Grillað lambahjarta á paprikumauki
Grillað lambahjarta á paprikumauki
Líf og starf 18. nóvember 2025

Hjartað í eldhúsinu

Höfundur: Hafliði Halldórsson

Hvert leitum við þegar við viljum hollan, góðan og um leið ódýran mat? Þá er ekki algalið að horfa til fortíðar og þess að nýta allt af skepnunni til matar, t.d. lambainnmat í stað þess að kaupa einungis dýrustu bitana. Hér koma lambahjörtun sterk inn, sem ásamt lambalifur eru í miklu uppáhaldi á mínu heimili. Bara út frá næringargildinu er hér eftir miklu að slægjast og ef þessir bitar eru rétt meðhöndlaðir eru þeir meyrir, afskaplega bragðgóðir, næringarríkir og um leið ódýrustu dýraafurðir sem eru í boði.

Það eru ótrúlega margir sem snerta helst ekki á innmat og hafa ekki tamið sér að nota þessi stórfínu hráefni. Fyrir því eru ýmsar ástæður sem má taka saman í kringum tveggja stafa orðið: Of

Of oft
Of mikið
Of eldaðaður innmatur - verklagið í eldhúsinu hjá mömmu og ömmu á hinni öldinni með suðu í klukkutíma eða meira.

Lambahjörtu eru hins vegar að mínu mati langbest snöggsteikt eða grilluð eftir að þau eru snyrt mjög vandlega. Við byrjum á því að skera frá um það bil 30% af hjartanu, þ.e. efsta hlutann sem inniheldur seigari hluta hjartans og talsverða fitu. Takið hér alveg 1–2 cm af hjartanu og skerið síðan í tvennt „fletjið út“ og snyrtið innri hlutann með því að sneiða fína þræði á yfirborðinu af. Þið ættuð nú að hafa slétta bita sem þið getið skorið áfram niður eða einfaldlega grillað og steikt eins og þeir eru.

Fyrir þá sem hugsa um kostnaðinn: miðað við 500 kr/kg innkaupsverð og 30% afskurð er verðið af því sem er notað undir 700 kr/kg. Finnum við annað kjöt eða fisk á þessu verði og er ekki áhugavert að bæta þessu gæða hráefni á innkaupalistann?

Hér koma svo tvær uppskriftir sem sýna hvað lambahjörtu geta verið fjölhæf og skemmtileg – annars vegar fágaður forréttur og hins vegar fljótlegur og bragðmikill núðluréttur.

Uppskriftirnar eru tvær og sýna hvað notagildið er fjölbreytt, annars vegar nettur og stílhreinn forréttur og hins vega fljótlegur og bragðmikill núðluréttur. 

GRILLAÐ LAMBAHJARTA Á PAPRIKUMAUKI

2 lambahjörtu
2 íslenskar rauðar paprikur
Matarolía
Eplaedik
Salt
Jómfrúarólífuolía
Ristaðar cashew-hnetur

Þessi réttur er tilvalinn sem forréttur og auðvelt að gera paprikumaukið með fyrirvara og eiga tilbúið í kæli. Stillið ofninn á grillstillingu og hæsta hita, penslið heilar paprikur með olíu og saltið. Setjið á eldfastan bakka ofarlega í ofninn og „grillið“ þar til yfirborðið brúnast vel og snúið á nokkurra mínútna fresti. Takið úr ofninum og fjarlægið kjarnann og fræ, setjið í blandara með ögn af ediki og maukið vandlega, bætið við olíu ef þarf til að blandarinn nái að mauka. Smakkið til með ediki og salti. Skerið frá efsta hlutann af hjörtunum með seigari hluta hjartans og fitu. Skerið síðan í tvennt „fletjið út“ og snyrtið innri hlutann með því að sneiða fína þræði á yfirborðinu af. Saltið ríkulega og grillið eða steikið á háum hita í um 30 sekúndur á hvorri hlið eða þar til hjörtun eru „medium“ elduð. Hvílið í nokkrar mínútur og sneiðið í fína strimla. Setjið paprikumauk á diska og leggið hjörtun ofan á, setjið ögn af góðri ólífuolíu á maukið og stráið hnetum yfir.

LAMBAHJÖRTU MEÐ NÚÐLUM OG SOJA

3 lambahjörtu
1 laukur
2 hvítlauksrif
5 sveppir
Handfylli blómkál
1 vorlaukur
1 eldpipar
Núðlur
2 msk. sesamfræ
Matarolía
Sojasósa

Hlutföll og magn má leika sér með hér og auðvitað bragðið enda eru svona réttir oft bestir með því einfaldlega að nýta það sem finnst í tiltekt í kælinum, kannski eigið þið einhverjar aðrar asískar sósur eða t.d. sesamolíu. Endilega leikið ykkur með matinn og látið hugmyndaflugið ráða.

Skerið frá efsta hlutann af hjörtunum með seigari hluta hjartans og fitu. Skerið síðan í tvennt „fletjið út“ og snyrtið innri hlutann með því að sneiða fína þræði á yfirborðinu af. Skerið lambahjörtun í um 1 cm strimla. Sjóðið núðlur eftir leiðbeiningum í potti og sigtið. Skerið því næst lauk, sveppi og blómkál og svitið í potti, bætið hjörtum, sneiddum hvítlauk, eldpipar og vorlauk við og steikið áfram í 1–2 mínútur. Bætið núðlum og sjóðandi heitu vatni við og smakkið til með sojasósu og svörtum pipar.

Lausn á vísnagátu
Líf&Starf 24. nóvember 2025

Lausn á vísnagátu

Lausnin á vísnagátu Guðbjörns Sigurmundssonar í síðasta Bændablaði er orðið mál.

Skákmánuðurinn janúar
Líf&Starf 3. febrúar 2025

Skákmánuðurinn janúar

Janúarmánuður hefur lengi verið frekar stór skákmánuður á Íslandi. Í þeim mánuði...

Þörfnumst heilbrigðara sambands við tímann
Líf&Starf 13. desember 2024

Þörfnumst heilbrigðara sambands við tímann

Carl Honoré, sem gjarnan hefur verið kallaður rödd alþjóðlegu Hæglætishreyfingar...

Sækja áhrif til Suður-Evrópu
Líf&Starf 9. október 2024

Sækja áhrif til Suður-Evrópu

Í síðustu úthlutun Matvælasjóðs fengu bændur í Syðra-Holti í Svarfaðardal rúmleg...

Brautryðjandi í búskap með íslenska hesta í Noregi
Líf&Starf 14. ágúst 2024

Brautryðjandi í búskap með íslenska hesta í Noregi

Ingebjørg Helkås Vaa fæddist í Noregi 14. júlí 1933, yngst fimm systkina. Hún va...

Stjörnuspá vikunnar
Líf&Starf 2. júlí 2024

Stjörnuspá vikunnar

Vatnsberinn veit vart í hvorn fótinn hann á að stíga þessa dagana. Lífið virðist...

Heitt poppkorn er hollt sælgæti!
Líf&Starf 10. maí 2022

Heitt poppkorn er hollt sælgæti!

Svo hljóðaði auglýsing er birtist á síðu Morgunblaðsins í júlílok árið 1968 - en...

Lesning fyrir heilabilaða
Líf&Starf 4. maí 2022

Lesning fyrir heilabilaða

Þegar ég setti saman bókina Í húsi afa míns sem kom út fyrir tólf árum, hvarflað...