Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 4 ára.
Garðyrkjuskólinn á Reykjum skilinn frá Landbúnaðarháskóla Íslands
Fréttir 14. janúar 2021

Garðyrkjuskólinn á Reykjum skilinn frá Landbúnaðarháskóla Íslands

Höfundur: Vilmundur Hansen

Að fengnum niðurstöðum starfs­hóps um starfsmenntanám við Landbúnaðarháskóla Íslands hefur mennta- og menningar­málaráðherra ákveðið að hefja skuli undirbúning að tilfærslu starfsmenntanáms í garðyrkju og skyldum greinum við LbhÍ á Reykjum í Ölfusi undir yfirstjórn og ábyrgð Fjölbrautaskóla Suðurlands.

Í bréfi sem ráðherra sendi rektor LbhÍ þann 23. desember síða­st­liðinn segir að til að vinna að þessum áformum sé stefnt að því að gera sérstakan þríhliða samning um yfirfærslu námsins á milli LbhÍ, FSU og mennta- og menningarmálaráðuneytis.

Óánægja innan garðyrkjunnar

Talsverð óánægja hefur verið um stöðu starfsmenntanáms garð­yrkjunnar innan Landbúnaðar­háskóla Íslands.

Fulltrúar greinar­innar hafa bent á að starfsmenntanám eins og er í boði á Reykjum sé á framhaldsskólastigi og eigi því ekki að vera kennt við háskóla.

Í samþykkt félagsfundar Sam­bands garðyrkjubænda 23. október 2019 var samþykkt eftirfarandi ályktun:
„Garðyrkjuskóli ríkisins að Reykjum í Ölfusi, sem starfað hafði sjálfstætt frá stofnun hans 1939, var sameinaður Landbúnaðarháskóla Íslands (LbhÍ) fyrir 15 árum. Hefur garðyrkjunám verið starfrækt innan starfs- og endurmenntunardeildar skólans. Þær breytingar hafa ekki skilað þeim árangri sem vænst var. Garðyrkjunámið hefur frá sameiningu liðið fyrir þær tilraunir LbhÍ að leggja skólahald að Reykjum niður og dreifa því á ýmsar deildir innan skólans.

Garðyrkjunámið að Reykjum er starfsmenntanám í nánum tengslum við atvinnugreinina. Það er algjört lykilatriði í sókn og áframhaldandi uppbyggingu garðyrkjunnar á Íslandi að vel sé staðið að þessu námi, og því sinnt af metnaði og þekkingu á þörfum atvinnulífsins.

Samband garðyrkjubænda telur núverandi aðstæður óviðunandi og að brýn nauðsyn sé á að starfsmenntanám í garðyrkju á Íslandi verði fært undan LbhÍ, og verði framvegis sjálfstæð rekstrareining. Það er eindreginn vilji þeirra sem starfa innan vébanda Sambands garðyrkjubænda að þegar í stað verði gengið til þeirra verka.“

Fagnar ákvörðun ráðherra

Guðríður Helgadóttir, starfsmennta­námsstjóri og starfsmaður á Reykjum, segir í tengslum um tilfærslu starfsmenntanáms garð­yrk­j­­­­­unnar frá LbhÍ til FSU.

„Um leið og ég fagna því að ráðherra sé búinn að taka ákvörðun um að færa starfsmenntanám í garðyrkju og skyldum greinum undan stjórn LbhÍ er ljóst að tilfærslan er flókið verkefni sem þarf að leysa í góðri sátt við námið á Reykjum og atvinnulíf garðyrkjunnar.

Guðríður Helgadóttir, starfsmennta­námsstjóri og starfsmaður á Reykjum.

Í mínum huga er lykilatriði að tryggja að kjarnastarfsemin á Reykjum verði áfram garðyrkjunám á framhaldsskólastigi, eins og verið hefur allt frá stofnun Garðyrkjuskóla ríkisins árið 1939, en ríkið færði Reykjatorfuna á þeim tíma gagngert undir starfsemi garðyrkjuskóla. Nauðsynlegt er að garðyrkju- og umhverfisnám sé fóstrað í góðri starfs­aðstöðu og hefur sú aðstaða byggst upp á Reykjum undanfarna áratugi, meðal annars með stuðningi atvinnulífs garðyrkjunnar. Hér er jafnframt eina sérhæfða aðstaðan sem til er í landinu fyrir þessar greinar, en alls er garðyrkjunám kennt á sex mismunandi náms­brautum. Mikilvægt er að rýra ekki framtíðarmöguleika garð­yrkju- og umhverfisnáms á framhalds­skólastigi því þessar greinar skipta samfélagið öllu máli á tímum þegar ræktun, umhverfis- og loftslagsmál eru í brennidepli.

Mikill uppgangur er í þessum greinum og nauðsynlegt að tryggja að til staðar sé vel menntað fagfólk sem kann til verka. Á síðustu árum hefur innihald allra námsbrauta garðyrkjunáms verið endurskoðað í samstarfi við viðkomandi atvinnu­greinar og er nú unnið eftir nýrri námskrá sem samþykkt var af mennta- og menningarmálaráðherra sumarið 2018. Gott og farsælt samstarf við atvinnulíf garðyrkjunnar er forsenda fyrir því að námið og garðyrkjugreinarnar blómstri áfram enda fer verknám í garðyrkju fram úti í atvinnulífinu.

Rætur Garðyrkjuskólans eru á Reykjum og mikilvægt að þær haldi þó námið færist frá LbhÍ til FSu enda er eðlilegast að skólinn færist í heild sinni yfir, að húsnæði, landareignir og allir starfsmenn á staðnum fylgi með. Það er forsendan fyrir því að tryggja hagfellda tilfærslu námsins, farsæla framtíð garðyrkjumenntunar í landinu og áframhaldandi vöxt á svæðinu.

Jafnframt má geta þess að kennsla hefst aftur í skólahúsnæðinu á Reykjum mánudaginn 18. janúar en allt síðastliðið ár hafa staðið yfir umfangsmiklar endurbætur á húsnæði skólans. Er það mikið fagnaðarefni fyrir okkur starfsmenn að fá nemendur aftur í Garðyrkjuskólann en kennsla á haustönn fór fram í húsnæði LbhÍ á Keldnaholti í Reykjavík.

Þríhliða samningur

Ragnheiður I. Þórarinsdóttir, rektor Landbúnaðarháskóla Íslands, sagði í svari við fyrirspurn Bænda­blaðsins um ákvörðun ráð­herra að flytja starfsmenntanámið frá Landbúnaðarháskólanum til Fjölbrauta­skóla Suðurlands:
„Samhliða þessu er lögð áhersla á að efla rannsóknir og ný­sköpun á vegum LbhÍ.“ Auk þess sem hún endurtók að „til að vinna að þessum áformum er stefnt að því að gera sérstakan þrí­hliða samning um yfir­færslu námsins á milli LbhÍ, FSU og mennta- og menningarmálaráðuneytis.“ Ragnheiður vildi ekki tjá sig frekar um málið að svo stöddu.

Ragnheiður I. Þórarinsdóttir, rektor Landbúnaðarháskóla Íslands.

FSU ekki með í ákvörðuninni

Olga Lísa Ólafsdóttir, skólameistari Fjölbrautaskóla Suðurlands, sagði í svari til Bændablaðsins um tilfærslu starfsmenntanáms í garðyrkju og skyldum greinum undir yfirstjórn og ábyrgð Fjölbrauta­skóla Suðurlands:
„Forsendur mínar eru mjög takmarkaðar til að taka afstöðu til þessa verkefnis, því á ég erfitt með að segja mikið. Við vorum ekki með í þessari ákvörðun.

Olga Lísa Ólafsdóttir, skólameistari Fjölbrautaskóla Suðurlands.

Þetta er spennandi verkefni sem ég samþykkti að taka þátt í en á alveg eftir að sjá hvað er í pakkanum.“

Lausn á vísnagátu
Líf&Starf 24. nóvember 2025

Lausn á vísnagátu

Lausnin á vísnagátu Guðbjörns Sigurmundssonar í síðasta Bændablaði er orðið mál.

Skákmánuðurinn janúar
Líf&Starf 3. febrúar 2025

Skákmánuðurinn janúar

Janúarmánuður hefur lengi verið frekar stór skákmánuður á Íslandi. Í þeim mánuði...

Þörfnumst heilbrigðara sambands við tímann
Líf&Starf 13. desember 2024

Þörfnumst heilbrigðara sambands við tímann

Carl Honoré, sem gjarnan hefur verið kallaður rödd alþjóðlegu Hæglætishreyfingar...

Sækja áhrif til Suður-Evrópu
Líf&Starf 9. október 2024

Sækja áhrif til Suður-Evrópu

Í síðustu úthlutun Matvælasjóðs fengu bændur í Syðra-Holti í Svarfaðardal rúmleg...

Brautryðjandi í búskap með íslenska hesta í Noregi
Líf&Starf 14. ágúst 2024

Brautryðjandi í búskap með íslenska hesta í Noregi

Ingebjørg Helkås Vaa fæddist í Noregi 14. júlí 1933, yngst fimm systkina. Hún va...

Stjörnuspá vikunnar
Líf&Starf 2. júlí 2024

Stjörnuspá vikunnar

Vatnsberinn veit vart í hvorn fótinn hann á að stíga þessa dagana. Lífið virðist...

Heitt poppkorn er hollt sælgæti!
Líf&Starf 10. maí 2022

Heitt poppkorn er hollt sælgæti!

Svo hljóðaði auglýsing er birtist á síðu Morgunblaðsins í júlílok árið 1968 - en...

Lesning fyrir heilabilaða
Líf&Starf 4. maí 2022

Lesning fyrir heilabilaða

Þegar ég setti saman bókina Í húsi afa míns sem kom út fyrir tólf árum, hvarflað...

https://bestun.airserve.net/banner_bundles/de3e87e0d8dde67f98882b3ac12f8b2f