Flóðgátt Flóaáveitu við Hvítá á Brúnastaðaflötum
Hún er inntak áveitukerfis sem liggur um alls 300 kílómetra af skurðum í Flóanum. Framkvæmdir við áveituna hófust árið 1922 og stóðu til ársins 1927. Tilgangurinn var að veita áburðarríku jökulvatni yfir engjar til að auka heyfeng bænda. Aðalskurðurinn er um sex kílómetrar að lengd og var grafinn með skurðgröfu, en stærsti hluti áveitukerfisins var grafinn með höndum. Áveitan þjónaði upphaflegu hlutverki sínu í fjóra áratugi, en síðast var heyjað af engjum svo nokkru næmi sumarið 1971. Í dag er Flóaáveita rekin sem vatnsmiðlunarkerfi og flytur burt vatn í leysingum en í þurrkum er vatni hleypt inn á kerfið til að halda uppi grunnvatnsstöðu.
