Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 4 ára.
„Aldur er bara tala á blaði og að vera hraustur er ekki sjálfsagt.“
„Aldur er bara tala á blaði og að vera hraustur er ekki sjálfsagt.“
Líf og starf 28. september 2021

Gleðin fólgin í því að gleðja aðra!

Höfundur: Sigrún Pétursdóttir

Gaman er að segja frá því að hún Steinunn Grímsdóttir, meinatæknir, göngugarpur og dyggur lesandi Bændablaðsins, tók þá ákvörðun fyrir nokkru að dreifa blaðinu í nærliggjandi hús, enda í því að finna bæði alþýðlegt og fjölbreytt lesefni sem flestir ættu að geta lesið sér til ánægju.

Blaðamaður fór á stúfana og spjallaði við þessa brosmildu, hressu og skemmtilegu konu og hún segir svo frá. „Það vildi þannig til að við hjónin náðum okkur alltaf í blaðið þegar það kom út og þar sem við búum í þjónustuíbúðum voru nokkrir nágrannar sem spurðu mig hvort mögulega væri hægt að kippa eintaki með fyrir sig. Þannig á tímabili var ég að sækja fyrir sjö til níu manns að staðaldri. Ég tel það ekkert eftir mér.

Veistu, það er fullt af fólki hérna sem styðst við göngugrind eða hjólastól, sem kemst ekki sjálft – þannig það skiptir mig engu þó ég sæki nokkur í viðbót. Það er stór hópur fólks sem er hrifið af blaðinu, sumir elska krossgátuna, og allir geta fundið sér eitthvað. Þetta vatt upp á sig og við bættust heilmargir, eða næstum því fimmtíu manns!“ segir Steinunn hlæjandi og sýnir mér lista þar sem nöfn íbúa og íbúðanúmer eru vandlega skrifuð niður. „Þetta er bara skemmtilegt enda hef ég kynnst fullt af fólki fyrir vikið.“

Aldur er bara tala á blaði

Steinunn gengur talsvert mikið, ef til vill að vinna upp liðinn tíma, en að eigin sögn gat hún ekki gengið vegna liðagigtar í tuttugu ár. Eftir að taka fæðuna í gegn, taka meðal annars út papriku, epli, appelsínur, vínber, rauðvín og annað sem mælist „súrt“ þegar kemur að pH-gildi líkamans, þá hleypur hún um rétt eins og unglingur.

„Þegar ég varð sjötug gáfu börnin mín mér úr sem telur skrefin og ætli ég gangi ekki 14–16 þúsund skref daglega að meðaltali. Hef þó farið upp í 20 þúsund!“ En ég lenti nú aldeilis í því í einni gönguferðinni. Þá var ég á gangi með nágrannakonu minni – sem varð mér til lífs því hjartað stoppaði og ég féll og höfuðkúpubrotnaði. Nágrannakonan bjargaði lífi mínu og hringdi beint á 112 enda tímaspursmál þegar svona kemur fyrir.“

Bros að launum

„En ég held ótrauð áfram, mikið er um langlífi í minni ætt þó við eigum það líka til að vera hrakfallabálkar og ég er þakklát fyrir þá góðu heilsu sem ég bý við. Eins og ég segi alltaf; aldur er bara tala á blaði og að vera hraustur er ekki sjálfsagt.

Nú hef ég oft verið spurð að því hvort ég fái laun fyrir að bera svona út Bændablaðið en ég segi – ég fæ ekki peninga, ég hef engan áhuga á því – en fullt af fallegum brosum og þakklæti! Mér finnst það miklu meira virði.“ Steinunn er hin hressasta, telur dreifinguna ekki eftir sér, enda upplagt að sameina hana reglubundnum gönguferðum sínum og hafa nágrannarnir ákaflega gaman af. Þarna má segja að að haldist í hendur iðkun heilsusamlegs lífernis, bæði á sál og líkama. Eitthvað sem allir ættu að hafa í fyrirrúmi enda stór hluti hamingjunnar að gleðja aðra, jafnframt því að hugsa vel um sjálfan sig.

Skylt efni: Bændablaðið | Gleði | Hreyfing

Lausn á vísnagátu
Líf&Starf 24. nóvember 2025

Lausn á vísnagátu

Lausnin á vísnagátu Guðbjörns Sigurmundssonar í síðasta Bændablaði er orðið mál.

Skákmánuðurinn janúar
Líf&Starf 3. febrúar 2025

Skákmánuðurinn janúar

Janúarmánuður hefur lengi verið frekar stór skákmánuður á Íslandi. Í þeim mánuði...

Þörfnumst heilbrigðara sambands við tímann
Líf&Starf 13. desember 2024

Þörfnumst heilbrigðara sambands við tímann

Carl Honoré, sem gjarnan hefur verið kallaður rödd alþjóðlegu Hæglætishreyfingar...

Sækja áhrif til Suður-Evrópu
Líf&Starf 9. október 2024

Sækja áhrif til Suður-Evrópu

Í síðustu úthlutun Matvælasjóðs fengu bændur í Syðra-Holti í Svarfaðardal rúmleg...

Brautryðjandi í búskap með íslenska hesta í Noregi
Líf&Starf 14. ágúst 2024

Brautryðjandi í búskap með íslenska hesta í Noregi

Ingebjørg Helkås Vaa fæddist í Noregi 14. júlí 1933, yngst fimm systkina. Hún va...

Stjörnuspá vikunnar
Líf&Starf 2. júlí 2024

Stjörnuspá vikunnar

Vatnsberinn veit vart í hvorn fótinn hann á að stíga þessa dagana. Lífið virðist...

Heitt poppkorn er hollt sælgæti!
Líf&Starf 10. maí 2022

Heitt poppkorn er hollt sælgæti!

Svo hljóðaði auglýsing er birtist á síðu Morgunblaðsins í júlílok árið 1968 - en...

Lesning fyrir heilabilaða
Líf&Starf 4. maí 2022

Lesning fyrir heilabilaða

Þegar ég setti saman bókina Í húsi afa míns sem kom út fyrir tólf árum, hvarflað...