Háskólasamstæða og hátæknilandbúnaður
Vonir standa til þess að ný háskólasamstæða Háskóla Íslands (HÍ) og Háskólans á Hólum (HH) taki til starfa að fullu á þessu ári. Í desember fékk verkefnið veglegan fjárhagsstuðning frá háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra.
Háskólasamstæða HÍ og HH hlaut 170 milljóna króna styrk úr sjóði ráðherra sem kallast Samstarf háskóla. Ein megináhersla við val á verkefnum sem hljóta styrk úr sjóðnum er verkefni sem fela í sér sameiningu háskóla og áframhaldandi uppbyggingu háskólasamstæðu.
HÍ og HH komu sér saman um grunnatriði stjórnskipulags samstæðunnar síðastliðið vor en gert er ráð fyrir að einn rektor stýri henni. HÍ verður svokallaður flaggskipsháskóli samstæðunnar og HH aðildarskóli með starfsemi á Hólum og Sauðárkróki. „Horft verður til þess að styrkja HÍ sem leiðandi háskóla í íslensku samfélagi og HH sem sérhæfðan háskóla á landsbyggðinni, og að samstæðan verði eftirsóknarverð fyrir fleiri háskóla og rannsóknastofnanir,“ segir í tilkynningu frá háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðuneytinu. Styrkurinn sem verkefnið hlaut er skilyrtur við að háskólasamsætan verði að veruleika.
Alls úthlutaði ráðuneytið 893 milljónum króna úr sjóðnum til nítján verkefna. Af öðrum verkefnum má nefna samstarfsverkefni LbhÍ, HÍ og HR um hátæknilandbúnað með áherslu á innviði námsins en koma á upp aðstöðu sem styður við kennslu og þróun á því sviði. Þá á að efla nám í lagareldi með því að byggja upp og kenna ný námskeið á meistarastigi, þróa örnám og kennsluefni til að auka kennslu námskeiða í fjarnámi. Þá á að leggja saman grunninn að þverfaglegu meistara- og diplómanámi í hamfarafræðum með þátttöku fimm háskóla og þriggja stofnana á sviðinu. Dýralæknanám verður eflt með formlegu samstarfi milli LbhÍ, Keldna, HÍ, HH og SGGW í Póllandi.
