Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 1 árs.
Á Austurlandi er nú unnið að verkefninu Vatnaskil. Verkefninu er ætlað að efla nýsköpun og stuðla að fjölbreyttara atvinnulífi í dreifbýli á Austurlandi. Myndin er frá Reyðarfirði.
Á Austurlandi er nú unnið að verkefninu Vatnaskil. Verkefninu er ætlað að efla nýsköpun og stuðla að fjölbreyttara atvinnulífi í dreifbýli á Austurlandi. Myndin er frá Reyðarfirði.
Mynd / sá
Fréttir 3. október 2024

Grasrótin gaumgæfir atvinnulíf og nýsköpun

Höfundur: Steinunn Ásmundsdóttir

Verkefnið Vatnaskil á Austurlandi miðar að því að efla nýsköpun og stuðla að fjölbreyttara atvinnulífi í dreifbýli á Austurlandi. Sérstök áhersla er lögð á að skapa tækifæri fyrir ungt fólk.

Verkefnið er unnið á grunni Svæðisskipulags Austurlands 2022–2044 þar sem m.a. er kveðið á um að landbúnaður verði áfram ein af lykilatvinnugreinum landshlutans.

Páll Baldursson.
Hjartað slær í sveitinni

„Vatnaskil er verkefni sem fékk styrk úr byggðaáætlun 2023 og er unnið í samvinnu við Félag ungra bænda á Austurlandi og Búnaðarsamband Austurlands,“ segir Páll Baldursson, verkefnastjóri hjá Austurbrú. Hann segir verkefninu ætlað að efla nýsköpun og stuðla að fjölbreyttara atvinnulífi í dreifbýli á Austurlandi og þá með sérstakri áherslu á að horfa á tækifæri fyrir ungt fólk.

Vatnaskil hófust með samráðsfundi á Eiðum í ágúst í fyrra undir yfirskriftinni „Hjarta mitt slær í sveitinni – samtal um framtíðartækifæri í sveitum Austurlands“. Þátttaka fór að sögn Páls fram úr björtustu vonum og mættu um 60 manns af öllu Austurlandi. Þátttakendur lögðu sjálfir fram umræðuefnin. Var m.a. kallað eftir ábendingum um hvað mætti bæta varðandi innviði á Austurlandi en þar voru samgöngur efstar á blaði; nýframkvæmdir, endurbætur og viðhald en einnig net- og farsímasamband og þriggja fasa rafmagn. Huga þurfi sérstaklega að ógnum vegna náttúruvár sem gæti haft áhrif á innviði, t.d. vatnsból. Afurð samráðsfundarins var m.a. áhugaverð skýrsla sem ILDI, þjónusta og ráðgjöf, sem hafði umsjón með samráðsfundinum, tók saman og má finna á vef Austurbrúar.

Rúm fyrir fleiri í kornrækt

Í tengslum við Vatnsaskil var að sögn Páls fundað um ræktun á Austurlandi. Var sjónum einkum beint að almennri ræktun, þeim tækifærum sem geta verið í lífrænni ræktun og svo í þriðja lagi kornrækt.

Eygló Björk Ólafsdóttir í Vallanesi og formaður Vor, félags framleiðenda í lífrænum búskap, hafði framsögu um þau tækifæri sem fyrir hendi eru í lífrænni ræktun. Sigurður Max Jónsson, ráðunautur RML, fór yfir stöðu ræktarlands á Austurlandi ásamt stöðu kornræktar á svæðinu og að lokum sagði Eymundur Magnússon í Vallanesi frá langri reynslu sinni af kornrækt en í máli hans kom m.a. fram að hann teldi rými á markaðnum fyrir fleiri í kornrækt til manneldis.

Hópar ræddu sérstaklega um mikilvægi skjólbeltaræktunar og þýðingu skjólbelta fyrir ræktun. Þá komu hugmyndir stjórnvalda um stuðning við aukna kornrækt og stuðningskerfi til umræðu. Í umræðum um ræktun almennt kom m.a. fram að talsverð vöntun væri á þekkingu á gróðurhúsaræktun á Austurlandi. Þátttakendur veltu fyrir sér styrkleikum Austurlands í grænmetisræktun. Mjög mikið væri t.d. ræktað af kartöflum og það væri gríðarlega mikilvægur vöruflokkur fyrir Íslendinga ef til fæðuskorts kæmi.

Bæta þarf aðstæður til matvælaþróunar

Þá segir Páll að jafnframt hafi verið haldinn fundur um austfirsk matvæli og áskoranir og tækifæri sem eru í fullvinnslu á austfirsku hráefni.

Sem dæmi um það sem borið hafi á góma var regluverk í matvælaframleiðslu og að það væri oft flókið og erfitt viðureignar. Ákall var um betri aðstöðu til að vinna að þróun matvæla, þ.e. að tækjabúnaður væri til staðar og í lagi. Fundargestir fögnuðu tækifærinu til að hittast og mikill vilji er til að halda því áfram og skapa þannig sterk tengsl á milli framleiðenda. Í þessu samhengi var Matarmóti Austurlands, sem haldið hefur verið árlega síðustu haust, hampað mjög. Jafnframt ræddi fundurinn hlutverk verslana í uppbyggingu austfirskrar matvælaframleiðslu og voru fundarmenn sammála um að það væri erfitt að koma vörum inn í stærri verslanir. Finna þyrfti leiðir til að bæta úr því. Er vonast til að með auknu samtali og upplýsingagjöf milli fólks sem brennur fyrir austfirskri matvælagerð megi skapa vettvang til samstarfs og frekari atvinnusköpunar.

Páll segir að í framhaldinu verði fundað um málefni eins og t.d. vatnsból, orkuöflun og orkuskipti og börn og jöfn tækifæri til sveita.

Skylt efni: austurland

Lausn á vísnagátu
Líf&Starf 24. nóvember 2025

Lausn á vísnagátu

Lausnin á vísnagátu Guðbjörns Sigurmundssonar í síðasta Bændablaði er orðið mál.

Skákmánuðurinn janúar
Líf&Starf 3. febrúar 2025

Skákmánuðurinn janúar

Janúarmánuður hefur lengi verið frekar stór skákmánuður á Íslandi. Í þeim mánuði...

Þörfnumst heilbrigðara sambands við tímann
Líf&Starf 13. desember 2024

Þörfnumst heilbrigðara sambands við tímann

Carl Honoré, sem gjarnan hefur verið kallaður rödd alþjóðlegu Hæglætishreyfingar...

Sækja áhrif til Suður-Evrópu
Líf&Starf 9. október 2024

Sækja áhrif til Suður-Evrópu

Í síðustu úthlutun Matvælasjóðs fengu bændur í Syðra-Holti í Svarfaðardal rúmleg...

Brautryðjandi í búskap með íslenska hesta í Noregi
Líf&Starf 14. ágúst 2024

Brautryðjandi í búskap með íslenska hesta í Noregi

Ingebjørg Helkås Vaa fæddist í Noregi 14. júlí 1933, yngst fimm systkina. Hún va...

Stjörnuspá vikunnar
Líf&Starf 2. júlí 2024

Stjörnuspá vikunnar

Vatnsberinn veit vart í hvorn fótinn hann á að stíga þessa dagana. Lífið virðist...

Heitt poppkorn er hollt sælgæti!
Líf&Starf 10. maí 2022

Heitt poppkorn er hollt sælgæti!

Svo hljóðaði auglýsing er birtist á síðu Morgunblaðsins í júlílok árið 1968 - en...

Lesning fyrir heilabilaða
Líf&Starf 4. maí 2022

Lesning fyrir heilabilaða

Þegar ég setti saman bókina Í húsi afa míns sem kom út fyrir tólf árum, hvarflað...

https://bestun.airserve.net/banner_bundles/de3e87e0d8dde67f98882b3ac12f8b2f