Harmonikan – hjarta tónlistar og menningar á Íslandi
Harmonikan, þetta fjölbreytta og heillandi hljóðfæri, hefur um áratugaskeið verið órjúfanlegur hluti af tónlistar- og menningarsögu Íslendinga, átt djúpar rætur í íslensku samfélagi, þar sem félagslíf byggðist á samveru og tónlist og sameinaði fólk á öllum aldri.
Harmonikan hefur mikið tónlistarlegt gildi, enda hentar hún við margs konar aðstæður. Hún hefur gegnt mikilvægu hlutverki við dansleikjahald nú sem fyrr, þar sem dansaðir eru samkvæmisdansar og þjóðlagatónlist. Nú seinni árin hefur dansmenning breyst þar sem nýtt dansform hefur tekið við, svo sem við rokk, sving og jafnvel nútímalegri tónlistarform. Það er einmitt þessi fjölbreytileiki sem gerir harmonikuna svo dýrmæta, hún hefur tón fyrir alla.
Þá hefur hún í gegnum árin verið hluti af menningarstarfi víða um land. Hún var lengi vel kjarninn í félagslífi í sveitum, þar sem hún var fastur liður á dansleikjum, kvöldvökum, brúðkaupum og öðrum samkomum. Þar sameinaði hún fólk á öllum aldri.
Hljóðfærið varð nokkurs konar sameign þjóðarinnar, var til á fjölmörgum heimilum og margir lærðu að spila, náðu mikilli leikni á hljóðfærið sem síðan varð hluti af sjálfsmynd þeirra og tákn um gleði og samveru. Stærstur hluti harmonikuleikara á Íslandi eru sjálfmenntaðir en standa jafnvel færustu erlendum harmonikuleikurum jafnfætis.
Það má með sanni segja að harmonikan hafi verið falinn fjársjóður í menningu landsins. Hún er hljóðfæri, ekki svo flókið, enda nýtt af fólki á öllum aldri. Eldri kynslóðir kenndu þeim yngri og þannig hélt þekking og leikni áfram að lifa í gegnum tíðina.
En nú, þegar samfélagið breytist hratt og áherslur ungs fólks liggja víða annars staðar, er mikilvægt að tryggja áframhaldandi líf harmonikutónlistar hér á landi. Það þarf að hvetja yngri kynslóðir til að nema og njóta þessarar listgreinar sem býður upp á óteljandi möguleika til sköpunar og gleði.
Harmonikufélög starfa með miklum myndarskap víða um land og halda úti öflugu starfi þar sem harmonikuleikendur hittast reglulega, leika saman og miðla reynslu og leikni.
Árlega eru haldin fjölmörg harmonikumót víðs vegar um landið. Þar kemur saman fólk á öllum aldri og þá jafnt byrjendur sem reyndir harmonikuleikarar.
Á nýafstöðnum harmonikumótum víða um land komu saman tugir manna og kvenna á öllum aldri til að dansa við harmonikuleik og þar sumir vel yfir áttrætt og dansa fjóra tíma án hvíldar, tvö kvöld í röð. Hvað segir þetta okkur? Það segir okkur hvað harmonikan yngir mannsandann og dansinn ein besta lífsrækt sem hentar öllum.
Um verslunarmannahelgi, nánar tiltekið dagana 3.–4. ágúst, í ár mun Félag harmonikuunnenda Reykjavíkur standa fyrir glæsilegu þriggja daga harmonikumóti að Borg í Grímsnesi. Það mun verða tækifæri til að skella sér á ball, dansa þrjú kvöld í röð og njóta ljúfra tóna harmonikunnar.
