Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en mánaðar gamalt.
Fonterra í frjálsu falli
Á faglegum nótum 8. október 2025

Fonterra í frjálsu falli

Höfundur: Snorri Sigurðsson

Alþjóðlegi bankinn Rabobank, sem er hollenskur að uppruna og samvinnufélag, er líklega með einhverja bestu fjármáladeild heims þegar kemur að málefnum landbúnaðar og matvælaframleiðslu almennt.

Eitt af því sem bankinn gerir árlega er að gefa út skýrslu um stöðu helstu afurðafyrirtækja heimsins í mjólkuriðnaði og í lok ágúst kom einmitt út skýrslan fyrir árið 2024. Þar kemur eitt og annað áhugavert fram og einna athyglisverðast er að sjá þar hvar hið fornfræga samvinnufélag nýsjálenskra kúabænda, sem hér í eina tíð bar höfuð og herðar yfir önnur sambærileg fyrirtæki í heiminum, er nánast í frjálsu falli þessi árin og má muna sinn fífil fegurri. Félagið er nú það sjöunda stærsta í heiminum og þrátt fyrir að árið 2023 hafi raunar verið nokkuð gott hjá því, þá hallaði aftur undan fæti árið 2024. Spá skýrsluhöfundar því meira að segja að félagið haldi áfram á þessari för sinni á þessu og næsta ári!

Lactalis langstærst

Samkvæmt yfirliti Rabobank, sjá meðfylgjandi töflu, var árið 2024 annars almennt gott ár fyrir mjólkuriðnað og juku 20 stærstu fyrirtækin í heiminum á þessu sviði veltu sína um 0,6% frá fyrra ári. Auðvitað var gangur fyrirtækjanna nokkuð ólíkur en flest stærstu fyrirtækin sóttu fram og urðu litlar sviptingar á listanum, en þó urðu nokkrar breytingar á honum með sætaskiptum átta fyrirtækja. Líkt og verið hefur undanfarin ár þá er franski risinn Lactalis langstærsta fyrirtæki heims í mjólkuriðnaði og með algjöra yfirburði á önnur fyrirtæki í þessari atvinnugrein. Áætluð velta Lactalis árið 2024 nam alls 31,9 milljörðum, sem eru í kringum 3.900 milljarðar íslenskra króna!

Engar breytingar á topp 5

Fimm stærstu fyrirtækin héldu öll sætum sínum á milli ára en sem fyrr er það svissneska Nestlé sem er í öðru sæti. Fyrirtækið á þó í einhverjum vanda enda hefur velta þess staðið í stað þrjú ár í röð. Þá er hið bandaríska félag Dairy Farmers of America það þriðja sem er í raun góð niðurstaða enda var bandaríkjadalur ekki mjög stöðugur síðasta ár og afurðastöðvaverð nokkuð sveiflukennt í Bandaríkjunum. Hið franska Danone er svo í fjórða sæti og siglir nokkuð lygnan sjó. Kínverska fyrirtækið Yili er sem fyrr í fimmta sæti, sem er í raun góður árangur þar sem staðan á kínverska markaðinum var mjög erfið allt síðasta ár og dróst velta Yili saman um 9,7% á milli ára. Á hæla þess kemur svo norður-evrópska félagið Arla í sjötta sæti, en félagið hafði sætaskipti við framangreint Fonterra árið 2024.

Fonterra út af topp 10?

Eins og áður segir þá hafa undanfarin ár verið afar erfið fyrir nýsjálenska félagið Fonterra í kjölfar ótal undarlegra fjárfestinga í mismunandi löndum. Þannig byggði félagið t.d. upp risastórt kúabú og þróunarsetur mjólkuriðnaðarins í Kína fyrir nokkrum árum, en þetta fór allt lóðbeint á hausinn á örfáum árum og skildi eftir gríðarlegt tap hjá Fonterra. Þá stóð félagið í margs konar óvenjulegum fjárfestingum á liðnum árum sem í dag hafa meira eða minna verið seldar frá félaginu eða verið lokað. Eins og gefur að skilja hafa bændurnir í stjórn Fonterra nú hreinsað út í framkvæmdastjórn þess og gæti verið að nýjar áherslur muni skila sér í sterkari stöðu á komandi árum. Til skemmri tíma litið er þó ljóst að umsvif Fonterra mun dragast enn frekar saman og er því spáð að þegar á næsta ári verði það fallið niður í tíunda sæti listans eða jafnvel neðar. Það breytir því ekki að reksturinn gæti verið ágætur og skilað bændum arðsemi umfram það sem hann gerir í dag, enda segir heildarveltan ekki mikið um arðsemina sem slíka.

Kanadíska Saputo í mestum vexti

Í áttunda sæti listans situr hollenska afurðafélagið FrieslandCampina, í sama sæti og árið 2023. Félagið fór í gegnum töluverðar breytingar á rekstri árið 2023 og 2024 og má telja alllíklegt að það muni styrkja sig á komandi árum. Einna áhugaverðustu fréttirnar í þessu yfirliti Rabobank eru tíðindin af kanadíska fjölskyldufyrirtækinu Saputo, en velta þess á milli ára jókst mest allra fyrirtækjanna á topp 20 lista Rabobank. Alls jókst veltan um 8,4% á milli ára og dugði það til þess að ýta hinu kínverska Mengniu niður í níunda sæti listans, en það líkt og hið kínverska Yili átti í töluverðum erfiðleikum árið 2024 vegna samdráttar á kínverska markaðinum og minnkaði heildarvelta Mengniu um alls 11,5% frá árinu 2023. Munar um minna!

Samrunar og uppkaup

Það eru spennandi tímar fram undan þegar horft er til alþjóðlegrar starfsemi í mjólkuriðnaði þar sem meginstraumurinn liggur í átt að stærri og stærri rekstrareiningum. Í farvatninu eru bæði áhugaverðir samrunar og fyrirhuguð uppkaup eða sérhæfing. Þar ber helst að nefna tilkynntan samruna hins hollenska samvinnufélags FrieslandCampina og hins belgíska samvinnufélags Milcobel og í raun helsta keppinautar FrieslandCampina á heimamarkaðssvæðinu. Milcobel mun renna inn í FrieslandCampina væntanlega síðar á þessu ári eða í byrjun þess næsta. Eftir samrunann verður hið nýja félag með árlega veltu í kringum 15 milljarða dollara, með 22 þúsund starfsmenn og í eigu 16 þúsund bænda á 11 þúsund kúabúum. Árleg innvigtun mjólkur verður í kringum 10 milljarðar lítra frá eigendahópnum sem spannar fjögur lönd: Holland, Belgíu, Þýskaland og Frakkland.

Arla og DMK í eina sæng

Þá er ekki síður áhugaverður samruni í vændum hjá Arla og hinu þýska DMK á næsta ári þegar áætlað er að DMK renni inn í Arla. Eftir mun standa samvinnufélag með um 19 milljarða lítra mjólkur árlega, 29 þúsund starfsmenn og í eigu 12 þúsund bænda í Danmörku, Svíþjóð, Þýskalandi, Belgíu, Hollandi, Lúxemborg og Englandi. Áætluð árleg velta hins stækkaða samvinnufélags er um 20 milljarðar dollara og mun það mögulega herja á fjórða sæti listans eftir samrunann og hafa möguleg sætaskipti við Danone.

Ný fyrirtæki væntanleg

Fleiri fréttir eru væntanlegar á þessu heimssviði en hið hollenska Unilever er að færa stærstu ísmerki sín í nýtt fyrirtæki, sem fer svo sjálfstætt á markað í haust. Í dag er Unilever ellefta stærsta fyrirtækið á heimslista Rabobank og eftir að Magnum ísdeildin verður skilin frá mun það væntanlega hverfa af honum, en Magnum mun einfaldlega koma í staðinn inn á listann. Enn fremur hefur hið svissneska Emmi verið í mikilli sókn undanfarin ár, m.a. með Emmi Caffè Latte línuna sína.

Lactalis áfram á skriði

Sé horft til framtíðar meta skýrsluhöfundar það svo að franski risinn Lactalis, sem er í eigu einnar fjölskyldu, muni halda áfram að vaxa á komandi árum og raunar telja þeir að fyrirtækið muni vaxa mun hraðar en önnur. Árið 2024 keypti Lactalis t.d. fyrirtækið Cremora í SuðurAfríku en Cremora var áður í eigu Nestlé. Cremora er stórfyrirtæki á sviði framleiðslu á kaffimjólkurbæti. Þá keypti Lactalis einnig fyrirtækið Sequeira í Portúgal á árinu. Í ár hefur það svo haldið áfram og bætt við sig fleiri fyrirtækjum víða um heiminn. Segir í skýrslunni að miðað við framgang Lactalis á þessu ári, í samanburði við önnur fyrirtæki og félög á listanum, þá megi búast við því að Lactalis verði með rekstrartekjulega yfirburði á Nestlé í öðru sætinu sem gæti numið um 10 milljörðum dollara í náinni framtíð. Ef svo verður er harla erfitt að sjá fyrir að nokkurt fyrirtæki eða félag í heiminum geti orðið slegist almennilega við Lactalis ef á reyndi.

Heimild: Rabobank.com

Lausn á vísnagátu
Líf&Starf 24. nóvember 2025

Lausn á vísnagátu

Lausnin á vísnagátu Guðbjörns Sigurmundssonar í síðasta Bændablaði er orðið mál.

Skákmánuðurinn janúar
Líf&Starf 3. febrúar 2025

Skákmánuðurinn janúar

Janúarmánuður hefur lengi verið frekar stór skákmánuður á Íslandi. Í þeim mánuði...

Þörfnumst heilbrigðara sambands við tímann
Líf&Starf 13. desember 2024

Þörfnumst heilbrigðara sambands við tímann

Carl Honoré, sem gjarnan hefur verið kallaður rödd alþjóðlegu Hæglætishreyfingar...

Sækja áhrif til Suður-Evrópu
Líf&Starf 9. október 2024

Sækja áhrif til Suður-Evrópu

Í síðustu úthlutun Matvælasjóðs fengu bændur í Syðra-Holti í Svarfaðardal rúmleg...

Brautryðjandi í búskap með íslenska hesta í Noregi
Líf&Starf 14. ágúst 2024

Brautryðjandi í búskap með íslenska hesta í Noregi

Ingebjørg Helkås Vaa fæddist í Noregi 14. júlí 1933, yngst fimm systkina. Hún va...

Stjörnuspá vikunnar
Líf&Starf 2. júlí 2024

Stjörnuspá vikunnar

Vatnsberinn veit vart í hvorn fótinn hann á að stíga þessa dagana. Lífið virðist...

Heitt poppkorn er hollt sælgæti!
Líf&Starf 10. maí 2022

Heitt poppkorn er hollt sælgæti!

Svo hljóðaði auglýsing er birtist á síðu Morgunblaðsins í júlílok árið 1968 - en...

Lesning fyrir heilabilaða
Líf&Starf 4. maí 2022

Lesning fyrir heilabilaða

Þegar ég setti saman bókina Í húsi afa míns sem kom út fyrir tólf árum, hvarflað...