Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 1 árs.
Grilluð lambaspjót
Líf og starf 20. júní 2024

Grilluð lambaspjót

Höfundur: Hafliði Halldórsson

Smellum í einfaldan lambarétt sem hentar vel á grillið hvort sem er heima eða í útilegunni.

Persónulega sneiði ég hjá svokölluðu grillkjöti sem sennilega er af grill-dýrum? En vel frekar að krydda og marinera mínar grillsteikur sjálfur og get þá stýrt bragði og ekki síður saltmagninu í matnum. Yfir hásumarið nýti ég af bestu getu villtar jurtir og það sem fæst úr garðinum sem ég hvet ykkur til að gera líka. Í þessari uppskrift er t.d. villtur skógarkerfill sem finnst í miklu magni víða um land og er afar ágeng planta. Skógarkerfil má nota eins og steinselju og er um að gera að nýta á meðan hann er í sínu besta formi.

Nokkur grillráð

Grillið heillar marga, og tengir suma við hellisbúann í sér sem elskar að steikja við opinn eld og víla ekki fyrir sér að grilla hvaða hráefni sem er. Mestu skiptir að grillið sé vel heitt áður en það er notað. Ef hitinn er ekki nægur er hætt við að hráefnið hreinlega nái ekki þeirri áferð og bragði sem sóst er eftir. Í flestum tilvikum festist kjöt ekki við grindina ef hún er nógu heit. Ástæðulaust er að hræðast háan hita, sérstaklega þegar byrjað er að grilla, því hann hjálpar til við að fá rétta áferð á kjötið og það festist síður.

Ef til stendur að grilla við 180 °C er gott að ná hitanum fyrst í 250 °C, því við það að opna grillið tapast hiti auk þess sem hráefnið er alltaf mun kaldara en grillflöturinn. Efnismeiri grillflötur heldur mun betur hita.

Þegar grillað er yfir kolum skal varast að nota kveikilög því af honum kemur bragð í kjötið, notið frekar kveikikubba sem eru búnir til úr þjöppuðum pappa eða viði. Mikilvægt er að nota kjarnhitamæli til að ná sem bestri niðurstöðu, stingið í þykkasta part kjötsins án þess að snerti bein.

Grillið á alltaf að vera hreint, lag af ösku og gamalli fitu gefur grillmatnum vont bragð og því skipta hreint grill og grind öllu máli upp á bragðgæði og minnka líkur á íkveikju. Auðveldast er að þrífa grillið strax eftir eldun, á meðan það er enn heitt.

Einfalt ráð áður en kjöt er eldað er að ná því fyrst upp í stofuhita. Þá styttist eldunartíminn og verður jafnari. Til að kjötið brúnist sem best er gott að salta það með flögusalti 5–10 mín. fyrir eldun.

Þetta er gert til þess að þurrka yfirborð kjötbitans og með því móti brúnast það betur og hraðar (fyrir grillnördana þá er hér um að ræða svokallað Maillard reaction).

Mjög mikilvægt er að hvíla kjöt eftir að það kemur af grillinu til að lágmarka vökvatap. Mikil spenna myndast í bita sem er grillaður á háum hita vegna hitamuns á yfirborði og í kjarna.

Eina leiðin til að minnka þessa spennu er að leyfa því að hvíla. Lambalæri skal t.d. hvíla í minnst 10–15 mín. áður en það er skorið.

Hvíldartíminn er breytilegur eftir stærð kjötbitans og hitastigi sem var eldað við. Léttari biti þýðir styttri hvíld eftir eldun. Eftir því sem eldunarhiti í grilli eða ofni er lægri lækkar hvíldartíminn sömuleiðis.

Forðist að krydda kjöt með pipar áður en það er grillað því pipar brennur við háan hita. Best er að krydda með pipar eftir að grillun hefur átt sér stað.

Hrásalat

Hvítkál
Rauðkál
Eplaedik
Skógarkerfill
Matarolía
Salt

Saxið kálið eins fínt og þið getið og setjið í skál, bætið ediki og salti í eftir smekk og smá slettu af olíu, látið standa í skálinni á meðan þið grillið kjötið. Saxið jurtirnar í lokin og bætið í.

Jalapeno-lime majo

4 dl gott majones
2–3 msk. súrsaður jalapeno pipar
1 lime
Salt

Saxið eða maukið jalapeno-piparinn og blandið við majones ásamt safanum úr lime, saltið og smakkið til.

Lambaspjót

800 g beinlaust lambakjöt
4 hvítlauksrif
1⁄2 dl matarolía
2–3 kvistar garðablóðberg
8 stk. snakkpaprika

Skerið kjötið í nokkra bita sem eiga helst að vera jafn þykkir og paprikurnar, merjið hvítlaukinn og setjið í skál með olíu og garðablóðbergi.

Bætið kjötinu í, veltið upp úr olíunni og látið standa í stofuhita í 30 mínútur (má líka geyma í kæli yfir nótt). Þræðið kjöt og paprikur á grillspjót, saltið og grillið eftir smekk. Látið hvíla í um 5 mínútur áður en þið berið fram.

Lausn á vísnagátu
Líf&Starf 24. nóvember 2025

Lausn á vísnagátu

Lausnin á vísnagátu Guðbjörns Sigurmundssonar í síðasta Bændablaði er orðið mál.

Skákmánuðurinn janúar
Líf&Starf 3. febrúar 2025

Skákmánuðurinn janúar

Janúarmánuður hefur lengi verið frekar stór skákmánuður á Íslandi. Í þeim mánuði...

Þörfnumst heilbrigðara sambands við tímann
Líf&Starf 13. desember 2024

Þörfnumst heilbrigðara sambands við tímann

Carl Honoré, sem gjarnan hefur verið kallaður rödd alþjóðlegu Hæglætishreyfingar...

Sækja áhrif til Suður-Evrópu
Líf&Starf 9. október 2024

Sækja áhrif til Suður-Evrópu

Í síðustu úthlutun Matvælasjóðs fengu bændur í Syðra-Holti í Svarfaðardal rúmleg...

Brautryðjandi í búskap með íslenska hesta í Noregi
Líf&Starf 14. ágúst 2024

Brautryðjandi í búskap með íslenska hesta í Noregi

Ingebjørg Helkås Vaa fæddist í Noregi 14. júlí 1933, yngst fimm systkina. Hún va...

Stjörnuspá vikunnar
Líf&Starf 2. júlí 2024

Stjörnuspá vikunnar

Vatnsberinn veit vart í hvorn fótinn hann á að stíga þessa dagana. Lífið virðist...

Heitt poppkorn er hollt sælgæti!
Líf&Starf 10. maí 2022

Heitt poppkorn er hollt sælgæti!

Svo hljóðaði auglýsing er birtist á síðu Morgunblaðsins í júlílok árið 1968 - en...

Lesning fyrir heilabilaða
Líf&Starf 4. maí 2022

Lesning fyrir heilabilaða

Þegar ég setti saman bókina Í húsi afa míns sem kom út fyrir tólf árum, hvarflað...

https://bestun.airserve.net/banner_bundles/de3e87e0d8dde67f98882b3ac12f8b2f