Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 5 ára.
Mikið úrval fallegra trjáa og annarra plantna er að finna hér. Myndir Kristján Friðbertsson.
Mikið úrval fallegra trjáa og annarra plantna er að finna hér. Myndir Kristján Friðbertsson.
Á faglegum nótum 26. maí 2020

Grasagarður Al Capone?

Höfundur: Kristján Friðbertsson

Um 40 km frá miðborg Chicago má finna þennan veglega grasagarð sem stofnaður var árið 1972. Því miður var Al Capone þá löngu látinn, svo hann náði ekki að heimsækja þennan fínan garð á sínum heimaslóðum. Það mætti næstum því kalla þetta vatnsgarð, því vatn spilar hér svo stórt hlutverk.

Kristján "Capone" Friðbertsson.

Garðurinn er í raun samansafn 2,5 milljón plantna í 27 görðum sem dreifast yfir níu eyjar á rúmum 150 hekturum undir þessu nafni. Aðgangur að garðinum er frír og hér er opið allt árið.

Samstarf garðsins við menntastofnanir er mikið en einnig er áhersla á að fræða gestina og sést það víða um garðinn. Einn hluti er t.d. tekinn undir ræktun ávaxta og grænmetis og er hægt að kynna sér ræktunaraðferðir og möguleika varðandi vaxtarmótun og fleira gagnlegt þar. Þessi nálgun er um margt aðdáunarverð, að geta miðlað reynslu og þekkingu með þessum skýra hætti til forvitinna gesta.

Lágvaxinn en langur gosbrunnur brýtur upp göngusvæði milli tveggja garða.

Matvælaræktun

Einstaklingur sem veltir fyrir sér að hefja ræktun á grænmeti eða ávöxtum í eigin garði getur heimsótt þann hluta grasagarðsins, rölt um svæðið og velt fyrir sér hvaða nytjajurtir henta best. Þarna fær viðkomandi t.d. upplýsingar um hvaða ávaxtayrki hafa reynst vel í nágrenninu um langa hríð, sem og hvaða rótarstofnar gætu verið heppilegastir. Þetta getur oft reynst mun betur en að treysta sölumanni með stóran lager af plöntum sem eru jafnvel óheppilegar fyrir þennan einstakling. Hvernig á svo að stýra vexti til að hámarka nytjar, nýta sem best plássið sem þú hefur, verjast óværum, velja saman ólíkar tegundir?

Eplatré vaxtarstýrt sem veggtré eftir „espalier“ forminu.

Þarna má einnig finna svæði sem veitir almennt hugmyndir og ráð varðandi ræktun plantna á óhentugum svæðum eða jafnvel án eiginlegs garðs. Enn fremur ábendingar varðandi hin ýmsu áhöld, umhverfismál og náttúruna almennt. Skilti sem veita ekki bara upplýsingar um plöntur, heldur einnig heppilegar samsetningar í görðum, hugmyndir um lita­palettur, áferð o.fl.

Samsett mynd af vatnaliljum, sem sýnir þær jafnt blómstrandi sem og með knúpa, ásamt því að sýna vatnaliljublöð (diska) sem hafa opnast sem og eitt sem á eftir að opnast.

Dæmi um upplýsingaskilti sem hjálpar til með litaval í garðinum situr t.d. við blöndu rauðfjólublárrar dahliu, lime litaðrar Iresine herbstii, fjólubláa ilmexir (agastache) og gult flauelsblóm. Skiltin skýra þá m.a. af hverju þessi samsetning lita og áferða gæti verið heppileg í garðinum. Hér er yfirhöfuð mjög áberandi áhersla á að veita almenningi víðfeðma fræðslu, með praktíska nálgun.

Á vatnalilju blómknúp, drekafluga lenti. Ljósmyndunar happ mig henti.

Skýjasnyrting er ekki bara flugvélaklósett

Svo margir hlutar þessa garðs eru jafnt áhugaverðir sem og fallegir að heimsækja. Mig langar að nefna sérlega fallega Japansgarðinn þeirra. Indælt að rölta um í rólegheitunum, skoða, njóta og láta hugann reika. Þar má finna mörg dæmi um það sem nefnist á ensku „cloud pruning“, trjáformun sem gæti þá útlagst á íslensku sem „skýjasnyrting“. Aðferð sem sumir vilja meina að gangi frekar út á að finna innri sál trjáplöntunnar en að fjarlægja dauðar greinar. Skýjasnyrting er oft notuð til að láta tré líta út eldri, eða hið minnsta að þau virðist hafa átt mun áhugaverðara líf en þau hafa í raun átt, jafnvel með áherslu á óvenjulegan greinavöxt.

Samsett mynd af útsýni að eyjum Japansgarðs og öðru vatni sem skilur að eyjar grasagarðsins.

Á þessum slóðum er einnig gott að íhuga heimsókn í Morton trjásafnið (e. arboretum) sem spannar um sjö km2 af fallegri náttúru, ekki svo fjarri garðinum.
https://www.chicagobotanic.org/
http://www.mortonarb.org/ 

Lausn á vísnagátu
Líf&Starf 24. nóvember 2025

Lausn á vísnagátu

Lausnin á vísnagátu Guðbjörns Sigurmundssonar í síðasta Bændablaði er orðið mál.

Skákmánuðurinn janúar
Líf&Starf 3. febrúar 2025

Skákmánuðurinn janúar

Janúarmánuður hefur lengi verið frekar stór skákmánuður á Íslandi. Í þeim mánuði...

Þörfnumst heilbrigðara sambands við tímann
Líf&Starf 13. desember 2024

Þörfnumst heilbrigðara sambands við tímann

Carl Honoré, sem gjarnan hefur verið kallaður rödd alþjóðlegu Hæglætishreyfingar...

Sækja áhrif til Suður-Evrópu
Líf&Starf 9. október 2024

Sækja áhrif til Suður-Evrópu

Í síðustu úthlutun Matvælasjóðs fengu bændur í Syðra-Holti í Svarfaðardal rúmleg...

Brautryðjandi í búskap með íslenska hesta í Noregi
Líf&Starf 14. ágúst 2024

Brautryðjandi í búskap með íslenska hesta í Noregi

Ingebjørg Helkås Vaa fæddist í Noregi 14. júlí 1933, yngst fimm systkina. Hún va...

Stjörnuspá vikunnar
Líf&Starf 2. júlí 2024

Stjörnuspá vikunnar

Vatnsberinn veit vart í hvorn fótinn hann á að stíga þessa dagana. Lífið virðist...

Heitt poppkorn er hollt sælgæti!
Líf&Starf 10. maí 2022

Heitt poppkorn er hollt sælgæti!

Svo hljóðaði auglýsing er birtist á síðu Morgunblaðsins í júlílok árið 1968 - en...

Lesning fyrir heilabilaða
Líf&Starf 4. maí 2022

Lesning fyrir heilabilaða

Þegar ég setti saman bókina Í húsi afa míns sem kom út fyrir tólf árum, hvarflað...