Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en mánaðar gamalt.
Álfhildur frá Syðri-Gegnishólum, knapi er Olil Amble ræktandi og eigandi Álfhildar
Álfhildur frá Syðri-Gegnishólum, knapi er Olil Amble ræktandi og eigandi Álfhildar
Á faglegum nótum 4. nóvember 2025

Heiðursverðlaunahryssur á Íslandi 2025

Höfundur: Þorvaldur Kristjánsson, ráðunautur í hrossarækt hjá RML.

Alþjóðlega kynbótamatið fyrir íslenska hestinn var reiknað í september að loknum kynbótasýningum og birt í WorldFeng. Því er orðið ljóst að tólf hryssur á Íslandi hljóta heiðursverðlaun fyrir afkvæmi í ár en til að hljóta verðlaunin þarf hryssan að eiga að lágmarki fimm dæmd afkvæmi og vera með 116 stig í aðaleinkunn, eða aðaleinkunn án skeiðs í kynbótamatinu. Nokkrar af hryssunum eru jafnar að stigum og eru það því aukastafir sem raða þeim í sæti.

Efsta hryssan í ár er Álfhildur frá Syðri-Gegnishólum undan Orra frá Þúfu í Landeyjum og Álfadísi frá Selfossi en þau eru bæði með heiðursverðlaun fyrir afkvæmi. Álfadís er búinn að skrifa sig í sögubækurnar fyrir nokkru síðan og er Álfhildur sjöunda afkvæmi hennar sem hlýtur afkvæmaverðlaun. Álfhildur er með 128 stig í aðaleinkunn kynbótamatsins og hlýtur því Glettubikarinn í ár. Bikarinn er veittur þeirri hryssu sem stendur efst til heiðursverðlauna ár hvert. Ræktandi og eigandi Álfhildar er Olil Amble. Álfhildur var afar eftirminnileg sjálf; hlaut meðal annars 9,0 fyrir tölt og 9,5 fyrir fegurð í reið einungis fjögurra vetra gömul. Sex vetra gömul hlaut hún svo 10 fyrir tölt og vilja og geðslag sem er magnað afrek. Hæst dæmda afkvæmi Álfhildar er Arnhildur undan Spaða frá Stuðlum. Hún var sýnd fimm vetra gömul með 8,5 fyrir tölt, 9,0 fyrir brokk, samstarfsvilja og fegurð í reið. Þá eru þau Eldjárn undan Hrannari frá Flugumýri II og Hrafnhildur undan Frama frá Ketilsstöðum glæst klárhross og Áshildur undan Trymbli frá StóraÁsi jafnvíg og hágeng alhliða hryssa.

Önnur er Brigða frá Brautarholti með 122 stig og fimm dæmd afkvæmi. Brigða er brún að lit undan Vilmundi frá Feti og Ambátt frá Kanastöðum, sem var undan Hrannari frá Kýrholti og Öskju frá Miðsitju. Ræktandi hennar er Snorri Kristjánsson en eigandi er Silke Veith. Brigða er afrekshryssa á gangi með 9,5 fyrir brokk og 10 fyrir skeið. Hæst dæmda afkvæmi hennar er Silkisif frá Hestkletti með rúmlega 8,51 fyrir hæfileika, þar af 9,0 fyrir tölt og fegurð í reið. Þá er Hátíð frá Ísalæk dóttir Brigðu og Glúms frá Dallandi mikil mýktar hryssa með 8,5 fyrir flesta þætti hæfileika.

Þriðja í röðinni er Telma frá Steinnesi með 120 stig og fimm Heiðursverðlaunahryssur á Íslandi 2025 dæmd afkvæmi. Telma er rauðblesótt, undan Kiljan frá Steinnesi og Sunnu frá Steinnesi dóttur Gamms frá sama bæ. Ræktandi Telmu er Magnús Jósefsson og eigandi er Helga Una Björnsdóttir. Telma er fínleg hryssa með sterka yfirlínu og afar skemmtileg á gangi; mjúk og léttstíg með 9,0 fyrir tölt og vilja og geðslag. Hæst dæmda afkvæmi hennar er Augasteinn frá Fákshólum en það er fallegur klárhestur, hágengur og skrefmikill með 9,0 fyrir tölt, brokk og fegurð í reið. Hamingja frá Fákshólum er undan Telmu og Ský frá Skálakoti. Hún er stólpagripur með 9,5 fyrir samræmi og 9,0 fyrir fegurð í reið.

Fjórða hryssan er Aþena frá Akureyri með 120 stig og fimm dæmd afkvæmi. Aþena er jörp, undan Þóroddi frá Þóroddsstöðum og Smáradótturinni Hrönn frá Búlandi. Ræktendur og eigendur hennar eru þau Björgvin Daði Sverrisson og Helena Ketilsdóttir. Aþena er fríð og framfalleg hryssa, jafnvíg á gangi, mýktar hross. Hæst dæmda afkvæmi hennar er stórgæðingurinn Fenrir frá Finnastöðum, undan Þráni frá Flagbjarnarholti. Hann hlaut í vor 9.04 fyrir hæfileika sem er jafnframt hæsta hæfileikaeinkunn ársins. Þá er Fjöður frá Finnastöðum undan Stekk frá Skák með 8,72 fyrir hæfileika; þar af 9,0 fyrir tölt og 8,5 fyrir skeið og 9,5 fyrir samstarfsvilja.

Fimmta er Þyrnirós frá Þjóðólfshaga með 119 stig og fimm dæmd afkvæmi. Þyrnirós er rauð að lit undan Huga frá Hafsteinsstöðum og Pyttlu frá Flekkudal, dóttur Adams frá Meðalfelli og mögnuð heiðursverðlaunahryssa og ættmóðir. Ræktandi Þyrnirósar er Sigurður Sigurðarson og eigandi er Svarthöfði-Hrossarækt ehf. Þyrnirós er sjálf reist, myndarleg og prúð hryssa; klárhryssa með 9,0 fyrir flesta eiginleika í hæfileikunum. Hennar hæst dæmda afkvæmi er Mjallhvít frá Sumarliðabæ 2 undan Stála frá Kjarri. Mjallhvít er afrekshross á gangi með 8,5 fyrir tölt og brokk og 10 fyrir skeið. Þá er Leia frá Sumarliðabæ 2 undan Ómi frá Kvistum sómagóð alhliða hryssa með 8,34 í aðaleinkunn.

Sjötta í röðinni er Gnýpa frá Leirulæk með 119 stig og fimm dæmd afkvæmi. Gnýpa er brúnskjótt, undan Stikli frá Skrúð og Össu frá Engimýri. Ræktendur og eigendur hennar eru Guðrún Sigurðardóttir og Sigurbjörn Jóhann Garðarsson. Gnýpa er stórmyndarleg alhliða hryssa og hlaut sjálf 8,40 í aðaleinkunn í kynbótadómi. Hæst dæmda afkvæmi Gnýpu er Hildur frá Fákshólum sem stóð efst á síðasta Landsmóti. Hildur hefur hlotið hæst 8,91 í aðaleinkunn, 9,0 fyrir tölt og brokk og 10 fyrir skeið. Það er einmitt mögnuð skeiðgeta sem stendur uppúr í erfðum Gnýpu en dóttir hennar Væta frá Leirulæk hlaut einnig 10 fyrir skeið og Skriða frá Leirulæk hlaut 9,5 fyrir skeið á Fjórðungsmóti Vesturlands í sumar einungis fimm vetra gömul.

Í sjöunda sæti er Sif frá Akurgerði II með 118 stig og fimm dæmd afkvæmi. Sif er bleikstjörnótt, undan Ómi frá Kvistum og Rönd frá Akurgerði en hún var undan Kolfinni frá Kvíarhóli. Ræktandi er Guðmundur Ingvarsson og hann er eigandi hryssunnar ásamt Fanneyju Guðrúnu Valsdóttur. Sif stóð efst í fimm vetra flokki hryssna á Landsmóti 2014 með 8,81 fyrir hæfileika; léttstíg, hágeng og flugviljug. Hennar hæst dæmda afkvæmi er Valkyrja frá Vindási, undan Blysfara frá Fremra-Hálsi. Valkyrja er jafnvíg og viljug alhliða hryssa. Þá á Sif alsystkini undan Jökli frá Rauðalæk, þau Ás og Gná frá Akurgerði II; glæst klárhross bæði með 9,0 fyrir tölt og samstarfsvilja.

Áttunda er Vissa frá Lambanesi með 116 stig og fimm dæmd afkvæmi. Vissa er jörp að lit undan Glym frá Innri-Skeljabrekku og heiðursverðlauna hryssunni Eldingu frá Lambanesi. Ræktandi hennar er Agnar Þór Magnússon og eigendur eru Sporthestar ehf. og Sveinn Ragnarsson. Vissa var í þriðja sæti á Landsmóti 2011 í flokki fjögurra vetra hryssna; afar flink á gangi og náttúrubarn á skeiði, með 9,5 fyrir þann eiginleika. Skeiðgetan hefur skilað sér ásamt ganghæfninni en tvö afkvæma hennar eru með 8,5 fyrir skeið. Þá er Kastor sonur hennar og Kiljans frá Steinnesi með 10 fyrir skeið og heimsmethafi í 250 metra skeiði frá því í vor. Nýlega var sýndur fjögurra vetra sonur hennar, Sprækur frá Garðshorni á Þelamörk sem er stórfallegt gæðingsefni.

Níunda í röðinni er Viska frá Skipaskaga með 116 stig og fimm dæmd afkvæmi. Viska er jörp, undan Aðli frá Nýjabæ og Von frá LitluSandvík, en hún hefur reynst afar vel til kynbóta og var undan Kyndli frá Litlu-Sandvík. Ræktandi Visku er Jón Árnason og eigandi er Skipaskagi ehf. Viska er stórmyndarleg og falleg hryssa. Hennar hæst dæmda afkvæmi er Hrókur frá Skipaskaga sem stóð efstur í fimm vetra flokki stóðhesta á síðasta Landsmóti með hvorki meira né minna en 8,86 í aðaleinkunn og 9,05 fyrir hæfileika. Hrókur er fótahár og skrefmikill mýktargæðingur undan Eldjárni frá Skipaskaga. Dóttir Visku, Snekkja frá Skipaskaga undan Skaganum frá Skipaskaga, er skrefmikil og myndarleg alhliða hryssa með 8,5 fyrir brokk og 9,0 fyrir skeið.

Í tíunda sæti er Kolka frá Hákoti með 116 stig og fimm dæmd afkvæmi. Ræktendur hennar eru Markús Ársælsson og Halldóra Hafsteinsdóttir og eigendur eru Hrefna María Ómarsdóttir og Rósa Valdimarsdóttir. Kolka er dökkbrún, undan Íkon frá Hákoti og Þorradótturinni Frá frá Hákoti. Kolka var afar eftirminnileg fyrir fegurð og magnaða framgöngu þegar hún stóð efst í elsta flokki hryssna á Landsmóti 2014 á Hellu. Kolka var einnig efst í fimm vetra flokki á Landsmóti 2011 á Vindheimamelum. Þá var hún í öðru sæti á Landsmóti 2012 í sex vetra flokki. Þessi árangur er auðvitað einsdæmi. Hæst dæmda afkvæmi Kolku er Hátindur frá Álfhólum, undan Ský frá Skálakoti; jafnvígur og hreingengur alhliða hestur. Þá er Hákon frá Álfhólum stólpamyndarlegur hestur með 8,64 fyrir byggingu og í vor var sýnd undan Kolku flugefnileg fjögurra vetra hryssa undan Sólfaxa frá Herríðarhóli, Hátign frá Álfhólum sem fór í fyrstu verðlaun.

Ellefta er Nótt frá Varmalæk með 116 stig og fimm dæmd afkvæmi. Nótt er dökkbrún að lit undan Smára frá Skagaströnd og Tilveru frá Varmalæk, Keilisdóttur. Ræktandi er Björn Sveinsson sem er einnig eigandi Nætur ásamt Magneu K. Guðmundsdóttur. Nótt var sýnd á héraðssýningu á Vindheimamelum árið 2012 og er afar eftirminnileg, eðlishágeng og glæst klárhryssa. Hæst dæmda afkvæmi hennar er Náttfari frá Varmalæk, undan Þráni frá Flagbjarnarholti. Það er magnaður töltari með 9,5 fyrir tölt og 9,0 fyrir samstarfsvilja og fegurð í reið. Þá var sýndur afar efnilegur foli í ár undan henni og Álfakletti frá Syðri-Gegnishólum, Óðinn frá Varmalæk, með 9,0 fyrir tölt; reistur, léttstígur og hágengur.

Í tólfta sæti er Lukka frá Kálfsstöðum með 110 stig í aðaleinkunn kynbótamatsins en hún er með 118 stig í aðaleinkunn án skeiðs, og fimm dæmd afkvæmi. Lukka er rauðnösótt, undan Rökkva frá Hárlaugsstöðum og Rausn frá Kýrholti en sú var undan Þin frá Hólum og hefur skilað mörgum gæðingshrossum. Ræktandi er Ólafur Sigurgeirsson og eigandi eru Kálfsstaðir. Lukka var skrefmikil og öflug klárhryssa sjálf með 9,5 fyrir tölt og 9,0 fyrir brokk, stökk, vilja og geðslag og fegurð í reið. Hennar hæst dæmda afkvæmi er Saga frá Kálfsstöðum undan Hrannari frá Flugumýri II en það er afar jafnvíg og góð alhliða hryssa með 8,55 fyrir hæfileika. Þá er Dreyri frá Kálfsstöðum léttbyggður og flinkur klárhestur undan Trymbli frá StóraÁsi en hann hlaut 9,0 fyrir samræmi og brokk.

Þetta er afar góður hópur hryssna sem hljóta heiðursverðlaun í ár og taka eigendur þeirra við viðurkenningum fyrir sínar heiðurshryssur á árlegri hrossaræktarráðstefnu fagráðs í hrossarækt sem haldin verður 8. nóvember næstkomandi. 

Lausn á vísnagátu
Líf&Starf 24. nóvember 2025

Lausn á vísnagátu

Lausnin á vísnagátu Guðbjörns Sigurmundssonar í síðasta Bændablaði er orðið mál.

Skákmánuðurinn janúar
Líf&Starf 3. febrúar 2025

Skákmánuðurinn janúar

Janúarmánuður hefur lengi verið frekar stór skákmánuður á Íslandi. Í þeim mánuði...

Þörfnumst heilbrigðara sambands við tímann
Líf&Starf 13. desember 2024

Þörfnumst heilbrigðara sambands við tímann

Carl Honoré, sem gjarnan hefur verið kallaður rödd alþjóðlegu Hæglætishreyfingar...

Sækja áhrif til Suður-Evrópu
Líf&Starf 9. október 2024

Sækja áhrif til Suður-Evrópu

Í síðustu úthlutun Matvælasjóðs fengu bændur í Syðra-Holti í Svarfaðardal rúmleg...

Brautryðjandi í búskap með íslenska hesta í Noregi
Líf&Starf 14. ágúst 2024

Brautryðjandi í búskap með íslenska hesta í Noregi

Ingebjørg Helkås Vaa fæddist í Noregi 14. júlí 1933, yngst fimm systkina. Hún va...

Stjörnuspá vikunnar
Líf&Starf 2. júlí 2024

Stjörnuspá vikunnar

Vatnsberinn veit vart í hvorn fótinn hann á að stíga þessa dagana. Lífið virðist...

Heitt poppkorn er hollt sælgæti!
Líf&Starf 10. maí 2022

Heitt poppkorn er hollt sælgæti!

Svo hljóðaði auglýsing er birtist á síðu Morgunblaðsins í júlílok árið 1968 - en...

Lesning fyrir heilabilaða
Líf&Starf 4. maí 2022

Lesning fyrir heilabilaða

Þegar ég setti saman bókina Í húsi afa míns sem kom út fyrir tólf árum, hvarflað...