Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 8 ára.
Sveinn Margeirsson, forstjóri Matís, í ræðustól, en hann sagði m.a. nauðsynlegt að brúa bilið á milli neytenda og verðmætasköpunar.
Sveinn Margeirsson, forstjóri Matís, í ræðustól, en hann sagði m.a. nauðsynlegt að brúa bilið á milli neytenda og verðmætasköpunar.
Mynd / LbhÍ
Fréttir 7. nóvember 2017

Hægt að þrefalda verðmætasköpun og arðsemi íslensks landbúnaðar á næstu fjórum árum

Um hundrað manns mættu á opinn fund í Ásgarði á Hvanneyri þriðjudaginn 24. október sem bar yfirskriftina Aukið virði landbúnaðarafurða – Hvað ætlar Ísland að gera? Fundurinn var skipulagður af Landbúnaðarháskóla Íslands, Matís og Samtökum ungra bænda.  
 
Fulltrúar allra níu stjórn­málaflokkanna sem bjóða fram í Norðvesturkjördæmi mættu og kynntu stuttlega framtíðarsýn flokkanna í landbúnaðarmálum auk þess að svara spurningum í sal í lok fundar.
 
Unga fólkið úr LbhÍ lét sig ekki vanta á fundinn.
 
Áhyggjur af byggðaröskun en tækifærin eru víða
 
Einar Freyr Elínarson, formaður Samtaka ungra bænda, setti fundinn og sagðist hafa áhyggjur af mikilli byggðaröskun ef ekkert yrði gert í vanda sauðfjárbænda eins og staðan er í dag og að stjórnmálamenn geti ekki skilað auðu í þessu máli. 
 
Hann sagði tækifærin þó vera víða fyrir bændur, m.a. með stórauknum ferðamannastraumi til landsins sem opnað hefði á nýjar leiðir í sölu og þróun matvæla. Sérstaða íslenskra landbúnaðarvara er ótvíræð og neytendur eru sífellt að verða meðvitaðri um hana, mikilvægt er að standa vörð um þessa sérstöðu þegar litið er fram í tímann, sagði Einar. Hann sagði íslenska bændur ekki hrædda við samkeppni en erfitt væri að keppa einungis á verðmiðanum við innflutt kjöt. 
 
Eigum vísindafólk á heimsvísu
 
Sæmundur Sveinsson, rektor LbhÍ, minntist í upphafi ræðu sinnar á að Hvanneyri væri búin að vera miðstöð íslensks landbúnaðar í meira en hundrað ár og þangað hefðu margir sótt sér þekkingu í nýtingu á jörðinni sér og sínum til framfærslu við matvælaframleiðslu í gegnum tíðina. 
 
Í dag eigum við vísindafólk á heimsvísu sem hefur sótt sér nám og fengið þjálfun hér á landi í sínum fræðum og vinnur í dag fyrir öflugar stofnanir á sviði landbúnaðar og matvæla. 
 
Sæmundur sagði nauðsynlegt að styðja við og hlúa að þessum stofnunum svo innan þeirra sé hægt að þjálfa nýtt fólk sem vinni að nýjum rannsóknum. Síðasta áratug hefur dregið gríðarlega úr fjármagni til Landbúnaðarháskólans og er óviðunandi að fræðasvið landbúnaðarins sé fjársvelt ár eftir ár, sé stefnan að hafa öflugan landbúnað á Íslandi verði að vera öflugur landbúnaðarháskóli á Íslandi, sagði Sæmundur. 
 
Nauðsynlegt að brúa bilið á milli neytenda og verðmætasköpunar
 
Sveinn Margeirsson, forstjóri Matís, sagði nauðsynlegt að brúa bilið á milli neytenda og verðmætasköpunar og tók sem dæmi hvernig Matís hefur unnið að því markmiði í sjávarútvegi. Síðustu tíu til fimmtán ár hefur verðmæti hvers kílós af afla í sjávarútvegi meira en tvöfaldast og hefur stofnun AVS Rannsóknasjóðs í sjávarútvegi mikið um þá staðreynd að segja, sagði Sveinn. 
Hægt að þrefalda verðmætasköpun og arðsemi landbúnaðar
 
Rannsóknasjóðurinn var stofnaður árið 2003 en hann veitir styrki til rannsókna- og þróunarverkefna sem auka verðmæti sjávarfangs og árið eftir var Tækniþróunarsjóður stofnaður, tveir sjóðir með því markmiði að búa til meiri verðmæti. Sveinn segir að sjóður eins og AVS (Aukið verðmæti sjávarfangs) geti hjálpað landbúnaðinum á svipaðan hátt og sjávarútveginum. Fullyrti hann að hægt verði að þrefalda verðmætasköpun og arðsemi íslensks landbúnaðar á næstu fjórum árum. Til þess þarf vísindi og stofnanir, og Matís og Landbúnaðarháskólinn spila þar lykilhlutverk. 
 
Sveinn sagði að lokum að það þurfi að fjárfesta í þekkingu og að bændur, sjómenn og  fyrirtæki tengd landbúnaði og sjávarútvegi auk stjórnvalda verði að horfast í augu við það.
 
Framsögumenn og frambjóð­endur voru ánægðir með fundinn og minntust margir á nauðsyn þess að ná til ungs fólk því það er hópurinn sem auðveldast er að kynna fyrir nýjungar. 
 
Nemendur Landbúnaðar­háskólans fjölmenntu á fundinn og var greinilegt að margir þeirra hafa áhyggjur af núverandi stöðu sauðfjárbænda og framtíð sinni í greininni. Eitt voru allir frambjóðendur sammála um, rannsóknir og nýsköpun eru grundvallaratriði í þeirri vinnu að auka virði afurða í landbúnaði.
 
Frambjóðendur sem sátu fundinn voru: 
Guðjón S. Brjánsson
frá Samfylkingu
Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir
frá Sjálfstæðisflokki
Dóra Björt Guðjónsdóttir
frá Pírötum
Ásmundur Einar Daðason
frá Framsóknarflokki
Jón Þór Þorvaldsson
frá Miðflokknum
Guðlaug Kristjánsdóttir
frá Bjartri framtíð
Matthías Lýðsson
frá Vinstri grænum 
Magnús Þór Hafsteinsson
frá Flokki fólksins.
 
Hægt er að hlusta á fundinn á Facebook-síðu Samtaka ungra bænda.
Lausn á vísnagátu
Líf&Starf 24. nóvember 2025

Lausn á vísnagátu

Lausnin á vísnagátu Guðbjörns Sigurmundssonar í síðasta Bændablaði er orðið mál.

Skákmánuðurinn janúar
Líf&Starf 3. febrúar 2025

Skákmánuðurinn janúar

Janúarmánuður hefur lengi verið frekar stór skákmánuður á Íslandi. Í þeim mánuði...

Þörfnumst heilbrigðara sambands við tímann
Líf&Starf 13. desember 2024

Þörfnumst heilbrigðara sambands við tímann

Carl Honoré, sem gjarnan hefur verið kallaður rödd alþjóðlegu Hæglætishreyfingar...

Sækja áhrif til Suður-Evrópu
Líf&Starf 9. október 2024

Sækja áhrif til Suður-Evrópu

Í síðustu úthlutun Matvælasjóðs fengu bændur í Syðra-Holti í Svarfaðardal rúmleg...

Brautryðjandi í búskap með íslenska hesta í Noregi
Líf&Starf 14. ágúst 2024

Brautryðjandi í búskap með íslenska hesta í Noregi

Ingebjørg Helkås Vaa fæddist í Noregi 14. júlí 1933, yngst fimm systkina. Hún va...

Stjörnuspá vikunnar
Líf&Starf 2. júlí 2024

Stjörnuspá vikunnar

Vatnsberinn veit vart í hvorn fótinn hann á að stíga þessa dagana. Lífið virðist...

Heitt poppkorn er hollt sælgæti!
Líf&Starf 10. maí 2022

Heitt poppkorn er hollt sælgæti!

Svo hljóðaði auglýsing er birtist á síðu Morgunblaðsins í júlílok árið 1968 - en...

Lesning fyrir heilabilaða
Líf&Starf 4. maí 2022

Lesning fyrir heilabilaða

Þegar ég setti saman bókina Í húsi afa míns sem kom út fyrir tólf árum, hvarflað...