Kjarnfóðurbásar með lokunarbúnaði til þess að vernda lægra settar kýr.
Kjarnfóðurbásar með lokunarbúnaði til þess að vernda lægra settar kýr.
Mynd / Hanskamp.
Á faglegum nótum 28. nóvember 2025

Fjóshönnun fyrir allar kýr

Höfundur: Snorri Sigurðsson

Virðingarröð hjá kúm er stór hluti af þeirra daglegu tilvist og innan hvers hóps kúa eru nokkrir mismunandi flokkar af kúm, byggt á þeirri stöðu sem kýrnar hafa innan hjarðarinnar.

Þessi röðun innan hjarðarinnar, sem oft er kölluð „goggunarröð“ sem eins og nafnið bendir til kemur frá hænsnarækt, hefur meiri áhrif en margur heldur og kemur m.a. fram í afurðasemi gripa svo dæmi sé tekið.

Virðingarkerfið

Röðun kúa í mismunandi virðingarstöðu innan hjarðarinnar hefur þá meginþýðingu að skapa sterkari kúm betra aðgengi að fríðindum. Í fjósum kemur þetta fram í því að kýrnar njóta forgangs hjarðarinnar við át, þ.e. ef það er takmarkandi þáttur, að betri legubásunum, að drykkjarkari o.s.frv. Það er náttúrulegt atferli kúa að koma upp svona virðingarröð og það gerist með því að þær slást og hnýta hver í aðra þar til hver og ein þeirra veit hvaða kýr er hærra sett og hvaða kýr er lægra sett. Lægra settar kýr vita því upp á hár hvaða kýr ber að forðast, hvenær betra sé að víkja en að halda einhverju til streitu o.s.frv. Kýrnar halda sinni stöðu nokkuð vel en geta auðvitað færst til innan virðingarraðarinnar einnig, þegar breytingar verða.

Fjós geta verið erfið

Þegar kýr eru í fjósum geta komið upp aðstæður sem gera kúnum erfitt fyrir að viðhalda „réttri“ virðingarröð þar sem aðstæður geta skapast sem gera það að verkum að lægra settar kýr geta hreinlega ekki vikið undan hærra settum. Með öðrum orðum þá lenda þessar lægra settu kýr í því að vera lagðar í hálfgert einelti og þegar þetta gerist skapast félagsleg óvissa innan hjarðarinnar. Slík staða getur svo haft áhrif á ýmsa framleiðslu- og hagnaðartengda þætti í rekstri kúabúa, eins og minni mjólkurframleiðslu t.d., vegna þess að þær sem verða fyrir einelti fá síður frið til að éta eða einungis frið til þess þegar hinar sem hærra eru settar hafa lokið sér af, minni framleiðslu vegna styttri hvíldar sem hinar sem í eineltinu lenda fá o.s.frv.

Kýr eiga vini

Virðingarröðin hefur einnig áhrif á hópamyndun innan hjarðanna og þannig geta kýr átt sérstakar „vinkonur“ þ.e. kýr sem þær eiga meiri samleið með og sækja í að vera í nánd við. Þetta kemur m.a. fram þannig að þær liggja oftar á svipuðu svæði í fjósunum og það atferli að sleikja hver aðra eða önnur hina er ein leið kúnna til að sýna vináttu og styrkja böndin. Þá sýna rannsóknir að kýr sem eru ofarlega í virðingarröð kúa liggja t.a.m. oft saman í fjósum eða í nánd við hver aðra.

Ný kýr í hópnum

Ekki ósvipað og í mannheimum þá næst jafnvægi í hjarðir kúa og þær læra hver á aðra og þá sérstaklega hvaða kýr ber að forðast. Þegar nýjar kýr koma aftur inn í hópinn skapast ákveðin óregla sem tekur stundum nokkra daga að jafna sig, enda hefst þá röð ákveðinna árekstra innan hópsins þar til hin nýja kýr eða nýju kýr hafa fundið sinn stað og þarf það alls ekki að þýða að þær raðist lægstar.

Hönnun fjósa

Undanfarin ár hefur orðið hrein bylting hér á landi varðandi aðbúnað kúa og í dag er meirihluti kúnna í lausagöngufjósum. Hönnun slíkra fjósa hefur einnig tekið miklum breytingum á síðustu áratugum þegar lausagöngufjósum tók að fjölga verulega upp úr síðustu aldamótum. Ein breytingin sem sjá má, eða ætti a,m,k. að sjást, á nútímateikningum fjósa er einmitt hönnun sem miðar að því að draga verulega úr líkum á árekstrum kúa innan fjósanna.

Þessi hönnun snýst mest um að búa til mögulegar flóttaleiðir fyrir kýr, þ.e. að það myndist hvergi sú staða innan fjóssins að hátt sett kýr geti hreinlega króað lægra setta af og haldið henni þar í skefjum. Því eru nú orðið svokallaðar legueyjur í fjósum minni en þær voru áður og oftar en ekki gangar við alla enda á legusvæðum svo kýr eigi um a.m.k. tvo valkosti að ræða þegar þær vilja t.d. fara og fá sér að éta eða drekka.

Kjarnfóðurbásinn

Í flestum, ef ekki öllum, mjaltaþjónafjósum hérlendis eru svokallaðir kjarnfóðurbásar en þar fá kýrnar fóðurbæti í samræmi við afurðasemi þeirra og er þessari fóðurgjöf skipt upp í margar stuttar átlotur sem er dreift yfir sólarhringinn. Þetta er gert til þess að hámarka nýtingu á meltingarvegi kúa og þar með á fóðurbætinum. Þessar fóðurstöðvar, kjarnfóðurbásarnir, eru þó þannig hannaðir að kýr þurfa að ganga inn í þá og svo bakka út aftur eftir að þær hafa étið. Áður fyrr voru þessir kjarnfóðurbásar alltaf opnir, þ.e. afturhluti kúnna stóð óvarinn fyrir mögulegri árás annarra kúa. Sumar kýr kunna nefnilega vel á kerfið og sé lágt sett kýr í kjarnfóðurbás, sem fær skammtinn sinn ofan í átdallinn, þá er hún oft hraustlega hnoðuð af frekari kú eða kúm svo hún gefur eftir og bakkar út úr básnum án þess að klára að éta upp skammtinn sinn. Fyrir vikið getur sterkari kýr hreinlega fengið meira að éta en henni ber.

Þetta er ástæða þess að kjarnfóðurbásar eru í dag seldir með þeim möguleika að hafa hlið eða lokunarbúnað á þeim aftanverðum svo þetta geti ekki gerst en dæmi um svona búnað má sjá á meðfylgjandi mynd.

Gera úttekt

Það er full ástæða til að hvetja alla kúabændur til þess að gera úttekt á eigin fjósum með árekstrarsvæði kúa í huga og skoða hvort í fjósum þeirra séu möguleg svæði þar sem hátt settar kýr geta króað aðrar kýr af. Sé það tilfellið þarf að meta hvort hægt sé að bæta úr stöðunni jafnvel þó það kalli á framkvæmdir og einhvern kostnað. Það getur hreinlega borgað sig með auknu áti lægra settra kúa, meiri hvíld þeirra og þar með aukinni mjólkurframleiðslu auk þess sem almenn velferð hjarðarinnar eykst.

Lausn á vísnagátu
Líf&Starf 24. nóvember 2025

Lausn á vísnagátu

Lausnin á vísnagátu Guðbjörns Sigurmundssonar í síðasta Bændablaði er orðið mál.

Skákmánuðurinn janúar
Líf&Starf 3. febrúar 2025

Skákmánuðurinn janúar

Janúarmánuður hefur lengi verið frekar stór skákmánuður á Íslandi. Í þeim mánuði...

Þörfnumst heilbrigðara sambands við tímann
Líf&Starf 13. desember 2024

Þörfnumst heilbrigðara sambands við tímann

Carl Honoré, sem gjarnan hefur verið kallaður rödd alþjóðlegu Hæglætishreyfingar...

Sækja áhrif til Suður-Evrópu
Líf&Starf 9. október 2024

Sækja áhrif til Suður-Evrópu

Í síðustu úthlutun Matvælasjóðs fengu bændur í Syðra-Holti í Svarfaðardal rúmleg...

Brautryðjandi í búskap með íslenska hesta í Noregi
Líf&Starf 14. ágúst 2024

Brautryðjandi í búskap með íslenska hesta í Noregi

Ingebjørg Helkås Vaa fæddist í Noregi 14. júlí 1933, yngst fimm systkina. Hún va...

Stjörnuspá vikunnar
Líf&Starf 2. júlí 2024

Stjörnuspá vikunnar

Vatnsberinn veit vart í hvorn fótinn hann á að stíga þessa dagana. Lífið virðist...

Heitt poppkorn er hollt sælgæti!
Líf&Starf 10. maí 2022

Heitt poppkorn er hollt sælgæti!

Svo hljóðaði auglýsing er birtist á síðu Morgunblaðsins í júlílok árið 1968 - en...

Lesning fyrir heilabilaða
Líf&Starf 4. maí 2022

Lesning fyrir heilabilaða

Þegar ég setti saman bókina Í húsi afa míns sem kom út fyrir tólf árum, hvarflað...

https://bestun.airserve.net/banner_bundles/de3e87e0d8dde67f98882b3ac12f8b2f