Hátíðir í sumar
Í sumar verður fjöldi hátíða víða um land og auðvitað fjölbreytt dagskrá um sjálfa Verslunarmannahelgina. Bændablaðið tók saman nokkrar hátíðir næstu vikurnar sem áhugasamir lesendur geta sótt. Fjölskylduskemmtanir, grillhátíð, íþróttahátíðir og allskyns tónleikar frá popptónlist yfir í dauðarokk. Hér ætti að vera eitthvað fyrir alla!
11. – 13. júlí KÓTELETTAN
Kótelettan er fjölskyldu-, tónlistar-, og grillhátíð sem er haldin árlega á Selfossi. Fjölskylduhátíðin býður upp á tívolí, markaði, veltibílinn og dagskrá á sviðinu fyrir alla fjölskylduna. Á tónlistarhátíðinni sem haldin er við Hvítahúsið á Selfossi stíga á svið Friðrik Dór, Daníel Ágúst, XXX Rottweiler, Stebbi Hilmars, Bríet og margir fleiri. Á stóru Grillsýningunni 2025 á BBQ Festival Kótelettunnar geta gestir kynnt sér ýmis grill á markaðnum og íslenskir kjötframleiðendur bjóða upp á ýmislegt á grillið. Frítt er inn á fjölskyldu- og grillhátíðina.
18. – 20. júlí HLAUPAHÁTÍÐ Á VESTFJÖRÐUM
Árleg hlaupahátíð þar sem gestir geta tekið þátt í fjölmörgum hlaupum víða um Vestfirði. Keppnisgreinar í ár eru fimm. 7 km Utanbrautarhlaup þar sem hlaupið er frá gönguskíðasvæðinu á Seljalandsdal og niður í miðbæ Ísafjarðar, 15 km Óshlíðarhlaup þar sem hlaupið er frá Bolungarvík til Ísafjarðar um aflagða veginn um Óshlíð. Á laugardeginum er hlaupið um Vesturgötu og er hægt að velja um hálfa (10 km), heila (24 km) eða tvöfalda Vesturgötu (45 km). Á sunnudeginum býður íþróttafélagið Höfrungur á Þingeyri upp á 2 og 4 km skemmtiskokk í tilefni 120 ára afmælis Íþróttafélagsins. Skráningarfrestur er út 16. júlí.
25. – 27. júlí BRÆÐSLAN
Bræðslan er tónlistarhátíð á Borgarfirði eystra. Bræðslutónleikarnir fara fram laugardaginn 26. júlí í Bræðslunni. Fram koma KK, Elín Hall, María Bóel, Mugison, Ragga Gísla, Jónas Sig, Pálmi Gunnars, Bræðslubandið og Lúðrasveit Þorlákshafnar. Föstudaginn 25. júlí heldur heldur Emilíana Torrini sérstaka afmælistónleika í Bræðslunni í tilefni af 20 ára afmæli hátíðarinnar.
Verslunarmannahelgin 1-3 ágúst
ÞJÓÐHÁTÍÐ Í EYJUM
Þjóðhátíð 2025 fer fram dagana 1–3. ágúst í Herjólfsdal. Á svið stíga meðal annars: Pretty boy Tjokko, Hr. Hnetusmjör, Birnir, Björgvin Halldórsson, Sigga Beinteins, FM95BLÖ, GDRN, Hubba Bubba, Ragga Gísla ásamt fjölda annarra flytjanda.
Barnadagskrá með skemmtun fyrir yngstu þjóðhátíðargestina þar sem m.a Brúðubíllinn kemur aftur eftir nokkurra ára hlé.
Blysin, flugeldasýningin og brennan verða á sínum stað. Brekkusöngurinn er svo á sunnudagskvöldinu þar sem allir gestir Herjólfsdals taka undir í söng.
NEISTAFLUG
Neistaflug í Neskaupstað verður haldið hátíðlega um verslunarmannahelgina. Eitthvað í boði fyrir alla, hátíðin hefst á miðvikudegi og stendur yfir til sunnudagskvölds. Barnaskemmtun, tónleikar, dansleikir, kassabílarallý, kjöríshlaup, sápubolti og svo margt fleira. Á sunnudagskvöldinu er hápunktur hátíðarinnar, Stórtónleikar Neistaflugs, á fótboltavellinum. Öll dagskrá utandyra er fólki að kostnaðarlausu.

NORÐANPAUNK
Norðanpaunk er ættarmót pönkara, og stærsta DIY hátíð á Íslandi. Þangað kemur samansafn af grasrótinni að hlusta á jaðarsetta tónlist. Það má heyra allt frá popp rokki og krútt pönki yfir í tilrauna hávaða tónlist og dauðarokk. Hátíðin er haldin á Laugarbakka, skammt frá Hvammstanga.
EIN MEÐ ÖLLU
Ein með öllu er fjölskylduhátíð á Akureyri. Á meðal viðburða eru fjölskyldu- og barnaskemmtanir víðs vegar um bæinn, þar sem ungir sem aldnir finna eitthvað við sitt hæfi. Tveir tívolígarðar verða staðsettir á Samkomuhúsflötinni. Þá verður haldinn skógardagur í Kjarnaskógi sem leggur áherslu á útivist og náttúruna.
Þá verða haldnir Sparitónleikar, þar sem margir af fremstu tónlistarmönnum landsins koma fram. Tónleikakvöldinu lýkur með flugeldasýningu sem markar endi á dagskrá kvöldsins.
Meðal þeirra tónlistarmanna sem fram koma í ár eru Aron Can, Á móti sól, Birnir, GDRN, Emmsjé Gauti, Frikki Dór og Páll Óskar.

UNGLINGALANDSMÓT UMFÍ
Unglingalandsmót UMFÍ á Egilsstöðum um verslunarmannahelgina. Mótið er íþrótta- og fjölskylduhátíð sem haldin er í samstarfi við Ungmennaog íþróttasamband Austurlands og sveitarfélagið Múlaþing. Á mótið geta 11-18 ára þátttakendur verið með í um 20 íþróttagreinum. Fjölbreytt afþreying, leikir, tónleikar og skemmtun fyrir alla fjölskylduna. Þátttökugjald er 9.900 krónur. Inni í verðinu er innifalið tjaldsvæði fyrir mömmu og pabba og öll systkini. Þátttakendur geta skráð sig í eins margar greinar og þeir vilja fram á kvöld 28. júlí. Upplýsingar og skráning á umfi.is.
INNIPÚKINN
Ragga Gísla og Hipsumhapps snúa bökum saman og koma fram í sameiningu í fyrsta sinn á tónlista rhátíðinni Innipúkanum í Reykjavík um verslunarmannahelgina, 1-3 ágúst. Meðal annara listamanna sem sem koma fram á hátíðinni í ár má nefna Ásdís, Birnir, Bríet, Floni, Mugison, Purrkur Pillnikk, Sigga Beinteins og Babies flokkurinn og Spacestation.
8. – 10. ágúst. HINSEGIN DAGAR Í REYKJAVÍK
Hinsegin dagar í Reykjavík 2025 fara fram dagana 5.–10. ágúst. Þema hátíðarinnar í ár er „Samstaða skapar samfélag“ og endurspeglar mikilvægi samstöðu í baráttu fyrir réttindum og sýnileika hinsegin fólks. Á dagskrá eru fjölbreyttir menningarviðburðir sem fagna fjölbreytileika og hinsegin menningu, og hátíðinni lýkur með Gleðigöngu og útihátíð í miðborg Reykjavíkur
