Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 3 mánaða.
Hefur matvælaverð á Íslandi hækkað meira en í öðrum löndum almennt?
Fréttir 3. september 2025

Hefur matvælaverð á Íslandi hækkað meira en í öðrum löndum almennt?

Höfundur: Harpa Ólafsdóttir

Talsvert hefur verið fjallað um hátt verð á matvælum hér innanlands og þá hefur eðlilega skapast umræða um samanburð á verði matvæla í öðrum löndum. En skyldu verðhækkanir á matvælum hafa verið meiri á Íslandi undanfarið en í öðrum löndum almennt?

Lega landsins og veðurfar á stóran þátt í að Ísland trónir í efstu sætum þegar kemur að vafasömum vinningi um hæstu matvælaverðin. En það getur verið fróðlegt að rýna í verðbreytingar á matvælum sem eru að stórum hluta framleidd hér innanlands eins og kjöti í samanburði við verðbreytingar á kjöti í öðrum löndum.

Þannig má bera saman verðþróun á kjöti innanlands samkvæmt gögnum Hagstofunnar við heimsmarkaðsverð á kjöti sem gefið er út af Alþjóðagjaldeyrissjóðnum.

Ef skoðað er tímabilið frá janúar 2017 til júní 2025 má sjá að verð á lambakjöti hefur hækkað um 89% hér innanlands á meðan heimsmarkaðsverð á lambakjöti hefur hækkað um 74%. Mun meiri sveiflur eru á heimsmarkaðsverði en á verði innanlands sem þýðir að samanburður á verðhækkunum er mjög mismunandi eftir því hvaða tímabil er skoðað.

Verð á nautakjöti hækkaði um 78% innanlands tímabilið frá janúar 2016 til júlí 2025 í samanburði við hækkun á heimsmarkaðsverði sem nam 69%.

Ef við skoðum þróun á heimsmarkaðsverði fyrir svína- og fuglakjöt, þá má einnig sjá mun meiri sveiflur á verði þar en innanlands.

Á tímabilinu janúar 2017 til júní 2025 hækkaði verð á svínakjöti innanlands um 55% en verð á heimsmarkaði um 64%.

Þá hækkaði verð á fuglakjöti innanlands tímabilið janúar 2017 til júní 2025 um 49% á meðan heimsmarkaðsverð hækkaði um 55%.

Það verður því ekki séð á þessari yfirferð að verð á kjöti innanlands sé almennt að hækka meira en heimsmarkaðsverð á kjöti. Við verðsamanburð milli landa skiptir máli hvaða tímabil eru skoðuð. Þá er ljóst að verðhækkanir eru mismunandi eftir kjöttegundum. Þannig hækkaði verð á nauta- og lambakjöti talsvert meira en verð á fugla- og svínakjöti tímabilið frá janúar 2017 til júní 2025. En það gilti bæði um verðbreytingar innanlands sem og breytingar á heimsmarkaðsverði. Verð á lamba- og nautakjöti hækkaði meira innanlands tímabilið frá janúar 2017 til júní 2025 en heimsmarkaðsverð sömu kjöttegunda. Hins vegar hækkaði svína- og fuglakjöt minna innanlands á sama tímabili en heimsmarkaðsverð á svína- og fuglakjöti.

Verð á áburði og fóðri hefur hækkað meira en verð á kjöti.

Þar sem kjötframleiðsla innanlands er meðal annars mjög háð innfluttum áburði og fóðri er áhugavert að rýna hvernig verð hefur þróast á þessum þáttum.

Samkvæmt gögnum Hagstofunnar er meðalverð á áburði fyrir fyrstu sex mánuði ársins 2025 um 80 krónur á kílóið en meðalverðið var 41 króna fyrir hvert kíló árið 2017 sem samsvarar 95% hækkun fyrir tímabilið 2017 til 2025 og er því talsvert umfram þær hækkanir sem hafa verið á kjöti innanlands á sama tímabili.

Ef við skoðum innflutning á fóðri fyrir árið 2024 þá voru flutt inn tæplega 180 þús. tonn af hráefnum til fóðurframleiðslu fyrir um 28 milljarða króna. Stærstu vöruflokkarnir eru hveiti, maís og soja (kaka), auk tilbúins fóðurs. Þannig var flutt inn ríflega 34 þús. tonn af hveiti árið 2024, 21 þús. tonn af maís og tæplega 14 þús. tonn af soja (köku). Þá var flutt inn um 93 þús. tonn af tilbúnu fóðri, þar af rétt innan við 75 þús. tonn af fiskafóðri og tæplega 18 þús. tonn af öðru fóðri.

Þegar rýnt er í þróun verðlags á helstu vöruflokkum fóðurs til landbúnaðar fyrir tímabilið janúar 2017 til júní 2025 má sjá að verðbreytingar á harðhveiti, maís og byggi hafa þróast svipað. Í kjölfar mikilla verðhækkana frá 2020 vegna heimsfaraldursins sem og Úkraínustríðsins gengu verðhækkanir til baka frá 2022 til 2024 en frá upphafi þessa árs má greina verðhækkanir að nýju. Fyrir tímabilið frá janúar 2017 til júní 2025 hefur verð á harðhveiti hækkað um 87%, byggi um 74% og maís um 76%.

Verð á soja hækkaði hins vegar nánast samfellt frá 2017 til 2023 þar sem meðaltalskílóverð fyrir árið 2017 fór úr tæpum 46 kr. í 86 kr. 2023 sem samsvarar 88% hækkun. Frá árinu 2023 hefur verð á soja lækkað og var kílóverð fyrir tímabilið janúar til júní 2025 62 kr.

Tilbúið fóður svo sem kjarnfóður sem flokkast undir annað dýrafóður hefur hins vegar hækkað mest. Þannig var meðalverð á öðru dýrafóðri 44 kr. árið 2017 en var komið í tæpar 100 kr. fyrir fyrstu 6 mánuðina 2025 sem nemur hækkun upp á 124%.

Þegar bornar eru saman verðbreytingar á kjöti innanlands við þróun heimsmarkaðsverðs á kjöti er ljóst að verðhækkanir á kjöti eru ekki séríslenskt fyrirbrigði.

Áhyggjuefni er hins vegar erfitt rekstrarumhverfi íslenskra bænda sem endurspeglast meðal annars í háu aðfangaverði bæði á áburði og fóðri sem hefur hækkað langt umfram verðbreytingar á kjöti.

Skylt efni: Matvælaverð

Lausn á vísnagátu
Líf&Starf 24. nóvember 2025

Lausn á vísnagátu

Lausnin á vísnagátu Guðbjörns Sigurmundssonar í síðasta Bændablaði er orðið mál.

Skákmánuðurinn janúar
Líf&Starf 3. febrúar 2025

Skákmánuðurinn janúar

Janúarmánuður hefur lengi verið frekar stór skákmánuður á Íslandi. Í þeim mánuði...

Þörfnumst heilbrigðara sambands við tímann
Líf&Starf 13. desember 2024

Þörfnumst heilbrigðara sambands við tímann

Carl Honoré, sem gjarnan hefur verið kallaður rödd alþjóðlegu Hæglætishreyfingar...

Sækja áhrif til Suður-Evrópu
Líf&Starf 9. október 2024

Sækja áhrif til Suður-Evrópu

Í síðustu úthlutun Matvælasjóðs fengu bændur í Syðra-Holti í Svarfaðardal rúmleg...

Brautryðjandi í búskap með íslenska hesta í Noregi
Líf&Starf 14. ágúst 2024

Brautryðjandi í búskap með íslenska hesta í Noregi

Ingebjørg Helkås Vaa fæddist í Noregi 14. júlí 1933, yngst fimm systkina. Hún va...

Stjörnuspá vikunnar
Líf&Starf 2. júlí 2024

Stjörnuspá vikunnar

Vatnsberinn veit vart í hvorn fótinn hann á að stíga þessa dagana. Lífið virðist...

Heitt poppkorn er hollt sælgæti!
Líf&Starf 10. maí 2022

Heitt poppkorn er hollt sælgæti!

Svo hljóðaði auglýsing er birtist á síðu Morgunblaðsins í júlílok árið 1968 - en...

Lesning fyrir heilabilaða
Líf&Starf 4. maí 2022

Lesning fyrir heilabilaða

Þegar ég setti saman bókina Í húsi afa míns sem kom út fyrir tólf árum, hvarflað...

Þýskar heimsbókmenntir
3. desember 2025

Þýskar heimsbókmenntir

Laufey
3. desember 2025

Laufey

Gjörunnin matvæli ógn við lýðheilsu
4. desember 2025

Gjörunnin matvæli ógn við lýðheilsu

Þúsund ár og þúsund enn
4. desember 2025

Þúsund ár og þúsund enn

Góður árangur náðst
4. desember 2025

Góður árangur náðst

https://bestun.airserve.net/banner_bundles/de3e87e0d8dde67f98882b3ac12f8b2f