Gjaldfrjáls skólaganga
Leikskóli verður gjaldfrjáls fyrir öll börn í sveitarfélaginu Eyja- og Miklaholtshreppi.
Tillaga þess efnis var samþykkt á fundi sveitarstjórnar Eyja- og Miklaholtshrepps þann 14. nóvember sl. Herdís Þórðardóttir, varaoddviti sveitarfélagsins, lagði fram tillögu um að leikskóli verði gjaldfrjáls fyrir öll leikskólabörn í sveitarfélaginu frá og með 1. janúar 2025, en miðað er við vistun að hámarki átta tíma á dag. Tillagan var samþykkt samhljóða.
Sveitarfélagið hefur þegar fellt út gjöld vegna skólamáltíða bæði grunn- og leikskólabarna. Þá greiðir það 120.000 krónur með ungbörnum frá tólf mánaða aldri þar til þau fá leikskólapláss.
Íbúar Eyja- og Miklaholtshrepps voru 123 talsins í ársbyrjun 2024.
