Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 6 mánaða.
Hagræðingin heldur áfram
Fréttir 30. maí 2025

Hagræðingin heldur áfram

Höfundur: Sigurður Már Harðarson

Breytingarnar á búvörulögum sem gerðar voru á vordögum 2024 – og gáfu kjötafurðastöðvum undanþágur frá samkeppnislögum til samvinnu og samruna – hafa tekið gildi á ný eftir að Hæstiréttur snéri við dómi Héraðsdóms Reykjavíkur sem hafði dæmt þau ólöglega sett.

Þar með heldur vinna Kaupfélags Skagfirðinga (KS) áfram eftir kaupin á Kjarnafæði Norðlenska (KN) seint á síðasta ári, að því yfirlýsta markmiði að ná fram hagræðingu í rekstri sláturhúsa og kjötvinnslum til hagsbóta fyrir alla; kjötafurðastöðvar, bændur og neytendur.

Tillögur Spretthópsins

Frumútgáfu á breytingum á búvörulögum í þessa veru lagði Svandís Svavarsdóttir, þáverandi matvælaráðherra, fram í desember 2022, en frá því var fallið í byrjun árs 2023 eftir samráðsferli.

Það frumvarp átti rætur að rekja til tillagna spretthópsins frá því í júní það ár, sem matvælaráðherra kallaði eftir vegna alvarlegrar stöðu í matvælaframleiðslu á Íslandi. Grunnhugmyndin er að með möguleikum á hagræðingu í rekstri sláturhúsa sé hægt að draga úr kostnaði við slátrun og vinnslu á kjötafurðum og þar með greiða bændum hærra afurðaverð. Skýrsla Deloitte frá apríl 2021, sem unnin var fyrir atvinnuvegaog nýsköpunarráðuneytið, leiddi í ljós að samþjöppun afurðastöðva í slátrun sauðfjár og stórgripa gæti leitt til rekstrarhagræðingar á bilinu 0,9 til 1,5 milljarða króna á ári.

Matvælaráðherra lagði fram nýtt frumvarp í nóvember 2023 með sérstökum kafla um framleiðendafélög sem yrðu undanþegin ákvæðum 10. og 12. greina samkeppnislaga, til samstarfs. Þar var skilyrt að einungis félög í meirihlutaeigu frumframleiðenda (bænda) yrðu undanþegin ákvæðum. Frumvarpið var svo lagt fyrir Alþingi á ný 18. mars, með nefndaráliti og breytingartillögu meirihluta atvinnuveganefndar. Þar sagði að fylgt sé eftir þeim markmiðum búvörulaga að stuðla að framförum og aukinni hagkvæmni í búvöruframleiðslu til hagsbóta fyrir framleiðendur og neytendur.

Þórarinn Ingi Pétursson, formaður nefndarinnar, lét hafa eftir sér í umfjöllun Bændablaðsins í apríl á síðasta ári að breytingartillaga nefndarinnar hefði að efni og markmiði verið sambærilegt því frumvarpi sem matvælaráðherra lagði fram í nóvember. Hann var þar spurður út í breytingarnar á frumvarpinu á milli fyrstu og annarrar umræðu, um að vikið hafi verið frá skilyrðum um meirihlutaeign bænda í framleiðendafélögum, segir hann að þegar þau mál voru skoðuð betur hefðu mjög fá félög uppfyllt þau skilyrði. Því hafi meirihluti nefndarinnar lagt til þær breytingar fyrir aðra umræðu, með nefndarálitinu, að undanþáguákvæðin næðu yfir allar kjötafurðastöðvar sem sinna slátrun og framleiðslu kjötafurða í stað framleiðendafélaga sem eru eingöngu í meirihlutaeigu bænda. Þar sem markmiðið hefði verið að ná sérstaklega utan um sauðfjár- og nautgripabændur.

Málaferlin hafa snúist um formlega málsmeðferð þingsins – hvort hún hafi staðist stjórnarskrá – en ekki efnisleg atriði laganna. Í þriðju umræðu var harðlega gagnrýnt af stjórnarandstöðuþingmönnum að undanþáguákvæðið hefði verið útvíkkað og næði til kjötafurðastöðva í öllum búgreinum. Því bæri að taka málið aftur upp í atvinnuveganefnd og kalla á ný eftir umsögnum um nýtt mál. Sú gagnrýni hafði einnig komið fram í umsögn Samkeppniseftirlitsins sem barst atvinnuveganefnd eftir aðra umræðu og í umsögnum frá nokkrum samtökum og félögum.

Taldi Samkeppniseftirlitið að með þeim breytingartillögum sem komu frá meirihluta nefndarinnar hafi efnisákvæði upphaflegs frumvarps verið endurskrifuð að öllu leyti. Væri í raun um að ræða nýtt frumvarp sem hefði mun víðtækari áhrif en upphaflega frumvarpið.

Í umsögn Samkeppniseftirlitsins kom fram að allar líkur væru á því að þessar breytingar myndu leiða til þess að verð á kjötvörum til neytenda hækkaði. Kjötafurðastöðvum verði veitt fullt sjálfdæmi um verðlagningu til bænda, smásala og neytenda. Það aðhald sem bændur geti sýnt viðsemjendum sínum, meðal annars til að stuðla að ásættanlegu afurðaverði eða framþróun greinarinnar að öðru leyti, minnki eða hverfi.

Með breytingunum á búvörulögunum var kjötiðnaðurinn í landinu færður í átt að fyrirkomulaginu í mjólkuriðnaði. Þar var undanþáguákvæði sett inn í búvörulögin árið 2004 og ákvæði um opinbera verðlagningu á afurðaverði til bænda og heildsöluverði á mjólkurvörum til neytenda.

Í breytingunum á búvörulögum er að finna bráðabirgðaákvæði, þess efnis að fyrir lok árs 2028 skuli ráðherra flytja Alþingi skýrslu þriggja óháðra sérfræðinga á sviði hagfræði og samkeppnisrekstrar um reynsluna af framkvæmd undanþágureglunnar. Skuli þar vera metin áhrif hennar, meðal annars með hliðsjón af markmiðsákvæðum laganna – og sérstaklega hver ávinningur bænda og neytenda hafi verið.

Áður en búvörulögin voru samþykkt fyrir tæpu ári höfðu orðið nokkrar breytingar með árunum á eignarhaldi og starfsemi afurðastöðva og sláturhúsa – og þeim fækkað lítillega. KS keypti helmingshluta í Sláturhúsi KVH á Hvammstanga í byrjun árs 2006. Kjarnafæði eignaðist meirihluta í SAH afurðum á Blönduósi á árinu 2015, þar sem sláturhús hefur verið rekið frá 1908. Kjarnafæði og Norðlenska sameinuðust svo árið 2021, en Norðlenska hefur rekið sauðfjársláturhús og kjötvinnslu á Húsavík og stórgripasláturhús og kjötvinnslu á Akureyri.

Frá árinu 2021 breyttist starfsemi Fjallalambs þegar ákveðið var að hætta starfsemi sem afurðastöð á íslenskum markaði með lambakjöt. Þar er þó áfram slátrað að hausti, en Kjarnafæði Norðlenska hefur keypt allt kjöt. Sláturfélag Vopnfirðinga hætti starfsemi árið 2023.

Fullt af tækifærum

„Það er komin niðurstaða og þá getum við haldið áfram með okkar vinnu í kjölfar sameiningarinnar í haust. Þetta hefur auðvitað valdið okkur ýmsum vandræðum og í raun miklu tjóni. Það var allt stoppað af þegar málaferlin hófust og við höfum síðan ekkert mátt vinna markvisst í þessu. Við höfðum hækkað afurðaverð til sauðfjárbænda nokkuð vel fyrir síðustu sláturtíð, sem byggði í raun á væntingum um hagræðingu í rekstri sláturhúsanna,“ segir Sigurður Bjarna Rafnsson, sláturhússtjóri hjá KS.

„Núna fer vinnan á fullt aftur, en það var sett stopp á alla vinnu á meðan þessi lagaóvissa var hangandi yfir okkur. Mér sýnist reyndar að það verði mjög erfitt að gera eitthvað mikið í þessu fram á næsta haust, en það eru samt ákveðnir hlutir sem blasa við að hægt sé að vinna í hagræðingu á – eins og í vinnsluhlutanum og hvað verður hagkvæmast að gera á hvaða stað. Það eru hugmyndir um að allur útflutningur verði héðan frá Sauðárkrók, en þá myndu Húsavík og Hvammstangi sérhæfa sig í einhverju öðru. Ég sé alveg fullt af tækifærum hérna.

Það verður strax næsta haust ákveðin hagræðing í rekstri sláturhúsanna, nú þegar það er ljóst að ekki verður slátrað á Blönduósi næsta haust – og raunar skilst mér að það hús muni loka bara á næstu dögum. Afkastagetan hjá okkur og Sláturhúsinu á Hvammstanga er það mikil að við eigum að ráða vel við þá aukningu sem hugsanlega verður með þessum breytingum kjósi bændur að leggja inn hjá okkur. Við getum í það minnsta bætt töluverðu við okkur, þegar mest var slátrað hjá okkur voru það um 114 þúsund dilkar en í fyrra var þetta um 90 þúsund. Svo er líka hægt að lengja vinnsludagana, byrja fyrr og enda seinna,“ segir Sigurður enn fremur.

Trausti Hjálmarsson, formaður Bændasamtaka Íslands, segir bændur hafa talað fyrir aukinni hagræðingu í slátrun í að verða tvo áratugi. „Þreytan og óþreyjan er því orðin mikil – og ekki voru þessi málaferli til að minnka hana. Hagræðingin sem vonir standa til að verði og muni skila betri kjörum fyrir bændur og jafnframt neytendur er einfaldlega ekki komin til framkvæmda.

Hagræðing í slátrun gat ekki orðið fyrr en í fyrsta lagi haustið 2025 og auðvitað standa vonir okkar til að svo megi verða. Það má segja að þessi vetur hafi farið að einhverju leyti fyrir bí hvað varðar hagræðingu í vinnslu, sölu og dreifingu enda gátu afurðastöðvar ekki gert neitt í ljósi héraðsdóms. Óvissa um gildi laganna hefur verið til staðar síðan að dómurinn féll og í framhaldi gaf Samkeppniseftirlit út að stöðva skyldi allar samningaviðræður um sameiningu á grundvelli þeirrar undanþágu sem lögin kváðu á um. Þess vegna hefur að mér vitandi ekkert verið unnið frekar með sameininguna síðan þarna á síðasta ári og ég veit hreinlega ekki hvernig sameiningarferlið þróast eftir dóm Hæstaréttar eða hvort bændur muni njóta ábata af sameiningunni núna við slátrunina á komandi hausti,“ segir Trausti.

Hann bendir á að ef bændur muni ekki njóta ábata af sameiningunni í haust megi færa rök fyrir því að þeir hafi hlotið skaða af málaferlunum og síðan stöðvun Samkeppniseftirlitsins á ferlinu. „Tíminn verður einfaldlega bara að leiða það í ljós og við hjá Bændasamtökunum munum að sjálfsögðu skoða þetta út frá öllum hliðum með hagsmuni okkar félagsmanna að leiðarljósi,“ segir Trausti.

Lausn á vísnagátu
Líf&Starf 24. nóvember 2025

Lausn á vísnagátu

Lausnin á vísnagátu Guðbjörns Sigurmundssonar í síðasta Bændablaði er orðið mál.

Skákmánuðurinn janúar
Líf&Starf 3. febrúar 2025

Skákmánuðurinn janúar

Janúarmánuður hefur lengi verið frekar stór skákmánuður á Íslandi. Í þeim mánuði...

Þörfnumst heilbrigðara sambands við tímann
Líf&Starf 13. desember 2024

Þörfnumst heilbrigðara sambands við tímann

Carl Honoré, sem gjarnan hefur verið kallaður rödd alþjóðlegu Hæglætishreyfingar...

Sækja áhrif til Suður-Evrópu
Líf&Starf 9. október 2024

Sækja áhrif til Suður-Evrópu

Í síðustu úthlutun Matvælasjóðs fengu bændur í Syðra-Holti í Svarfaðardal rúmleg...

Brautryðjandi í búskap með íslenska hesta í Noregi
Líf&Starf 14. ágúst 2024

Brautryðjandi í búskap með íslenska hesta í Noregi

Ingebjørg Helkås Vaa fæddist í Noregi 14. júlí 1933, yngst fimm systkina. Hún va...

Stjörnuspá vikunnar
Líf&Starf 2. júlí 2024

Stjörnuspá vikunnar

Vatnsberinn veit vart í hvorn fótinn hann á að stíga þessa dagana. Lífið virðist...

Heitt poppkorn er hollt sælgæti!
Líf&Starf 10. maí 2022

Heitt poppkorn er hollt sælgæti!

Svo hljóðaði auglýsing er birtist á síðu Morgunblaðsins í júlílok árið 1968 - en...

Lesning fyrir heilabilaða
Líf&Starf 4. maí 2022

Lesning fyrir heilabilaða

Þegar ég setti saman bókina Í húsi afa míns sem kom út fyrir tólf árum, hvarflað...

https://bestun.airserve.net/banner_bundles/de3e87e0d8dde67f98882b3ac12f8b2f