Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 3 ára.
Grillaður grísahnakki með grilluðum maís, heimalagaðri BBQ sósu, bökuðum rauðlauk og kartöflubátum.
Grillaður grísahnakki með grilluðum maís, heimalagaðri BBQ sósu, bökuðum rauðlauk og kartöflubátum.
Matarkrókurinn 30. júní 2022

Grillaður grísahnakki fyrir fjóra

Höfundur: Hafliði & Halldór

Við stefnum á að gefa lesendum blaðsins hugmyndir að einföldum og bragðgóðum mat með íslensk hráefni í öndvegi en erum líka óhræddir við að sækja innblástur í erlend eldhús.

Við munum fylgja árstíðunum af fremsta megni og minna á hátíðir og hefðir í bland við afslappaðan heimilismat. Í júní er samt augljóst hvar okkur ber fyrst niður.

Sumarið er tíminn fyrir allt mögulegt grillað, hvort sem það er heima eða í útilegum á landinu fagra. Kjöt, fisk og gómsætt grænmeti má grilla með ýmsum hætti og á grillinu má líka baka brauð og jafnvel kökur. Sumt hráefni er snöggeldað á háum hita, þegar annað nýtur sín betur á lægri hita og einnig er hægt að nota grillið á líkan hátt og ofn. Þá er notast við óbeinan hita, þ.e. að ekki logi á grillinu beint undir hráefninu.

Margir spyrja um eldunartíma á hráefnum á grilli, hvort eigi að láta einhvern bita vera 2 mín. á hvorri hlið eða kannski 3-4 mín.? Í sannleika sagt þá er ekki til gott svar við þessu vegna þess að það er svo mörgu ósvarað um aðstæður á nákvæmlega ykkar grilli, stað og stund. Hitastig grillsins, útihitastig, vindur, þykkt og þyngd hráefna.

Þess vegna er lykilatriði við eldun á steikum að notast við kjöthitamæli sem við mælumst til að allir temji sér að nota. Með því að fylgjast með hitastiginu vinnst þrennt, að útkoman verði í samræmi við væntingar og grillarinn fái sitt verðskuldaða hrós frá matargestunum. Í öðru lagi er hreinn sparnaður í því að nota kjöthitamæli, því það er óskemmtilegt að fara illa með gott og dýrt hráefni. Í þriðja lagi er öryggi í því að tryggja að hráefnin
séu nægjanlega elduð, en það vilja fæstir hálfhráan kjúkling svo dæmi sé tekið.

Íslenskt grísakjöt, ferskt og gott er í eldlínunni í okkar fyrsta pistli, við veljum safaríkan grísahnakka sem inniheldur næga fitu til að vera afbragðs grillsteik. Best er að velja þykkar sneiðar og marinera í 1-2 tíma fyrir eldun.

Grillaður grísahnakki með rósmarín og chili

800 g grísahnakki
50 ml sólblómaolía
2 kvistar ferskt íslenskt rósmarín, rifið af stilknum
1⁄2 tsk. þurrkaðar chiliflögur (má nota duft)

Byrjið á að marinera kjötið í olíu með rósmarín og þurrkuðum chili í 1-2 klst. á meðan þið lagið meðlæti og sósu. Þerrið fyrir eldun, saltið ríkulega og látið standa í nokkrar mín. Grillið á meðalhita þar til kjarnhiti nær 70°C.

Látið hvíla í 10-15 mín. áður en steikin er skorin.

Bakaðir kartöflubátar

2-3 bökunarkartöflur
3 msk. sólblómaolía

Þvoið og þerrið kartöflur og skerið í grófa báta og setjið í eldfast mót, veltið upp úr olíu, saltið og eldið í eldföstu móti á grillinu eða í ofni í um það bil 30 mín., eða þar til þær eru eldaðar í gegn. Piprið með nýmulnum svörtum pipar.

Bakaður rauðlaukur

2 heilir rauðlaukar

Það er hreinasta svindl hvað þetta er auðvelt og gott, við eldunina verður laukurinn sætur og góður, hýðið tryggir að allur safinn helst í lauknum.

Setjið heila lauka í hýðinu á grillið t.d. í bakka með kartöflunum og eldið þar til laukurinn er mjúkur í gegn. Skerið í tvennt og berið fram.

Grillaðir maískólfar

2-3 maískólfar
1 msk. sólblómaolía
30 g smjör

Maískólfa er stundum hægt að fá ferska, þá með hýðinu, og taka um 20 mín. í eldun á heitu grilli. Algengara er að nota frosna maískólfa, sem er tilvalið að taka í tvennt, pensla með olíu og grilla í 2-3 mín. og smyrja svo með ögn af smjöri og saltaðir áður en þeir eru bornir fram.

Heimalöguð BBQ sósa

2 msk. sólblómaolía
1 laukur saxaður fínt
3 hvítlauksgeirar, kramdir
500 ml tómatsósa
100 ml Worcestershire sósa
75 ml sítrónusafi
2 msk. púðursykur
1 msk. malt edik (eða annað dökkt edik)
2 msk. Dijon sinnep
1 tsk. chili flögur
1 tsk. Tabasco sósa
1 tsk. þurrkað timían

Þið munið tæpast kaupa BBQ sósu í búð eftir að hafa prófað að gera ykkar eigin sósu, sem er mjög auðvelt og geymist nánast endalaust í kæli.

Of oft eru BBQ sósur alltof sætar fyrir okkar smekk en því má stjórna með því að leika sér með magnið af sykri og ediki.

Mýkið lauk í olíu í potti á meðalhita í 3-4 mín., bætið öllu út í og sjóðið í 20 mínútur, hrærið reglulega og passið að brenni ekki. Maukið í blandara eða með töfrasprota.

Skylt efni: matarkrókur | grísahnakki

Lausn á vísnagátu
Líf&Starf 24. nóvember 2025

Lausn á vísnagátu

Lausnin á vísnagátu Guðbjörns Sigurmundssonar í síðasta Bændablaði er orðið mál.

Skákmánuðurinn janúar
Líf&Starf 3. febrúar 2025

Skákmánuðurinn janúar

Janúarmánuður hefur lengi verið frekar stór skákmánuður á Íslandi. Í þeim mánuði...

Þörfnumst heilbrigðara sambands við tímann
Líf&Starf 13. desember 2024

Þörfnumst heilbrigðara sambands við tímann

Carl Honoré, sem gjarnan hefur verið kallaður rödd alþjóðlegu Hæglætishreyfingar...

Sækja áhrif til Suður-Evrópu
Líf&Starf 9. október 2024

Sækja áhrif til Suður-Evrópu

Í síðustu úthlutun Matvælasjóðs fengu bændur í Syðra-Holti í Svarfaðardal rúmleg...

Brautryðjandi í búskap með íslenska hesta í Noregi
Líf&Starf 14. ágúst 2024

Brautryðjandi í búskap með íslenska hesta í Noregi

Ingebjørg Helkås Vaa fæddist í Noregi 14. júlí 1933, yngst fimm systkina. Hún va...

Stjörnuspá vikunnar
Líf&Starf 2. júlí 2024

Stjörnuspá vikunnar

Vatnsberinn veit vart í hvorn fótinn hann á að stíga þessa dagana. Lífið virðist...

Heitt poppkorn er hollt sælgæti!
Líf&Starf 10. maí 2022

Heitt poppkorn er hollt sælgæti!

Svo hljóðaði auglýsing er birtist á síðu Morgunblaðsins í júlílok árið 1968 - en...

Lesning fyrir heilabilaða
Líf&Starf 4. maí 2022

Lesning fyrir heilabilaða

Þegar ég setti saman bókina Í húsi afa míns sem kom út fyrir tólf árum, hvarflað...