lög efni reglugerðar Evrópusambandsins sem ekki er hluti af EES-samningnum, í því skyni að færa íslenskt regluverk nær því sem gildir í Evrópusambandinu, án þess að slíkt sé skylt eða þarft. Einnig að færa það alfarið í hendur Samkeppniseftirlitsins að ákveða upp á sitt einsdæmi hverjir teljast til frumframleiðenda og hvaða samningar frumframleiðenda teljast uppfylla verulega matskenndar undanþáguheimildir frumvarpsins. Auk þess að færa Samkeppniseftirlitinu heimildir til þess að ógilda samninga sem þykja fela í sér röskun á samkeppni, enda þótt skilyrði undanþáguákvæðisins séu uppfyllt.

Mikilvægt samrunaeftirlit samkeppnisyfirvalda

Félag atvinnurekenda (FA) segir í umsögn sinni að með frumvarpsdrögunum verði sniðnir verstu vankantarnir af þeim breytingum, sem gerðar voru á búvörulögunum með lögum nr. 30/2024, sem fólu í sér víðtækar undanþágur kjötafurðastöðva frá samkeppnislögum.

„Í stað þeirra víðtæku undanþága, sem afurðastöðvum voru afhentar með þeirri lagasetningu, koma undanþágur fyrir framleiðendafélög í eigu og/eða undir stjórn og yfirráðum bænda, sem eru sambærilegar svipuðum undanþágum í öðrum Evrópuríkjum, eins og rakið er í greinargerð frumvarpsins [...] Með frumvarpsdrögunum, sem atvinnuvegaráðherra hefur nú lagt fram, er lagt til að löggjöfin færist raunverulega til svipaðs horfs og er í nágrannalöndunum. FA hefur út af fyrir sig ekki talið undanþágur frá samkeppnislögum nauðsynlegar til að tryggja hagræðingu í landbúnaðarframleiðslu, umfram þær undanþágur sem finna má í 15. gr. samkeppnislaganna sjálfra. Félagið telur hins vegar ekki ástæðu til að leggjast gegn því að framleiðendafélög njóti sambærilegra undanþága og tíðkast í nágrannalöndum, megi það verða til að styrkja stöðu bænda í virðiskeðjunni“, segir í umsögn FA.

Að mati FA er lykilatriði að Samkeppniseftirlitið fær heimildir til að grípa inn í vegna einstakra samninga eða ákvarðana framleiðenda eða framleiðendafélaga, sem hafa skaðleg áhrif á samkeppni á markaði eða hættu á að samkeppni sé útilokuð. Sömuleiðis telur Félag atvinnurekenda afar mikilvægt að samrunaeftirlit samkeppnisyfirvalda gildi fullum fetum um starfsemi framleiðendafélaga.

Telur FA að það sé lykilatriði að samkeppnisundanþágan gildi eingöngu um félög sem séu í eigu eða undir stjórn frumframleiðenda. FA fagnar einnig ákvæðum um að sé hluti félags í eigu óskyldra aðila, geti félag engu að síður talist framleiðandafélag og þar af leiðandi fallið undir undanþáguna, hafi frumframleiðendur bein yfirráð yfir félaginu. „Með þessu skapast hvati til þess, eins og fjallað er um í greinargerð draganna, að afurðastöðvar sem uppfylla ekki skilyrði draganna geri breytingar á skipulagi sínu til að tryggja að þær séu undir stjórn bænda. Þetta er að mati FA mikilsverður hvati til að styrkja stöðu bænda í virðiskeðju búvara“, segir í umsögninni.

Varðandi niðurfellingu á 71. grein búvörulaga, undanþáguheimildinni fyrir mjólkuriðnaðinn, segir í umsögninni að þetta sé skref í rétta átt. „Eftirlit samkeppnisyfirvalda með samrunum og samkeppnishamlandi samningum í mjólkuriðnaðinum verður þá aftur virkt, sem er í raun eina breytingin gagnvart mjólkuriðnaðinum sem máli skiptir í frumvarpsdrögunum.“

Samkeppni helsta vörn neytenda

Neytendasamtökin segja í umsögn sinni að þau telji að samkeppni sé ein helsta vörn neytenda í þeirri fákeppni sem ríkir á flestum sviðum á Íslandi. „Lærðar greinar hafa verið skrifaðar um gagnsemi frjálsrar samkeppni og áhrif á vöruverð, nýsköpun og gæði, og fæst væru reiðubúin að hverfa til fyrri tíma þegar einokun og opinber verðstýring var við lýði. Aðför að samkeppni er því aðför að neytendum. Samkeppnislög eru grundvallarleikreglur í frjálsu markaðshagkerfi og að þeim ætti aldrei að víkja til hliðar, nema í ýtrustu undantekningatilvikum þegar afar ríkir almannahagsmunir koma til. Hagræðing innan tiltekinna geira á ekki – og þarf ekki – að vera háð því að samkeppnislögum sé vikið til hliðar. Í 15. gr. samkeppnislaga 44/2005 er fyrirtækjum heimilt að leiða saman hesta sína til að stuðla að aukinni hagræðingu, skilvirkni og nýsköpun með þeim skilyrðum að jákvæð áhrif samstarfsins vegi þyngra en þau neikvæðu. Því voru fyrri breytingar, sem nú er undið ofan af, með öllu óþarfar. Skortur á samkeppni og varðstaða um afurðastöðvar hefur beinlínis komið í veg fyrir eðlilega framþróun í geiranum. Sem dæmi hafa farandsláturhús (e. Mobile abattoir) rutt sér til rúms víða í Evrópu, oft í sameign bænda á undanförnum árum, en ekki á Íslandi. En sláturbílar reynast minnka streituhormón í kjöti og auka gæði afurða“, segir í umsögninni.

Þá telja Neytendasamtökin að betur mætti skilgreina hvað átt sé við með bændum og frumframleiðendum í 2. grein frumvarpsdraganna. Í 2. mgr. 20 gr. laga 6/1989 um afréttarmálefni, fjallskil o.fl. segir: „Sá telst bóndi, er hefur lögbýli til ábúðar.“ Í búvörulögum er engin slík skilgreining, sem gæti valdið misskilningi. Sama má segja um hugtakið frumframleiðendur sem samkvæmt Íslenskri nútímaorðabók Árnastofnunar er „sá eða sú sem aflar hráefnis til iðnaðar eða verkunar“ og nær þannig yfir fjölbreytta starfsemi, sem ekki endilega einskorðast við markmið laganna.“ 

Engar ráðstafanir vegna fyrri samþjöppunar

Samkeppniseftirlitið telur mikilvægt að veita bændum ákveðnar heimildir til samvinnu og samstarfs sem séu sambærilegar undanþágum sem gilda í nágrannalöndum Íslands.

Að mati Samkeppniseftirlitsins eru fyrirhugaðar breytingar til bóta og ættu að tryggja bændum meiri aðkomu og stjórn á málefnum sem varða þá með beinum hætti.

„Mikilverðast er að verði frumvarpið að lögunum verður á ný unnt að beita samrunareglum samkeppnislaga á þessu sviði, bændum og neytendum til hagsbóta. Þannig felst í drögunum lágmarksvernd fyrir neytendur og samkeppni sem birtist m.a. í því að unnt er að taka til skoðunar samkeppnishamlandi ákvæði eða framkvæmd í samstarfssamningum framleiðendafélaga. [...]

Drögin gera þó ekki ráð fyrir neinum ráðstöfunum vegna þeirrar samþjöppunar sem þegar hefur átt sér stað á þeim mörkuðum þar sem afurðastöðvar starfa, frá því að lög nr. 30/2024 tóku gildi“, segir í umsögninni.

Segir Samkeppniseftirlitið að frá þeim tíma hafi orðið umtalsverð samþjöppun á markaðnum, einkum á Norðurlandi, með samruna Kaupfélags Skagfirðinga og Kjarnafæðis Norðlenska. Sameinað fyrirtæki hafi jafnframt tekið yfir rekstur B. Jensen sem hafi verið mikilvægur keppinautur og starfaði jafnframt á Norðurlandi.

Aðgerðir til að bæta rekstrarumhverfi bænda

Miðað við upplýsingar um markaðshlutdeildir sem komið hafa fram við rannsókn Samkeppniseftirlitsins, gerir það ráð fyrir að samþjöppun á þeim mörkuðum sem afurðastöðvarnar starfa sé nú orðin umtalsverð og nánast um einokunarstöðu að ræða á Norðurlandi.

„Því er ljóst að töluverður skaði fyrir samkeppni á þessu sviði er þegar skeður og enn mikilvægara en ella að skýrar og framkvæmanlegar reglur gildi eftir því sem kostur er. Þá er samkvæmt núgildandi lögum opin heimild til frekari sameininga sem að mati Samkeppniseftirlitsins er afar brýnt að loka fyrir. Þessi staða er alvarleg og mögulega er nauðsynlegt fyrir stjórnvöld að grípa til sértækra aðgerða í framtíðinni til þess að bæta rekstrarumhverfi bænda og verja neytendur,“ segir í umsögninni.

Samkeppniseftirlitið telur nýja skilgreiningu á hugtakinu „framleiðendafélagi“ til bóta – og hvernig meta eigi hvaða fyrirtæki eigi þar undir. Skilgreining núgildandi laga sé mjög víðtæk og ekki í samræmi við nágrannalöndin.

„Hugmyndin með undanþágum fyrir framleiðendafélög er að gera bændum, sem eru frumframleiðendur landbúnaðarafurða, mögulegt að verja og styrkja samningsstöðu sína gagnvart viðsemjendum sínum, þ.m.t. afurðastöðvum. Samkeppniseftirlitið telur mikilvægt að skýrt sé að bændur fari með stjórnina í þeim fyrirtækjum sem hafa heimild til samstarfs. Með þessum breytingum er yfirráðahugtaki samkeppnislaga beitt til að meta hvaða framleiðendafélög teljast vera undir beinum yfirráðum starfandi bænda.“

Mjólkursamsalan áfram með markaðsráðandi stöðu

Loks telur Samkeppniseftirlitið ljóst að afnám undanþáguheimildarinnar sé til þess fallið að skapa aukið samkeppnislegt aðhald frá framleiðendum mjólkurafurða sem standa utan núverandi samstarfs.

„Er slíkt aðhald til hagsbóta fyrir fyrirtæki sem starfa á markaðnum, bændur og neytendur. Eftir sem áður verður Mjólkursamsalan og tengd fyrirtæki áfram með afar sterka stöðu á markaðnum og að líkindum með markaðsráðandi stöðu um fyrirsjáanlega framtíð. Á þeim grunni hvíla skyldur á fyrirtækinu um að mismuna ekki viðskiptavinum, afhenda öðrum framleiðendum mjólk o.fl. Skynsamlegt er við frekari undirbúning frumvarpsins að taka til athugunar hvort ástæða sé til að skýra hlutverk og skyldur stærstu afurðastöðva að þessu leyti.“

Skylt efni: Búvörulögin

Lausn á vísnagátu
Líf&Starf 24. nóvember 2025

Lausn á vísnagátu

Lausnin á vísnagátu Guðbjörns Sigurmundssonar í síðasta Bændablaði er orðið mál.

Skákmánuðurinn janúar
Líf&Starf 3. febrúar 2025

Skákmánuðurinn janúar

Janúarmánuður hefur lengi verið frekar stór skákmánuður á Íslandi. Í þeim mánuði...

Þörfnumst heilbrigðara sambands við tímann
Líf&Starf 13. desember 2024

Þörfnumst heilbrigðara sambands við tímann

Carl Honoré, sem gjarnan hefur verið kallaður rödd alþjóðlegu Hæglætishreyfingar...

Sækja áhrif til Suður-Evrópu
Líf&Starf 9. október 2024

Sækja áhrif til Suður-Evrópu

Í síðustu úthlutun Matvælasjóðs fengu bændur í Syðra-Holti í Svarfaðardal rúmleg...

Brautryðjandi í búskap með íslenska hesta í Noregi
Líf&Starf 14. ágúst 2024

Brautryðjandi í búskap með íslenska hesta í Noregi

Ingebjørg Helkås Vaa fæddist í Noregi 14. júlí 1933, yngst fimm systkina. Hún va...

Stjörnuspá vikunnar
Líf&Starf 2. júlí 2024

Stjörnuspá vikunnar

Vatnsberinn veit vart í hvorn fótinn hann á að stíga þessa dagana. Lífið virðist...

Heitt poppkorn er hollt sælgæti!
Líf&Starf 10. maí 2022

Heitt poppkorn er hollt sælgæti!

Svo hljóðaði auglýsing er birtist á síðu Morgunblaðsins í júlílok árið 1968 - en...

Lesning fyrir heilabilaða
Líf&Starf 4. maí 2022

Lesning fyrir heilabilaða

Þegar ég setti saman bókina Í húsi afa míns sem kom út fyrir tólf árum, hvarflað...