Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 1 árs.
Hér eru þrjár kynslóðir kvenna sem lærðu að nýta sér jurtir – sú til hægri við Önnu hefur nú hafið framleiðslu lækningasmyrsla eftir uppskriftum námskeiðsins og er mjög spennt fyrir því að stofna fyrirtæki.
Hér eru þrjár kynslóðir kvenna sem lærðu að nýta sér jurtir – sú til hægri við Önnu hefur nú hafið framleiðslu lækningasmyrsla eftir uppskriftum námskeiðsins og er mjög spennt fyrir því að stofna fyrirtæki.
Mynd / Einkaeign
Viðtal 7. desember 2023

Glæta í stríðshrjáðu umhverfi

Höfundur: Sigrún Pétursdóttir

Grasalækningar hafa fylgt mannkyninu um ómunatíð enda sífellt fleiri sem líta jákvæðari augum þennan anga læknisfræðinnar fremur en annan – ef litið er til staðfestrar virkni jurta við hinum ýmsu kvillum.

Það er ekki hægt að segja að það sé gróðursælt í flóttamannabúum Duhok- héraðs enda má helst finna jurtir til grasalækninga á nærliggjandi mörkuðum.

Grasalæknirinn Anna Rósa Róbertsdóttir tók nýverið kunnáttu sína út fyrir landsteinana og stofnaði góðgerðarsamtökin Lífgrös með það fyrir augum að efla konur í flóttamannabúðum Mið-Austurlanda. Nánar tiltekið búðum Duhok héraðs Kúrdistan í Norður-Írak, einu stærsta flóttamannasvæði heimsins, en þar hefur hún staðið fyrir námskeiðum í notkun lækningajurta.

Styrking og sjálfstæði kvenna í fyrirrúmi

Námskeiðin eru hluti verkefnis sem ber nafnið Herbal Sisters og er unnið í samstarfi við kúrdísku samtökin The Lotus Flower, en þau samtök standa fyrir styrkingu sjálfstæðis kvenna og ýta m.a. undir tækifæri þeirra til að læra og fá þannig kost á að ná fjárhagslegu sjálfstæði.

Aðspurð segist Anna Rósa kenna konunum í flóttamannabúðum Kúrdistan að nýta sér jurtir sem má finna í nærumhverfinu, þá helst þær sem seldar eru á mörkuðum, enda sjaldnast sem umhverfið er annað en berangurslegt. Konunum er einnig boðið upp á frían aðgang að netnámskeiðum í grasalækningum og að því námi loknu geti þær sem áhuga hafa, framleitt og selt jurtavörur.

„Aðdragandi þess að ég datt inn í þennan heim var nú upphaflega bara vegna þess að ég var að skoða hitt og þetta á Instagram og fékk köllun ef svo má segja – að þessu fólki gæti ég veitt aðstoð með minni kunnáttu.

Bahar Bahar, ein kvennanna í flóttamannabúðunum sem hefur notið góðs af námskeiðahaldinu.

Í flóttamannabúðum Duhok héraðsins eru tugþúsundir fjölskyldna á flótta frá nærliggjandi héraði, Sinjar héraðinu, sem er um 200 km í burtu. Þarna er á ferð fólk sem ISIS-liðar hafa beitt verulegri hörku og grimmd og það svo mjög að aðfarirnar falla undir skilgreiningu þjóðarmorðs,“ segir Anna Rósa.

Hún segist hafa fundið hjá sér sterka þörf til að verða að liði og þá helst að þekking hennar á lækningajurtum gæti komið sér vel.

Kamilla og brenninetla allra meina bót

Ferðalög á stríðshrjáð svæði eru þó sjaldnast talin skynsamleg en Anna Rósa lét engan bilbug á sér finna þegar ákvörðunin hafði verið tekin.

Innan tveggja mánaða frá því að hún hafði samband við samtökin The Lotus Flower fór hún til Íraks. Eins og staðan er í dag áætlar hún að fara þangað tvisvar sinnum árlega, mánuð í senn, en er nú nýkomin heim eftir aðra för sína til Duhok.

Vegna þess hve stríðshrjáð landið er, er lítið um almenningssamgöngur og komst Anna Rósa því fljótlega í kynni við bílstjórann Bashar. Var sá henni innan handar við ýmislegt og til að mynda gat hann lóðsað hana í gegnum þarlenda markaði til þess að festa kaup á jurtum. Anna Rósa leggur upp með að jurtirnar sem ætlaðar eru til lækninga sé hægt að finna á staðnum, enda lítið gagn í að taka þær með frá Íslandi.

Börn koma jafnan með mæðrum sínum á námskeiðin enda annað ekki í boði í þessum aðstæðum.

„Mér tókst að finna þarna í fyrstu tilraun bæði kamillu og brenninetlu, gerði smyrsl úr því og það tókst svona ljómandi vel. Þessar jurtir eru hvort tveggja miklar lækningajurtir og auðvelt að nálgast í rauninni hvar sem er í heiminum. Mér telst til, eins og staðan er í dag, að 275 konur hafi komið til mín á námskeið og fengið ýmis smyrsl, hóstasaft, hárolíu og verkjaolíu – en þær eru margar hverjar undirlagðar af verkjum. Svo, eins og áður sagði, í framhaldinu geta þær sem vilja komist á netnámskeið hjá einum virtasta skóla grasalækninga, CommonWealth Holistic Herbalism, þar sem námið fer fram á ensku.“

Fjármögnun launa áríðandi

Sem útlendingur í landinu gaf augaleið að til viðbótar við bílstjóra var nauðsyn á túlki. Þá kom til sögunnar háskólamenntuð stúlka frá nærliggjandi bæ, að nafni Eman, sem heillaðist einnig mikið af kunnáttu Önnu Rósu. Hóf hún því fljótlega nám í grasalækningum og miðlar nú, í fjarveru Önnu Rósu, þekkingu sinni á námskeiðum auk þess að útdeila ókeypis lækningavörum sem konurnar hafa annars engin tök á að nálgast. Þess má geta að Eman kýs að vera ógift, en ef svo á að vera krefjast foreldrar hennar þess að hún geti séð fyrir sér sjálf.

Sem stendur vinna þau Bashar bæði í hlutastarfi fyrir Lífgrös á meðan verið er að afla fjár til þess að tryggja laun þeirra næstu sex mánuði.Einhverjum þætti það heldur djúpt í árina tekið að ætla sér að borga tveimur manneskjum full laun í hálft ár auk hráefniskostnaðar sem fylgir námskeiðahaldinu.

Túlkurinn Eman er háskólamenntuð 26 ára gömul kona sem m.a. sinnir kennslu á námskeiðum í fjarveru Önnu Rósu.

Ef betur er á litið og fyrir þá sem áhuga hafa á að kynna sér fjárhagsáætlun Lífgrasa kemur í ljós að þar eru mánaðarlaun Eman og Bashar heilar 120 þúsund krónur á hvort þeirra og hráefniskostnaður 30 þúsund krónur. Samanlagt fyrir hálft ár stendur kostnaðurinn í rétt rúmum 1,6 milljónum króna, ekki fjarri því sem sumir fá í mánaðarlaun hérlendis.

Margt smátt gerir eitt stórt

Anna Rósa er vongóð um að fjármögnunin hafist, en ásamt stjórnarmönnum sínum í Lífgrösum, þeim Hjörleifi Sveinbjörnssyni og Ingibjörgu Birnu Ólafsdóttur, leita þau allra leiða við að uppfylla það markmið.

Áhugasamir mega að sjálfsögðu styrkja verkefnið, en hægt er að kynna sér starfsemina og frekari áætlun á vefsíðunni www.lifsgros. is en þar er hægt að veita styrki allt frá 2.500 krónum og upp í fastar mánaðarlegar greiðslur. Margt smátt gerir eitt stórt enda hægt að treysta því að þeir aurar sem saman safnast fari nákvæmlega þangað sem þeirra er þörf.

„Við hin erum í sjálfboðavinnu bæði hérlendis og í Kúrdistan auk þess sem skrifstofurýmið er nú bara heima í stofu hjá mér,“ segir Anna Rósa grasalæknir.

Skylt efni: grasalækningar

Lausn á vísnagátu
Líf&Starf 24. nóvember 2025

Lausn á vísnagátu

Lausnin á vísnagátu Guðbjörns Sigurmundssonar í síðasta Bændablaði er orðið mál.

Skákmánuðurinn janúar
Líf&Starf 3. febrúar 2025

Skákmánuðurinn janúar

Janúarmánuður hefur lengi verið frekar stór skákmánuður á Íslandi. Í þeim mánuði...

Þörfnumst heilbrigðara sambands við tímann
Líf&Starf 13. desember 2024

Þörfnumst heilbrigðara sambands við tímann

Carl Honoré, sem gjarnan hefur verið kallaður rödd alþjóðlegu Hæglætishreyfingar...

Sækja áhrif til Suður-Evrópu
Líf&Starf 9. október 2024

Sækja áhrif til Suður-Evrópu

Í síðustu úthlutun Matvælasjóðs fengu bændur í Syðra-Holti í Svarfaðardal rúmleg...

Brautryðjandi í búskap með íslenska hesta í Noregi
Líf&Starf 14. ágúst 2024

Brautryðjandi í búskap með íslenska hesta í Noregi

Ingebjørg Helkås Vaa fæddist í Noregi 14. júlí 1933, yngst fimm systkina. Hún va...

Stjörnuspá vikunnar
Líf&Starf 2. júlí 2024

Stjörnuspá vikunnar

Vatnsberinn veit vart í hvorn fótinn hann á að stíga þessa dagana. Lífið virðist...

Heitt poppkorn er hollt sælgæti!
Líf&Starf 10. maí 2022

Heitt poppkorn er hollt sælgæti!

Svo hljóðaði auglýsing er birtist á síðu Morgunblaðsins í júlílok árið 1968 - en...

Lesning fyrir heilabilaða
Líf&Starf 4. maí 2022

Lesning fyrir heilabilaða

Þegar ég setti saman bókina Í húsi afa míns sem kom út fyrir tólf árum, hvarflað...