Hjartað varð eftir
Út er komin ljóðabók eftir Ásu Þorsteinsdóttur frá Unaósi.
Ljóðabókin ber heitið Hjartað varð eftir og hefur að geyma rúm fjörutíu ljóð. Þau eru mörg náttúrutengd og fjalla m.a. um hversdaginn, ást, trega og hvar ung manneskja staðsetur sig í tilverunni.
Ása Þorsteinsdóttir er fædd árið 1999. Hún ólst upp á Unaósi í Hjaltastaðarþinghá og tengdist náttúrunni þar sterkum böndum. Ása ákvað ung að hún ætlaði að verða skáld og hefur verið að yrkja ljóð frá sex ára aldri. Árið 2022 stofnaði Ása ásamt fjórum vinkonum ljóðakollektívuna Yrkjur sem staðið hafa fyrir upplestrarkvöldum og ristlistarvinnustofum í Reykjavík. Ása stundar nú kennaranám við Háskóla Íslands og hyggst verða íslenskukennari. Hjartað varð eftir er fyrsta ljóðabók Ásu en áður hafa birst ljóð eftir hana í Bók sem allir myndu lesa (2016) og Farvötn (2024).
Hjartað varð eftir er gefin út af Félagi ljóðaunnenda á Austurlandi, með styrk frá Uppbyggingarsjóði Austurlands. Bókin er 53 síður og prentuð í Leturprenti.
