Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 1 árs.
Haustið
Af vettvangi Bændasamtakana 12. september 2024

Haustið

Höfundur: Trausti Hjálmarsson, formaður Bændasamtaka Íslands.

Ég var ásamt fleirum beðinn um það nýlega að segja nokkur orð um haustið í útvarpi allra landsmanna. Reyndar á þannig útsendingartíma í hádeginu að hinir fréttaþyrstu myndu væntanlega flestir verða með eyrun sín á annarri bylgjulengd á meðan ég léti móðan mása. Þess vegna flokkast það væntanlega ekki undir endurtekið efni að glefsa aðeins í þankabrotin mín hér á þessum vettvangi enda standa hinar gjörólíku árstíðir íslenskrar veðráttu og gróðurfars fáum nær en bændum.

Trausti Hjálmarsson,
formaður Bændasamtaka Íslands.

Ég sagði frá því að mér hefði alla tíð þótt vænt um haustið. Fyrir fjölmarga í bændastéttinni er það spennandi uppskerutími. Við sauðfjárbændur sækjum fé okkar á fjall, hlökkum til gangnanna og vonumst bæði eftir góðum heimtum og vænum dilkum. Í útiræktun grænmetisbændanna er vinnan að vori og biðin yfir sumarmánuðina þrungin eftirvæntingu og von um að síðsumarið og fyrstu haustdagarnir fari mildum höndum um verðmætin sem móðir jörð hefur umvafið og fóstrað í orðsins fyllstu merkingu. Og í heyskapnum og kornræktinni snýst allt um að koma uppskerunni í örugga höfn fyrir haustið. Með hlöðurnar fullar og matarbúrin sömuleiðis hafa bændur svo heilsað vetrinum um aldir, reiðubúnir til þess að þreyja þorrann og góuna hvað sem tautar og raular.

Gamall en genginn félagi okkar í bændastéttinni, Hjálmar Jónsson, öllu þekktari sem ljóðskáldið Bólu-Hjálmar, var ekki jafn umburðarlyndur gagnvart sumarlokunum og sparaði ekki gífuryrðin þegar hann hnjóðaði í haustið:

Drulluskíta helvískt haust,
hata ekkert fremur,
djöfuls ömurð endalaust,
allar vonir kremur.

Ég tók hins vegar upp hanskann fyrir haustið af fleiri ástæðum en uppskerutíma bænda eingöngu. Flestum finnst það kannski vera einhvers konar „hvorki né“ ef miðað er t.d. við hvernig við hlökkum til vorsins, sem færir okkur langþráða birtu og yl, hvernig við bíðum sumarsins í einlægri von um stillur og sólskinsstundir og hvernig við setjum okkur svo í stellingar til þess að mæta hörðum vetrinum, sem oft getur verið harður, af æðruleysi. Fyrir marga markar það svo nýtt upphaf, skólar byrja, lífið kemst í fasta rútínu eftir sumarfríin o.s.frv.

Vinkona mín skrapp til Danmerkur í sumar og vildi segja mér hvað fríið hefði heppnast vel miðað við það hvað þau hjónin höfðu í raun litlar væntingar til áfangastaðarins. „Bara Danmörk“ eins og hún orðaði það. Og kannski er haustið í hugum margra okkar svolítið svipað. „Bara haustið“. Við gerum ekkert miklar kröfur til þess en þiggjum samt með þökkum allt það góða sem það réttir okkur.

Við erum þá orðin svolítið eins og íslenski hesturinn sem aldrei biður um neitt en þiggur ávallt bæði brauð og blíðuhót þegar honum er boðið. Við sættum okkur við íslenska rokið og rigninguna, en þiggjum góðviðrisdagana með þökkum og erum sátt þegar upp er staðið ef haustið reynist að meðaltali alveg þokkalegt. Haustið er t.d. bara fínt ef það líkist veðrinu sem okkar ástsæla þjóðskáld og nánast ofvirkur aðdáandi íslenskrar náttúru, Jónas Hallgrímsson, orti svo snilldarlega um:

Veðrið er hvorki vont né gott,
varla kalt og ekki heitt;
það er hvorki þurrt né vott,
það er svo sem ekki neitt.

Íslenskir bændur eru mikilvægir landverðir íslenskrar þjóðar. Þeir umgangast vistvænar auðlindir landsins af virðingu, framleiða matvæli í þannig gæðum að hvergi finnast meiri í heiminum, eru hornsteinn lífs í sveitum landsins og standa bæði í stafni þeirrar verðmætasköpunar sem fólgin er í fæðuöryggi landsmanna og ferðaiðnaði sem engum rótum gæti skotið án landbúnaðarins. Og sem sannir landverðir ber okkur bændum ekki eingöngu að þekkja hinar ólíku árstíðir okkar heldur líka skilja þær, virða og elska.

Ég held að okkur bændum, að minnsta kostir þeim fjölmörgu okkar sem erum í „útivinnunni“, hafi lærst að mæta árstíðunum af umburðarlyndi. Ég viðurkenni samt að það getur stundum verið erfitt. Sumarið okkar í ár hefur til að mynda verið hreint út sagt skelfilegt. Nánast má segja að vetur konungur hafi læst í það klónum barnungu með fannfergi og ótíð af þeirri stærðargráðu að jaðraði við náttúruhamfarir. Í kjölfarið hefur svo fylgt mikil rigningartíð meira og minna í allt sumar og nú síðast norðanáttir með tilheyrandi kuldaskeiði um land allt. Þess vegna tek ég í þetta skiptið haustinu jafnvel enn frekar fagnandi en venjulega.

Lausn á vísnagátu
Líf&Starf 24. nóvember 2025

Lausn á vísnagátu

Lausnin á vísnagátu Guðbjörns Sigurmundssonar í síðasta Bændablaði er orðið mál.

Skákmánuðurinn janúar
Líf&Starf 3. febrúar 2025

Skákmánuðurinn janúar

Janúarmánuður hefur lengi verið frekar stór skákmánuður á Íslandi. Í þeim mánuði...

Þörfnumst heilbrigðara sambands við tímann
Líf&Starf 13. desember 2024

Þörfnumst heilbrigðara sambands við tímann

Carl Honoré, sem gjarnan hefur verið kallaður rödd alþjóðlegu Hæglætishreyfingar...

Sækja áhrif til Suður-Evrópu
Líf&Starf 9. október 2024

Sækja áhrif til Suður-Evrópu

Í síðustu úthlutun Matvælasjóðs fengu bændur í Syðra-Holti í Svarfaðardal rúmleg...

Brautryðjandi í búskap með íslenska hesta í Noregi
Líf&Starf 14. ágúst 2024

Brautryðjandi í búskap með íslenska hesta í Noregi

Ingebjørg Helkås Vaa fæddist í Noregi 14. júlí 1933, yngst fimm systkina. Hún va...

Stjörnuspá vikunnar
Líf&Starf 2. júlí 2024

Stjörnuspá vikunnar

Vatnsberinn veit vart í hvorn fótinn hann á að stíga þessa dagana. Lífið virðist...

Heitt poppkorn er hollt sælgæti!
Líf&Starf 10. maí 2022

Heitt poppkorn er hollt sælgæti!

Svo hljóðaði auglýsing er birtist á síðu Morgunblaðsins í júlílok árið 1968 - en...

Lesning fyrir heilabilaða
Líf&Starf 4. maí 2022

Lesning fyrir heilabilaða

Þegar ég setti saman bókina Í húsi afa míns sem kom út fyrir tólf árum, hvarflað...