Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 4 mánaða.
Julie Encausse, stofnandi og framkvæmdastjóri frumkvöðlafyrirtækis
sem þróar umhverfisvænar umbúðir.
Julie Encausse, stofnandi og framkvæmdastjóri frumkvöðlafyrirtækis sem þróar umhverfisvænar umbúðir.
Mynd / Art Bicknick
Fréttir 16. júlí 2025

Getur leyst plast af hólmi

Höfundur: Ástvaldur Lárusson

Frumkvöðlafyrirtækið Marea Iceland hyggst setja á markað umhverfisvænt húðunarefni fyrir gúrkur í kringum áramót. Vörurnar eru unnar úr hliðarafurðum frá líftækniiðnaði.

Stofnandi og framkvæmdastjóri Marea Iceland er Julie Encausse. Hún segir mikla vinnu hafa farið í að þróa húðunarefnið undanfarin þrjú ár og nú sé stutt í að hægt sé að markaðssetja vöruna, sem hefur fengið nafnið Iceborea.

Fjölsykrur og prótein

„Við erum í samstarfi við líftæknifyrirtækið Algalíf sem framleiðir svokallað astaxanthin, sem er öflugt andoxunarefni unnið úr smáþörungum. Við framleiðslu á efninu er ekki nema fimm til sjö prósent af lífmassanum astaxanthin, en hitt er vannýtt. Úr þessu afgangsefni tökum við fjölsykrur og prótein sem er aðal innihaldsefni húðunarefnisins sem er notað sem vörn fyrir ávexti og grænmeti.“

Julie segir að síðustu þremur árum hafi verið varið í rannsóknarvinnu en nú styttist í markaðs- og iðnaðarprufur. Fyrst verður unnið með agúrkur, en Marea er komið í samstarf við íslenska framleiðendur, dreifingaraðila og söluaðila. „Við erum lítið sprotafyrirtæki og þurfum að byrja einhvers staðar. Gúrkur eru ræktaðar hér allan ársins hring og því best að byrja þar,“ segir Julie. Hún segir þó áform uppi um að þróa lausnir fyrir mun fleiri tegundir af grænmeti, ávöxtum og berjum.

Leysist upp í vatni

„Þetta er ósýnilegt, lyktarlaust og bragðlaust. Það eru engir ofnæmisvaldar og engar dýraafurðir, þannig að þetta er líka vegan. Það eina sem fólk getur séð er að húðaðar gúrkur eru örlítið meira glansandi en óhúðaðar,“ segir Julie. „Það er í lagi að borða húðunarefnið, en það er líka hægt að skola það af, en undir vatnskrana er hægt að sjá örlítið gel-lag leysast upp.

Samkvæmt rannsóknum Marea viðheldur þetta ferskleika og þéttleika á gúrkum í allt að fimmtán daga, á meðan óhúðaðar gúrkur endast skemur en í viku. „Í okkar mælingum þar sem við erum að bera saman gúrkur í plasti, húðaðar og ekki húðaðar, nær húðin að varðveita C-vítamín og andoxunarefni lengur en plastið. Eftir fimmtán daga nær plastið að halda gúrkunni stífri betur en húðunarefnið, en þá eru líka mjög oft farnar að myndast mygluskemmdir á gúrkunni.“ Julie bendir á að innlendar gúrkur séu yfirleitt borðaðar innan fimmtán daga frá uppskeru og því vel raunhæft að dreifa þeim öllum í plastlausum umbúðum.

Einfalt fyrir framleiðendur

„Allir dreifingaraðilar, framleiðendur og söluaðilar sem við höfum talað við hafa sýnt mikinn vilja til að koma þessu á markað,“ segir Julie. Hún skynji áhuga á því að skoða nýjar lausnir sem minnka plastnotkun, enda framleiðendur meðvitaðir um að neytendur kjósi frekar vörur án plasts. Efninu sé úðað á grænmetið með einföldum vélum og eftir húðun er hægt að merkja grænmetið með límmiða.

„Samkvæmt okkar vinnu á tilraunaskala má gera ráð fyrir að með einu kílói af okkar húðunarefni, sem er selt á duftformi og er blandað út með vatni, er hægt að húða rétt tæplega eitt tonn af gúrkum.“ Nú er Marea að byggja upp verksmiðju við Syðstu-Mörk í Rangárþingi eystra og gerir Julie ráð fyrir að starfsemi hefjist í kringum áramót. „Ég er virkilega þakklát fyrir að þetta sé komið á þann stað sem þetta er komið og að við séum að fá svona góðar móttökur.“

Skylt efni: plastumbúðir

Lausn á vísnagátu
Líf&Starf 24. nóvember 2025

Lausn á vísnagátu

Lausnin á vísnagátu Guðbjörns Sigurmundssonar í síðasta Bændablaði er orðið mál.

Skákmánuðurinn janúar
Líf&Starf 3. febrúar 2025

Skákmánuðurinn janúar

Janúarmánuður hefur lengi verið frekar stór skákmánuður á Íslandi. Í þeim mánuði...

Þörfnumst heilbrigðara sambands við tímann
Líf&Starf 13. desember 2024

Þörfnumst heilbrigðara sambands við tímann

Carl Honoré, sem gjarnan hefur verið kallaður rödd alþjóðlegu Hæglætishreyfingar...

Sækja áhrif til Suður-Evrópu
Líf&Starf 9. október 2024

Sækja áhrif til Suður-Evrópu

Í síðustu úthlutun Matvælasjóðs fengu bændur í Syðra-Holti í Svarfaðardal rúmleg...

Brautryðjandi í búskap með íslenska hesta í Noregi
Líf&Starf 14. ágúst 2024

Brautryðjandi í búskap með íslenska hesta í Noregi

Ingebjørg Helkås Vaa fæddist í Noregi 14. júlí 1933, yngst fimm systkina. Hún va...

Stjörnuspá vikunnar
Líf&Starf 2. júlí 2024

Stjörnuspá vikunnar

Vatnsberinn veit vart í hvorn fótinn hann á að stíga þessa dagana. Lífið virðist...

Heitt poppkorn er hollt sælgæti!
Líf&Starf 10. maí 2022

Heitt poppkorn er hollt sælgæti!

Svo hljóðaði auglýsing er birtist á síðu Morgunblaðsins í júlílok árið 1968 - en...

Lesning fyrir heilabilaða
Líf&Starf 4. maí 2022

Lesning fyrir heilabilaða

Þegar ég setti saman bókina Í húsi afa míns sem kom út fyrir tólf árum, hvarflað...

https://bestun.airserve.net/banner_bundles/de3e87e0d8dde67f98882b3ac12f8b2f