Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 4 ára.
Gólf sem eru fræst eru öruggari fyrir kýr að ganga um á.
Gólf sem eru fræst eru öruggari fyrir kýr að ganga um á.
Á faglegum nótum 24. ágúst 2021

Heltismat kúa

Höfundur: Snorri Sigurðsson - snsig@arlafoods.com

Helti hjá mjólkurkúm er eitt alvarlegasta velferðarvandamál á kúabúum víða um heim en helti getur stafað af ýmsum ástæðum svo sem vegna sjúkdóma, slysa eða ófullnægjandi aðbúnaðar svo dæmi séu tekin.

Skýringin á því að helti sé metið sem eitt alvarlegasta velferðarvandamál á kúabúum felst í því að heltinu fylgja gríðarleg óþægindi og vanlíðan hjá kúm og því ber alltaf að bregðast við um leið og vart verður við helti. Þess utan er þekkt samhengi á milli helti og afurðasemi svo það er á hverjum tíma einnig hagkvæmt fyrir kúabændur að bregðast hratt við helti, þó svo að megin ástæðan sé þó fyrst og fremst vegna dýravelferðarsjónarmiða. Erlendis er helti að líkindum mun algengari en hér á landi m.a. vegna þess að íslenska nautgripastofninum hefur verið haldið hreinum og að mestu smitsjúkdómalausum í áratugi. 

Heltismat er í raun einfalt í framkvæmd, en krefst ákveðinnar reynslu.

Mat á helti

Til þess að fylgjast með þessum þætti í búskapnum er ráðlagt að nota svokallað heltismat, sem er tiltölulega einfalt í notkun og framkvæmd. Heltismatið, sjá meðfylgjandi töflu, er hægt að gera bæði á kyrrstæðum kúm eða kúm á hreyfingu. Við matið er lögð sérstök áhersla á að meta bakstöðu kúnna 

Tíðni helti

Rétt er að geta þess að alltaf má búast við því að einstaka kýr sé hölt, rétt eins og einstaka kýr sé með júgurbólgu. Hins vegar ef fleiri en 2-3% af kúnum sýna merki um helti þá þarf að kanna hvað veldur. Ef hlutfallið er komið upp undir eða hærra en 10% þá er það með öllu óásættanlegt.

Uppruni

Langoftast má finna skýringar á helti hjá kúm í klaufum þeirra en reynslan á Íslandi hefur sýnt að ef frá eru talin vandamál vegna ofvaxtar á klaufum, þá eru í raun önnur vandamál frekar fátíð. Þetta skýrist m.a. af því að kýrnar eru frekar léttar og álagið á klaufirnar því hóflegt. Þá skiptir fóðrun einnig máli og gripir í sterku eldi eru oft viðkvæmir í klaufum. Ennfremur má geta þess að hér á landi finnst ekki hinn algengi erlendi sjúkdómur DD (Digital Dermatitis). DD er sjúkdómur sem herjar sérstaklega á klaufir og orsakast í stuttu máli af bakteríum sem valda húðbólgum ofan við klaufir. Með öðrum orðum er því alltaf ráðlegt, ef haltur gripur finnst, að byrja á því að skoða klaufir og ef sýnilegar skýringar er ekki að finna þar, færa sig upp fótinn í leit að vandamálinu.

Greinileg merki um að kú hafi skrikað fótur.

Undirlagið

Helti getur vissulega komið til vegna slyss eða höggs og rétt að minna á í því sambandi að það er ástæða fyrir orðatiltækinu „þú ert eins og belja á hálu svelli“. Kýr eru nú ekki beint liprar frá náttúrunnar hendi og því þarf umhverfi þeirra, sér í lagi gólf og gönguleiðir, að vera þannig hannað að ekki sé veruleg hætta á slysum, þeim skriki fótur (sjá mynd) eða að kýrnar hreinlega detti. Til eru ótal dæmi um alltof hál gólf hjá kúm og eðli málsins samkvæmt slitna gólf við notkun og því getur vel þurft að taka gólf, sem áður var stamt og gott til göngu, til lagfæringar eftir einhver ár. Nú orðið er kúabændum alltaf ráðlagt að gera ráðstafanir til að mýkja gólfin eða gera þau stöm með einhverjum hætti. Þetta má t.d. gera með gúmmílegnu gólfi eða með því að fræsa raufir í steinsteypt gólfin til að gera þau stamari (sjá mynd). Vatn og hland leitar þá niður í raufarnar og yfirborð gólfsins verður þá síður hált. Auk þess fá kýrnar betri viðspyrnu þegar gólfin hafa verið fræst og ganga því um af meira öryggi.

Meðferð

Afar misjafnt er eftir ástæðum helti hvernig eigi að bregðast við, en ef ljóst er að skýringuna megi finna í vandamálum tengdum klaufum er alltaf ráðlegt að hafa samband við sérfræðing í klaufskurði eða næsta dýralækni. Raunar ætti alltaf að hafa dýralækni með í ráðum þegar vandamál með helti er annars vegar enda gæti þurft að gefa kúnum verkjastillandi og margir dýralæknar eru einnig með góða þekkingu á fótameinum. Þá er mikilvægt að minna á að með hækkandi nyt þarf að snyrta klaufir oftar en áður. Þannig er það t.d. erlendis að klaufir kúa, sem mjólka að jafnaði um og yfir 50 kg/dag eru oftast snyrtar 3-4 sinnum á ári. Skýringin felst einfaldlega í því að þessar kýr innbyrða mikið magn fóðurs og klaufvöxtur þeirra er heldur örari en þeirra sem éta minna. Bændur á Íslandi ættu því að búa sig undir það að auka tíðni á klaufsnyrtingu samhliða hækkandi meðalafurðum.

 

Ítarefni:

„Atferli og velferð“ eftir Sigtrygg Veigar Herbertsson og Snorra Sigurðsson og „Klaufir“ eftir Axel Kárason í bókinni Nautgriparækt, sem m.a. hægt er að nálgast á vef LK: www.naut.is

Skylt efni: heltismat kúa

Lausn á vísnagátu
Líf&Starf 24. nóvember 2025

Lausn á vísnagátu

Lausnin á vísnagátu Guðbjörns Sigurmundssonar í síðasta Bændablaði er orðið mál.

Skákmánuðurinn janúar
Líf&Starf 3. febrúar 2025

Skákmánuðurinn janúar

Janúarmánuður hefur lengi verið frekar stór skákmánuður á Íslandi. Í þeim mánuði...

Þörfnumst heilbrigðara sambands við tímann
Líf&Starf 13. desember 2024

Þörfnumst heilbrigðara sambands við tímann

Carl Honoré, sem gjarnan hefur verið kallaður rödd alþjóðlegu Hæglætishreyfingar...

Sækja áhrif til Suður-Evrópu
Líf&Starf 9. október 2024

Sækja áhrif til Suður-Evrópu

Í síðustu úthlutun Matvælasjóðs fengu bændur í Syðra-Holti í Svarfaðardal rúmleg...

Brautryðjandi í búskap með íslenska hesta í Noregi
Líf&Starf 14. ágúst 2024

Brautryðjandi í búskap með íslenska hesta í Noregi

Ingebjørg Helkås Vaa fæddist í Noregi 14. júlí 1933, yngst fimm systkina. Hún va...

Stjörnuspá vikunnar
Líf&Starf 2. júlí 2024

Stjörnuspá vikunnar

Vatnsberinn veit vart í hvorn fótinn hann á að stíga þessa dagana. Lífið virðist...

Heitt poppkorn er hollt sælgæti!
Líf&Starf 10. maí 2022

Heitt poppkorn er hollt sælgæti!

Svo hljóðaði auglýsing er birtist á síðu Morgunblaðsins í júlílok árið 1968 - en...

Lesning fyrir heilabilaða
Líf&Starf 4. maí 2022

Lesning fyrir heilabilaða

Þegar ég setti saman bókina Í húsi afa míns sem kom út fyrir tólf árum, hvarflað...

https://bestun.airserve.net/banner_bundles/de3e87e0d8dde67f98882b3ac12f8b2f