Hlýtur viðurkenningu sem Barnvænt samfélag
Það var skemmtilegur dagur á Akranesi nú nýlega þegar Akraneskaupstaður hlaut viðurkenningu, sem Barnvænt sveitarfélag UNICEF en sveitarfélagið er það fimmta á Íslandi til að hljóta viðurkenninguna. Haraldur Benediktsson, bæjarstjóri á Akranesi, er að vonum ánægður með viðurkenninguna.
„Viðurkenningin er fyrst og fremst afrakstur markvissrar og samþættrar vinnu sveitarfélagsins við að innleiða Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna í alla stjórnsýslu og starfsemi bæjarins. Ásamt innleiðingu nýrra laga um samþætta þjónustu í þágu farsældar barna. Akraneskaupstaður hefur lengi lagt ríka áherslu á þátttöku barna, inngildingu, fræðslu og jöfn tækifæri fyrir öll börn. Við höfum því haft góðan jarðveg til að byggja á og efla enn frekar,“ segir Haraldur og bætir við: „Við þökkum viðurkenninguna þeim börnum og ungmennum, sem hafa lagt sitt af mörkum í gegnum barnaþing, ungmennaráð og sérfræðihópa, sem og starfsfólki okkar, foreldrum og samstarfsaðilum sem hafa komið að innleiðingunni með eldmóði og fagmennsku. Árangurinn byggist á samvinnu og heildstæðu verklagi sem er í stöðugri þróun.“
Rödd barna skiptir miklu máli
Haraldur segir að viðurkenningin hafi mikla þýðingu, en hvernig þá?
„Hún staðfestir að við séum á réttri leið í að skapa samfélag þar sem rödd barna skiptir máli og réttindi þeirra eru virt í framkvæmd. Viðurkenningin styrkir okkur í þeirri trú að áframhaldandi vinna skili árangri og veitir innblástur til að festa breytingar í sessi til lengri tíma.
Viðurkenningin hefur einnig táknrænt gildi fyrir börnin sjálf því hún sýnir að þátttaka þeirra skiptir máli og getur leitt til raunverulegra breytinga í þeirra nærumhverfi,“ segir Haraldur.
Markviss vinna í gangi
Markviss áhersla er á börn og fjölskyldur þeirra í allri stefnumótun og þjónustu Akraneskaupstaðar enda hefur sveitarfélagið mótað heildstæða og réttindamiðaða nálgun sem tekur mið af fjölbreyttum þörfum barna og fjölskyldna þeirra. „Í gegnum verkefnið Barnvænt sveitarfélag höfum við m.a. innleitt aðgerðir sem snúa að þátttöku barna, auknu aðgengi að þjónustu, forvörnum og inngildingu.
Við leggjum ríka áherslu á að tryggja öllum börnum jöfn tækifæri til þátttöku í samfélaginu óháð uppruna, fötlunar eða félagslegra aðstæðna og að börn og foreldrar fái snemmtækan stuðning og aðstoð við hæfi,“ segir Haraldur.
Viðurkenningin gildir í þrjú ár
Með viðurkenningunni hefur Akraneskaupstaður lýst sig reiðubúinn til að starfa í anda Barnasáttmálans og halda áfram að efla réttindi og þátttöku barna. Viðurkenning sem Barnvænt sveitarfélag gildir í þrjú ár og kallar á áframhaldandi vinnu. „Hún markar ekki endapunkt, heldur áfangastað í ferli sem er stöðugt í þróun. Aðstæður barna breytast og því þarf reglulega að endurmeta stöðuna, setja ný markmið og móta nýja aðgerðaáætlun. Innleiðing Barnasáttmálans er ekki tímabundið verkefni heldur varanlegt umbótastarf og með því að endurnýja stöðumat og aðgerðir tryggjum við að samfélagið okkar verði sífellt barnvænna,“ segir Haraldur að endingu.
