Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 4 mánaða.
Greinandi og afhjúpandi rödd Ernaux
Líf og starf 7. júlí 2025

Greinandi og afhjúpandi rödd Ernaux

Höfundur: Þröstur Helgason

Enn af þýðingum og aftur kemur Þórhildur Ólafsdóttir við sögu hér í Hriflunni. Fyrr á þessu ári sendi Þórhildur nefnilega frá sér þriðju þýðinguna á skáldsögu eftir franska Nóbelskáldið Annie Ernaux. Að þessu sinni kom út Atburðurinn, en áður höfðu komið Ungi maðurinn og Kona en Rut Ingólfsdóttir hefur þýtt fjórðu skáldsöguna sem komið hefur út eftir Ernaux á íslensku, Staðinn.

Hnitmiðaðir titlarnir á þessum bókum Ernaux vekja athygli. Þeir kallast á við form bókanna sem er einnig meitlað. Ég kalla bækurnar hér skáldsögur en í raun eru þær allar útleggingar á og af reynslu höfundarins, atburðum sem hún hefur lent í, fólki sem hún hefur þekkt og staðina sem það tilheyrir í hinu fastmótaða samfélagi Frakklands. Félagslegur veruleiki er alltaf nálægur í bókum Ernaux, stétt og staða fólks. Þetta eru greinandi textar þótt þeir noti umfram allt sagnaformið til þess að rannsaka og komast að niðurstöðu um efnið sem er afmarkað í titlunum. Rannsókn er raunar ekki fjarri lagi sem tegundarheiti þessara skrifa Ernaux því þau eru tiltölulega laus við tilfinningasemi. Sjónarhornið er vissulega persónulegt en Ernaux skrifar ekki til þess að vekja samúð eða önnur tilfinningaleg viðbrögð heldur spurningar og skilning, stundum á grimmilega nærgöngulegan hátt við sjálfa sig og sitt nánasta fólk.

Hún veltir þessu fyrir sér í Atburðinum: „Fyrst og fremst mun ég reyna að fara vandlega ofan í hverja mynd sem ég hef í huga mér. Alveg þangað til mér finnst ég vera búin að „komast inn í hana“ líkamlega, þar til einhver orð birtast og ég get sagt um þau: „Já, það var nákvæmlega svona.““

Atburðurinn sem titillinn vísar til er fóstureyðing höfundar árið 1963. Hún var ríflega tvítugur háskólanemi sem verður þunguð eftir stutt kynni og stendur ein uppi með þá ákvörðun að vilja eyða fóstrinu. Erfiðleikarnir hrannast upp, eins og stendur framarlega í bókinni þegar unga konan reynir að finna lækni sem er tilbúinn til að framkalla þá ólöglega fóstureyðinguna. Þessi leit verður í raun að leit hennar að leið til þess að lifa því lífi sem hún vildi lifa, barátta ungrar konu fyrir rétti sínum til þess að verða sú sem hún vildi verða. Vonleysið er á köflum yfirþyrmandi, einnig óttinn og skömmin. Ernaux rannsakar allar þessar tilfinningar hjá ungu konunni en skoðar líka samfélagsskipulagið sem skapar þær.

Greinandi og afhjúpandi rödd Ernaux er sannarlega einstök i bókmenntum samtímans. Það er óhætt að mæla með lestri á þessari bók sem öllum öðrum eftir hana.

***

Stuttlega er svo ástæða til að benda á enn eina þýddu bókina sem komið hefur út á síðustu vikum. Fyrsti bjórsopinn og fleiri smálegar lífsnautnir heitir þýðing á stuttri og snjallri esseyjubók eftir Philippe Delerm sem Friðrik Rafnsson hefur þýtt. Bókin inniheldur stutta kafla um upplifanir hversdagsins, eins og það er kallað í káputexta. Þetta eru upplifanir sem flestir lesendur kannast við þótt í einstaka tilvikum sé um sérfranska reynslu að ræða. Eftirminnilegustu textarnir fjalla um erfiðleikana við að lesa á ströndinni, munaðinn að lesa dagblaðið yfir morgunmatnum sem kannski æ færri upplifa hér á landi af augljósum ástæðum og svo önnur fortíðarupplifun sem er að hringja úr símaklefa. Bókin er fyndin og upplífgandi aflestrar.

Lausn á vísnagátu
Líf&Starf 24. nóvember 2025

Lausn á vísnagátu

Lausnin á vísnagátu Guðbjörns Sigurmundssonar í síðasta Bændablaði er orðið mál.

Skákmánuðurinn janúar
Líf&Starf 3. febrúar 2025

Skákmánuðurinn janúar

Janúarmánuður hefur lengi verið frekar stór skákmánuður á Íslandi. Í þeim mánuði...

Þörfnumst heilbrigðara sambands við tímann
Líf&Starf 13. desember 2024

Þörfnumst heilbrigðara sambands við tímann

Carl Honoré, sem gjarnan hefur verið kallaður rödd alþjóðlegu Hæglætishreyfingar...

Sækja áhrif til Suður-Evrópu
Líf&Starf 9. október 2024

Sækja áhrif til Suður-Evrópu

Í síðustu úthlutun Matvælasjóðs fengu bændur í Syðra-Holti í Svarfaðardal rúmleg...

Brautryðjandi í búskap með íslenska hesta í Noregi
Líf&Starf 14. ágúst 2024

Brautryðjandi í búskap með íslenska hesta í Noregi

Ingebjørg Helkås Vaa fæddist í Noregi 14. júlí 1933, yngst fimm systkina. Hún va...

Stjörnuspá vikunnar
Líf&Starf 2. júlí 2024

Stjörnuspá vikunnar

Vatnsberinn veit vart í hvorn fótinn hann á að stíga þessa dagana. Lífið virðist...

Heitt poppkorn er hollt sælgæti!
Líf&Starf 10. maí 2022

Heitt poppkorn er hollt sælgæti!

Svo hljóðaði auglýsing er birtist á síðu Morgunblaðsins í júlílok árið 1968 - en...

Lesning fyrir heilabilaða
Líf&Starf 4. maí 2022

Lesning fyrir heilabilaða

Þegar ég setti saman bókina Í húsi afa míns sem kom út fyrir tólf árum, hvarflað...