Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 2 ára.
Bandflettisög í viðarvinnslunni í Heiðmörk.
Bandflettisög í viðarvinnslunni í Heiðmörk.
Mynd / Skógræktarfélag Reykjavíkur
Líf og starf 30. maí 2023

Fullvinnsla afurða í Heiðmörk

Höfundur: Ástvaldur Lárusson

Skógræktarfélag Reykjavíkur starfrækir einu viðarvinnsluna á suðvesturhorninu. Starfsmaður hefur verið ráðinn í fullt starf til að vinna timbur úr grisjunarviði. Afurðirnar hafa farið í gólffjalir, bekki, skilti, stíga innréttingar o.fl.

Eftir því sem skógurinn í Heiðmörk eldist stækka trén og afurðirnar verða verðmætari. Sífellt stærra hlutfall viðarins nýtist í framleiðslu dýrari afurða, svo sem borðvið, í stað eldiviðar og kurls. Samtals eru tvö til þrjú ársverk sem fara í grisjun og vinnslu í Heiðmörk. Þetta kemur fram í fréttatilkynningu frá Skógræktarfélagi Reykjavíkur.

Talsverð verðmæti

Í viðarvinnslunni er bæði stórviðarsög og bandflettisög. Stórviðarsögin er notuð til að fletta trjábolum í borðvið. Bandflettisögin hentar fyrir sértækari verkefni, svo sem vinnslu á mjög sverum eða óreglulegum trjábolum.

Að auki við að nota tré úr Heiðmörk hefur vinnslan tekið á móti timbri sem fallið hefur til við grisjun eða vegna framkvæmda á höfuðborgarsvæðinu. Oft er það reyniviður eða alaskaösp. Talsvert verðmæti geta verið í slíku timbri.

Hvergi er flatarmál skógarins minnkað, heldur fellur allt hráefnið til við sjálfbæra grisjun. Skóglendið er víða þétt og nauðsynlegt að grisja til að trén geti vaxið og dafnað. Hæfileg grisjun skapar aukið rými og birtu í skóginum og þar með betri skilyrði til jafnari vaxtar fyrir þau tré sem eftir standa. Vegna þess hve hægt trén vaxa hérlendis hafa þau eiginleika sem gera þau eftirsóknarverð í smíðavið.

Nauðsynlegt að grisja reglulega

Í Heiðmörk eru um 270 hektarar af eldri barrskógum, sem eru að meðaltali 50 ára gamlir. Þá eru 140 hektarar af um það bil helmingi yngri barrskógum og 440 hektarar af blandskógum. Birkiskógar eru á um eitt þúsund hekturum til viðbótar. Víða hefur skógurinn náð þeim aldri að trén eru farin að vaxa nokkuð hratt og nauðsynlegt að sinna grisjun reglulega. Rúmlega fjórir hektarar voru grisjaðir í Heiðmörk í fyrra.

Á annað hundrað rúmmetra af timbri féll til við grisjunina og var meðal annars notað í borðvið, bolvið og eldivið. Nú er verið að vinna efni í timburborð fyrir Perlufestina, göngustíg umhverfis Perluna. Það er stærsta pöntun á vörum Skógræktarfélags Reykjavíkur til þessa – alls 15 kílómetrar af borðviði. Hátt í þrjú þúsund lengdarmetrar af borð- og bolvið voru framleiddir í Heiðmörk á síðasta ári.

Skylt efni: Skógrækt | viðarvinnsla

Lausn á vísnagátu
Líf&Starf 24. nóvember 2025

Lausn á vísnagátu

Lausnin á vísnagátu Guðbjörns Sigurmundssonar í síðasta Bændablaði er orðið mál.

Skákmánuðurinn janúar
Líf&Starf 3. febrúar 2025

Skákmánuðurinn janúar

Janúarmánuður hefur lengi verið frekar stór skákmánuður á Íslandi. Í þeim mánuði...

Þörfnumst heilbrigðara sambands við tímann
Líf&Starf 13. desember 2024

Þörfnumst heilbrigðara sambands við tímann

Carl Honoré, sem gjarnan hefur verið kallaður rödd alþjóðlegu Hæglætishreyfingar...

Sækja áhrif til Suður-Evrópu
Líf&Starf 9. október 2024

Sækja áhrif til Suður-Evrópu

Í síðustu úthlutun Matvælasjóðs fengu bændur í Syðra-Holti í Svarfaðardal rúmleg...

Brautryðjandi í búskap með íslenska hesta í Noregi
Líf&Starf 14. ágúst 2024

Brautryðjandi í búskap með íslenska hesta í Noregi

Ingebjørg Helkås Vaa fæddist í Noregi 14. júlí 1933, yngst fimm systkina. Hún va...

Stjörnuspá vikunnar
Líf&Starf 2. júlí 2024

Stjörnuspá vikunnar

Vatnsberinn veit vart í hvorn fótinn hann á að stíga þessa dagana. Lífið virðist...

Heitt poppkorn er hollt sælgæti!
Líf&Starf 10. maí 2022

Heitt poppkorn er hollt sælgæti!

Svo hljóðaði auglýsing er birtist á síðu Morgunblaðsins í júlílok árið 1968 - en...

Lesning fyrir heilabilaða
Líf&Starf 4. maí 2022

Lesning fyrir heilabilaða

Þegar ég setti saman bókina Í húsi afa míns sem kom út fyrir tólf árum, hvarflað...