Góður bíll – punktur!
Að þessu sinni er tekinn fyrir hinn nýi Kia EV3 rafmagnsbíll. Þetta er fólksbíll af svipaðri lengd og Volkswagen Golf, en hærri og breiðari. EV3 mun leysa af hólmi Kia Niro og Soul.
Hönnun bílsins að utan er sérlega vel heppnuð og telur undirritaður sennilegt að innblástur hafi verið sóttur í klassíska evrópska hlaðbaka frá árunum í kringum 1980. Rétt eins og þá hefur svart stuðaraplast verið notað af mikilli smekkvísi til að gera útlit bílsins áhugaverðara. Bíllinn er jafnframt kubbslegur og eru felgurnar látnar líta út fyrir að vera átthyrndar. Útlit EV3 er nútímalegt og ferskt, rétt eins og hjá öðrum nýjum bílum frá Kia um þessar mundir. Mjög skýr líkindi eru á milli EV3 og hins stóra rafmagnsjeppa Kia EV9.
Um leið og sest er um borð finnst að Kia EV3 er heilt yfir góður bíll og hefur framleiðandinn legið yfir öllum smáatriðum. Vel er hugsað um ökumann og farþega og umhverfið vistlegt. Bíllinn sem lagður var til í þennan prufuakstur var af gerðinni Luxury, sem situr fyrir neðan dýrustu týpuna GT-Line og ofan við millitýpuna Earth. Allar þessar gerðir eru álitlegar, en jafnvel þó svo að valin sé ódýrasta útgáfan, sem nefnist Air, fæst nóg af staðalbúnaði.
Sæti í góðri hæð
Aðgengið í bílinn er með allra besta móti, en sætin eru í þeirri hæð að hvorki þarf að príla né leggjast í jörðina. Framsætin eru rúmgóð, en bílstjórasætið er stillt með rafmagni á meðan farþegasætið er stillt handvirkt. Plássið í aftursætunum er ekki það ríflegasta og mætti ekki vera minna til þess að hávaxnir fullorðnir einstaklingar geti setið þar. Fóta- og hnépláss rétt sleppur þó svo að framsætin hafi verið færð í öftustu stöðu en þakið mætti ekki vera lægra fyrir fullorðna aftursætisfarþega. Skottið er ekki óhemju rúmgott, en það er ágætlega kassalaga, með flatt gólf og er skotthlerinn stór. Aftursætin leggjast niður flöt og flútta við gólfið
Innréttingin er afar opin og er djúpt geymslutrog í gólfhæð með tveimur glasahöldurum. Þar fyrir framan er bakki með þráðlausa hleðslu fyrir síma. Á milli sætanna er armhvíla og er hægt að draga úr henni litla borðplötu. Yfirborð plötunnar er mjög sleipt og ekki hægt að geyma hluti þar í akstri. Fremst á borðinu eru takkar til að fá upp myndavélar og til að slökkva á fjarlægðarskynjurunum. Í Air og Earth útgáfunum af EV3 er áðurnefndu borði sleppt og í staðinn er geymsluhólf undir armhvílunni.
Stærðarinnar skjár
Upp úr hálfri innréttingunni kemur langur skjár sem er skipt niður í þrjá hluta. Framan við ökumanninn er upplýsingaskjár með hraðamæli, aksturstölvu og fleiru. Hægra megin við það er lítill rammi sem er snertiskjár þar sem öllu er stjórnað fyrir miðstöðina. Fyrir miðja innréttingu er síðan hefðbundinn snertiskjár þar sem hægt er að sjá leiðsögukerfið, útvarpið og ýmsar stillingar bílsins. Stýrikerfið er til fyrirmyndar og fallegt á að líta. Helst er hægt að gagnrýna að skjárinn fyrir miðstöðina er staðsettur í hvarfi við stýrishjólið og þarf ökumaðurinn því að teygja álkuna aðeins til hliðar til að sjá hvað er í gangi þar.
Neðan við snertiskjáinn er takkaborð með flýtilyklum til að fara á milli ólíkra valmynda á skjánum. Þar fyrir neðan er skrunhjól til að hækka og lækka í útvarpinu. Neðan við það má finna hefðbundna takka til að stilla hita og blástur. Í stýrinu eru takkar fyrir skynvædda hraðastillinn, sjálfstýringuna, útvarp og fleira. Á bak við stýrishjólið eru flipar til að stjórna því hversu mikið viðnám rafmótorinn veitir. Aftan við stýrishjólið er jafnframt stöng með tökkum til að velja akstursstefnu og til að ræsa ökutækið. Enn fremur má finna þar hefðbundnar stangir fyrir ljós og rúðuþurrkur.
Engin spíttkerra en þægilegur
EV3 er óhemju hljóðlátur og einfaldur í akstri. Bíllinn myndi seint teljast sportlegur, en þægindin eru mikil vegna mjúkrar fjöðrunar og er notkunin áreynslulaus. Aflið fer til framhjólanna og er mótorinn kraftmikill, þó svo að þetta sé engin spíttkerra. Ökutækið í þessum prufuakstri var á heilsársdekkjum og heyrðist alltaf dekkjadynur á hærri hraða.
Akstursaðstoðin er afar svipuð því sem er í öðrum bílum frá systurfyrirtækjunum Kia og Hyundai og gefur Tesla ekkert eftir. Mikill kostur er að geta kveikt á hraðastilli og sjálfstýringu hvort í sínu lagi, því við ólíkar aðstæður getur verið gott að velja auðveldlega á milli. Því fylgir nánast ekkert álag að keyra bílinn í þungri umferð, því hann getur séð um aksturinn að mestu leyti sjálfur.
Í Luxury útgáfunni er 360 gráðu myndavél staðalbúnaður og því leikur einn að leggja í þröng stæði. Myndavélin getur jafnframt verið í gangi í akstri, ólíkt mörgum bílum, og því getur snertiskjárinn nýst sem baksýnisspegill. Harman Kardon hljóðkerfi er staðalbúnaður í Luxury útgáfunni og skilar það býsna þéttum tón.
Að lokum
Þessi bíll mun eflaust verða mjög vinsæll, enda heilt yfir góður og á samkeppnishæfu verði. Stærðin er praktísk og öll umgengni þægileg. Akstursdrægnin er ein sú besta sem finnst í venjulegum rafbíl, eða allt að 605 kílómetrar samkvæmt framleiðanda. Miðað við orkunotkunina í þessum prufuakstri ætti það að vera auðvelt að ná 450 til 500 kílómetrum á einni hleðslu í innanbæjarakstri. Rafhlaðan getur tekið allt að 120 kílóvatta straum sem þýðir að hægt er að hlaða frá 10 upp í 80 prósent á hálftíma.
Með rafbílastyrk kostar Kia EV3 Luxury með 81 kílóvatta rafhlöðu 6.890.777 krónur. Ódýrasta útgáfan (Air) með 58 kílóvatta rafhlöðu fæst á 5.290.777 krónur með styrk. Dýrasta gerðin nefnist GT-Line og kostar samkvæmt verðlista 7.590.777 krónur með styrk. Nánari upplýsingar fást hjá bílaumboðinu Öskju.
